1.4.06

Blossað aftur til 1985 - um Höfuðlausn Gyrðis Elíassonar

Rifjum upp ljóðabók Gyrðis Elíassonar: eins konar höfuðlausn. Eða: eins konar höfuð lausn. Þetta skiptir máli, eins og sést á kápunni. Og það skilst kannski ekki fyrr en að maður hefur flett bókinni að titillinn er líka mynd úr bókstöfunum, eins konar konkretljóð, höfuðið er laust frá skrokknum, þarna liggur hálshöggvinn maður.

Nú hef ég hugsanlega eyðilagt eitthvað fyrir þeim sem þetta lesa. Það er þráður í þessari bók, eða kannski tónband, myndræma, eitthvað sem snýst, flöktandi minningar og myndir í óeðlilega skörpum fókus.

Hér er skemmtilegt að taka eftir því að Ö má hugsa sem tákn á við broskall, en hér er auðvitað ekkert bros, þetta er kannski frekar einhverskonar óp-kall. Og það eru fleiri öskur, en þau eru þögul og eru jafnvel falin í öðrum orðum:


Form ljóðanna er eftir efninu, stutt og hröð, okkur birtast vitundarbrot, eins og brot úr mynd eða bíómynd. Setningarnar eru ekki uppbyggðar, eins og í venjulegu rituðu máli, ekki heilar. Eins vitundin, sem þeytist úr einu í annað, ein mynd hverfist í aðra eða brotnar og einhver allt önnur tekur við.
Ljóðin gætu verið ort í Reykjavík af föllnum manni, í einhverskonar meðferð eða á sjúkrahúsi. Hann hefur ekki tíma fyrir sagnir eða greinarmerki, vitundin stanslaus skothríð af myndum, orðum og tilfinningum, stöðugt suð í maganum og seiðingur í höfðinu. Hversdagslegum hlutum er lýst svo þeir verða framandi og jafnvel ógnandi, þetta gæti hugsanlega verið lýsing á því sem ber fyrir augun í kaupfélagi eða íbúð á Hrafnistu:

Á bókasafninu eru bækur sem ekki fást til sölu. Ekki einu sinni ljóðabókaverslanir bjóða upp á Eins konar höfuðlausn. Minningarflöss, þögul öskur, framandi hversdagsleiki og óumflýanlegur dauði: skjóttu þessu í hausinn á þér með hríðskotabyssu Gyrðis.

Ingólfur Gíslason

1 Comments:

Blogger Emil said...

Ég gerðist svo heppinn að kaupa bókina á 50 kall á svona afskrifunarbókarborði í Bókasafni Kópavogs. Sé ekki eftir þeim pening. Góða bókin. Varpar annarri sýn á skáldið Gyrði; þennan yngri og tilraunakenndari.

3:10 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page