25.4.06

Betl

Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn í einni af mínum vonlausu tilraunum til að afla mér æðri gráðu í hinum harðari vísindum, þurfti ég að taka lest í skólann. Ég fór út á Nörreport en í tröppunum upp og út sat betlari undir vegg. Hann mætti betur til þessarar iðju en ég í skólann.

Hvað er að gerast hugsaði ég. Er þetta ekki Danmörk, land velferðar og léttleika?

Maðurinn var hvítur, sennilega ekki þrítugur, grannur en ekki beinlínis horaður, og ef hann hefði farið í létta sturtu og skipt um föt hefði maður haldið að þar færi venjulegur nemi í rafvirkjun.

Ég velti því oft fyrir mér hvort ég ætti að gefa manninum peninga, hvort ég ætti að vorkenna honum, eða hvort ég ætti að hata hann fyrir að ráðast að ósekju að samvisku minni. Kerfið á að sjá um svona menn, hugsaði ég. Andskotann er hann að abbast upp á mig.

Eitt þótti mér óþægilegast, en það var, að ef ég var með vasa fulla af klinki, fannst mér vont að hugsa til þess að hann heyrði glamrið í peningunum. Ég hélt því fast við vasann og lét ekkert heyrast. Annað hefði verið eins og að hrækja framan í manninn og hreyta út úr sér: ég á sko fullt af smápeningum en þú færð samt ekki neitt!

Dag einn fannst mér þetta svo sniðugt að þetta hlyti að vera efni í ljóð. Samdi ég það í tíma, á innanverða kápu einhverrar skólabókar, í stað þess að hlusta á fyrirlesarann.

Nørreport

Teinarnir að baki og ferðin upp á yfirborðið hefst.
Hvattur af sekúndum hraða ég för. Nú er að
halda fast um pyngjuna síðustu skrefin
svo klingjandi silfrið lendi ekki í krúsinni.


Það hefði kannski ekki átt að koma mér á óvart að aðrir hafa fengið svipaða hugmynd. Ólafur Haukur Símonarson samdi ljóðið Berlín, ég veit ekki hvenær, en allnokkrum árum fyrr sem endar svo:

Ég kreppi höndina
í vasanum
svo ekki hringli
í smámyntinni.


Þetta er greinilega ein af þessum tilfinningum sem margir fá, að minnsta kosti ljóðaspekúlantar.

Einu sinni lenti ég hins vegar í því að betlari neitaði að taka við smámynt. Ég var að koma út úr sjoppu í London og gengur þá að mér maður, allskítugur, og spyr hvort ég eigi skiptimynt, change. Látum okkur sjá segi ég og gref í vasanum og næ í allt klinkið. Auðvitað voru þetta eintóm pence, brúnir aurar sem lítt eða ekkert fæst fyrir. Annars hefði ég sjálfsagt ekki leitað í vasanum. I've only got this, segi ég auðmjúkur og maðurinn sveiar og snýr sér að næsta manni. Þeir þekkja verðgildi peninga þessir menn.

Það er kannski ljóð í þessum samskiptum. Listamaðurinn vílar aldrei fyrir sér að nota sér neyð annarra í sköpun sinni. Nú mundi ég hafa þetta svona

Siturðu þarna enn, náfölur
og hlustar eftir smámynt í vösum?
Af hverju læturðu ekki veiðast í velferðarnetið
helvítið þitt?

Er gaman að þessu? Hvort er heiðarlegra? Ég veit það ekki, og ég finn samviskuna ekki bíta nema voða laust. Í mesta lagi pínulítið samviskubit yfir því að vera ekki með meira samviskubit. Ekki gera ljóðin neitt gagn. Segi ég og glotti.

Ingólfur Gíslason

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page