7.4.06

Nokkurskonar bókmenntafræðileg nálgun: Blandarabrandarar (die Mixerwitze)

Skáldið Eiríkur Örn Norðdahl fagnaði stórafmæli fyrir stuttu. Í tilefni þess birtist ritdómur Önnu Bjarkar Einarsdóttur um síðustu bók hans, Blandarabrandara. Eiríkur Örn hefur lagt mikið af mörkum til ljóðlistar á undanförnum árum, kynnt erlenda listamenn og framandi strauma framúrstefnuljóðlistar fyrir landanum. Þá hefur hann vakið athygli á ljóðlist í samtímanum með ýmsum uppákomum og skrifum. Bækur hans hafa þó ekki alltaf fengið jákvæðar viðtökur en þar er fremur um að kenna að skrif hans eru samferðamönnum hans framandi en að þau séu léleg. Þessari grein er ætlað að bæta úr skorti á fræðilegri nálgun á verkum Eiríks Arnar.

Ljóðabókin Blandarabrandarar (die Mixerwitze) er fjórða bókin í ritröð grasrótar- og framúrstefnuhreyfingarinnar Nýhil, Norrænum bókmenntum. Höfundur hennar er einn af stofnendum Nýhils, ljóðskáldið og rithöfundurinn (með hattinn) Eiríkur Örn Norðdahl. Blandarabrandarar er svokölluð kópý-peist bók, unnin úr orðum og setningum sem áður hafa verið skrifuð. Titilinn segir Eiríkur að sé einskonar þýðing eða útúrsnúningur á undirtitli hennar, þýska tungubrjótunum die Mixerwitz sem á þýsku útleggst: „Der Whiskeymixer mixt Whiskey mit dem Whiskeymixer“. Tungubrjóturinn er fyrsti blandarabrandari bókarinnar en þess má geta að í þýsku setningunni eru næstum jafn mörg ‘i’ og það eru ‘a’ í Blandarabrandarar.[1]

Titillinn, sem hægt væri að túlka á þá leið að um skemmtilegan brandara sé að ræða sem lesendur eigi að geta skemmt sér yfir gefur þegar betur er að gáð vísbendingu um að ekki sé allt sem sýnist. Í titlinum felst ákveðin írónía, vísað er í þá skoðun að það að lesa ljóð eigi að vera skemmtilegt og „gefandi“ fyrir lesandann. En ekki er víst að Blandarabrandarar standi undir þeirri vísun enda hafa gagnrýnendur bókarinnar kvartað undan því að skemmtanagildi hennar sé lítið og sumum finnst þeir jafnvel hafa verið sviknir vegna misvísandi skilaboða á titilsíðu verksins. Í ritdómi sínum á Kistunni segir Kristrún Heiða Hauksdóttir t.d.: „Það er kannski ekki yfirlýst markmið ljóðalesturs að það eigi að vera gaman en titill þessa verks gefur það samt til kynna.“ Hún bætir við að „[þ]essi textalega bóndabeygja Eiríks er virðingarverð tilraun, ég vildi bara að hún hefði eitthvað meira að segja.“ Kristrún notar vinnsluaðferð bókarinnar, kópý-peist, sem uppsprettu merkingarinnar og niðurstaðan er að „maður verður ekki fullur af þessum kokteil“, að Blandarabrandarar standi ekki undir nafni sem skemmtileg blanda brandara.
[2]

Að svipaðri niðurstöðu kemst Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir í ritdómi sínum í Morgunblaðinu en henni finnst eins og Eiríki hafi tekist að „klippa saman á ankannalegan hátt allar „réttu“ skoðanirnar“. Niðurstaðan er sú að „[e]f þessi hæfilega blanda af misvel mótuðum hugmyndum á að vera eitthvert stórkostlegt stílbragð þá missir það marks vegna þess að blandan er leiðinleg aflestrar.“ Hér er enn og aftur vísað til þess að ljóðin séu leiðinleg og Móheiður virðist mæla aðferðina út frá skemmtanagildi ljóðanna. Henni finnst aðgengilegustu ljóð bókarinnar „einna skást“ en þau sem krefjast örlítillar hugsunar eru afgreidd sem misheppnuð „tilraun til tilraunmennsku“.
[3] Það er áhugavert að dómur á borð við þann sem Móheiður skrifar skuli hafa birst á menningarsíðum Morgunblaðsins. Hann er hroðvirknislega unnin og einkennist af tímaskorti og áhugaleysi. Í því ljósi er rétt að geta þess að bókin, eða konseptið, fjallar öðrum þræði um fjölmiðla og grunnhyggnina sem þá einkennir. Dómur Móheiðar rökstyður þá gagnrýni sem finna má á fjölmiðla og vinnsluaðferðir þeirra í ljóðabók Eiríks Arnar Norðdahls. Þótt ekki sé sagt berum orðum að fjölmiðlaumfjöllun sé að mestu leyti drasl bera setningar á borð við „hvort ég sé of feit eða ekki/ og hvort um lærða hegðun sé að ræða [...]“ (bls. 20), sem auðsjáanlega eru klipptar úr fjölmiðlum, ekki vitni um frjóan og gagnrýnin fjölmiðlaheim.

Blandarabrandarar er kópý-peist bók, hún er sett saman úr setningum og orðum sem áður hafa birst. Tungumálið og ritun þess er ekki bara tæknin sem er notuð til þess að koma ljóðunum til skila, það er beinlínis efniviður þeirra. Tungumálið er þó ekki það eina sem ljóðin fást við því þegar rýnt er í þau, kemur í ljós að í orðagrautnum leynast myndir og meiningar.
[4] Ef konsept bókarinnar, vinnsluaðferðin eða tungumálið, tekur yfir túlkunina á ljóðunum sést ekki í þau viðfangsefni sem hvert og eitt þeirra fæst við. En þegar farið er yfir þá dóma sem birst hafa um bókina kemur í ljós að konseptið hefur tekið yfir ljóðin sjálf. Þau fá ekki að standa ein og sér en eru hluti af heild, tilraun. Auðvitað er ekki hægt að horfa framhjá vinnsluaðferðinni sem liggur ljóðunum til grundvallar. Hún skiptir máli, eftirmáli bókarinnar gefur það til kynna, en hætta er á því að ljóðin drukkni í konseptpælingum sem geta takmarkað túlkunarmöguleika þeirra. [5] Í eftirmála Eiríks, sem að mati Móheiðar er það „bitastæðasta sem [hún] las í bókinni“, má finna vísbendingar en engin eiginleg svör.[6] Það gefur auga leið að sú túlkun sem tekur vísbendingum Eiríks sem svörum er afskaplega takmörkuð.

Flarf
Aðferðin sem Eiríkur Örn notar við ljóðagerðina, kópý-peist, mætti segja að sé nýjasta útfærslan á pastiche sem samkvæmt sumum postulum og gagnrýnendum póstmódernismans er útfærsla hans á paródíunni. Samkvæmt þeim hefur paródían glatað kímninni á póstmódernískum tímum og orðið að heldur máttlausri ádeilu þar sem satíran hefur vikið fyrir merkingarleysinu.[7] Á sama hátt og aðrir höfundar innlima í sín skrif stílbrögð, texta, persónur og hugmyndir sem áður hafa komið fyrir, innlimar Eiríkur í sín ljóð textabrot og setningar úr auglýsingum, ljóðum, dagblöðum, af netinu og svona mætti lengi telja. Enda eru flest ljóðin það kunnugleg að Móheiður „man varla hvort [hún] hefur lesið ljóðin einu sinni eða oftar.“ Hún rekur þessa tilfinningu til þess að öll ljóðin séu eins en mun líklegra er að hún hafi séð þessar setningar áður, bara í öðru samhengi.[8]

Kópý-peist aðferðin er nokkuð vinsæl um þessar mundir í nútímaljóðlist. Nýlega birtist í TMM grein eftir Eirík Örn sjálfan þar sem hann ræðir „framandi framúrstefnuljóðlist“ og þar ber aðferðina á góma.
[9] Eiríkur nefnir ljóðskáldið Kenneth Goldsmith sem dæmi um kópý-peist listamann. Goldsmith hefur gert þann verknað að flytja upplýsingar á milli staða að listformi sínu sem hann kallar „óskapandi skrif“. Til að mynda byggir ljóðabók hans, Day, á því að endurvélrita eitt eintak af New York Times og bókin, Weather, samanstendur af daglegum 60 sekúndna veðurfréttum eins árs úr útvarpinu. Útkoman eru langar og leiðinlegar bækur enda segir Goldsmith sjálfur að þeim sé í raun ekki ætlað að vera lesnar ofan í kjölinn. Þær eru skrifaðar í anda samtímans, það er nóg að krafsa í yfirborðið, fletta þeim eins og tímariti, þefa af hugmyndinni til þess að fá eitthvað úr þeim. Levvi Letho er annað dæmi um ljóðskáld sem vinnur með upplýsingaflæðið og notast við einhvers konar útgáfu af pastiche. Hann hefur þó stigið skrefi lengra en kópý-peist listamennirnir og hannað ljóðavél sem býr til ljóð með leitarforritinu Google. Vélin er mötuð á upplýsingum sem síðan býr til það ljóð sem Google býður upp á í hvert skipti, niðurstaðan er þó aldrei hin sama því að eins og flestir notendur Google vita birtast aldrei nákvæmlega sömu leitarniðurstöðurnar tvisvar.

Eiríkur vinnur á svipaðan hátt með íslenskan samtíma í Blandarabröndurum og þeir Goldsmith og Letho gera.
[10] Með aðferðum upplýsingatækninnar framleiða þeir á ofsahraða ljóð sem enginn les og engin leið er að hafa yfirsýn yfir. Það nægir einfaldlega að blaða í bókum þeirra, krafsa í yfirborðið.[11] Og kannski má segja að þetta séu einmitt örlög flestra ljóða sem að berast okkur í dag, fá þeirra ná í gegnum upplýsingafarganið í kringum okkur, magnið er einfaldlega of mikið. Ljóðin eru of löng og of leiðinleg.

Það má því segja að Blandarabrandarar feti kunnuglegar slóðir í samtímaljóðlist. Hún er skrifuð í anda Language Poetry og Flarf ljóðlistar.
[12] Flarfið er síðasta dæmið úr samtímaljóðlist sem Eiríkur tekur í greininni í TMM. Í stuttu máli gengur Flarfið út á að semja vísvitandi ömurleg ljóð.[13] Íslandsmeistaramótið í ömurlegri ljóðlist sem Eiríkur Örn og félagar stóðu fyrir nú í vetur var atburður í anda þessarar stefnu. Flarfið er í raun gjörningur sem gengur út á það að setja sig í stellingar og skrifa ljóð eins og á að skrifa ljóð. [14] Í Blandarabröndurum vinnur Eiríkur t.d. með Flarfið í ljóðinu „Besta orðið mitt“ (bls. 49):

Ég vaknaði!

Ég er einn, ég er dapur ...
Ég spring.
Ég hélt það.
Ég er illur.

Ég skil ekki.
Ég dett.
Ég flýg.
Ég flýg,
Ég flýg hærra.

Ég flýg.
Ég skil ekki.

Hvað er ég?
Það frétti ég!!
Hversvegna ég?

Er ég einhver?

Ég er fastur.
Hver er ég?

Ég er hrædd,
ég græt.

Þetta ljóð er afrakstur úrdráttarforrits sem finna má í tölvuforritinu Word. Eiríkur tók sig til og kópý-peistaði þúsund blaðsíður af ljóði.is, heimasíðu íslenskrar ljóðlistar í samtímanum, og forritið gerði, orðrétt, þennan úrdrátt úr efninu. Þannig fjallar ljóðið ekki um þennan „ég“ sem ýmist flýgur, grætur eða fellur heldur miklu fremur um ljóðlist eins og hún birtist í samtímanum. Titillinn, það eina sem ekki kemur af ljóði.is, vísar í samnefnt ljóð Dags Sigurðarsonar.
[15] Ljóðið sjálft er Flarf, það fjallar um einstaklinginn, égið, og tilfinningar þessa égs, en sagan á bak við það varpar ljósi á ljóðagerð samtímans.

Language Poetry

Sagan á bak við „Besta orðið mitt“ er gott dæmi um aðra stefnu sem er segja má að sé undirstöðuatriði í kópý-peist verkum á borð við Blandarabrandara; Language Poetry. Fredric Jameson, bókmenntafræðingur og marxískur samfélagsrýnir fjallar um Language Poetry í tengslum við hugmyndir sínar um póstmódernisma sem hann hefur túlkað sem menningarlega hlið hins síðkapítalíska samfélags.[16] Samfélags þar sem fyrirtækjasamsteypur hafa komið í stað fyrirtækja og vægi einstaklingsins hefur dregist saman í ekki neitt. Aukin umræða um einstaklinginn í samtímanum er þá túlkuð sem vísbending um að vægi hans fari þverrandi. Merki þessa má greina í listsköpun þar sem áherslan á endurnýjun (framleiðslu) hefur komið í stað sérstæðis. Jameson greinir skilin á milli módernismans og póstmódernismans með þessum breytingum. Listamaðurinn eyðir ekki lengur löngum stundum í að finna sinn eigin tón eða stíl heldur stundar hann í meira mæli innlimun á eldri stílbrögðum.[17] Í framúrstefnuljóðlist dagsins í dag birtist augljósasta útfærslan á þessari innlimun (pastiche) í kópý-peist aðferðinni. Því má bæta við túlkunina á ljóðinu „Besta orðið mitt“ að það fangi stöðu einstaklingsins á póstmódernískum tímum. Hver og ein setning ljóðsins hlýtur að koma frá ólíkum höfundum, forritið tekur þær algengustu og raðar þeim upp. Við sjáum að flestir eru að semja eins ljóð. Þrátt fyrir að einstaklingnum og einstaklingsbundnum tilfinningum hans sé gert hátt undir höfði er vægi þessara einstaklinga álíka mikið og vægi lambs í hjörð, engin leið er að greina á milli þeirra.

Annað einkenni á samtímanum sem Jameson fjallar um, og tekur Language Poetry sem dæmi um, er upplausn tímans. Til þess að útskýra þessa upplausn leitar hann í smiðju franska sálgreinandans Jaques Lacan og skrifa hans um málvanda geðklofa. Samkvæmt kenningu Lacans býr tíminn í tungumálinu þar sem tungumálið byggir á sambandi táknmiða og –mynda. Táknmið eru hugmyndirnar sem táknmyndin, t.d. orð, stendur fyrir en slík táknmið eru alltaf bundin menningunni og því samhengi sem táknin, táknmyndin, eru sett fram í. Eitt af vandamálum geðklofans felst í því að rof verður á þessu sambandi og um leið brenglast tímaskynið. Geðklofinn skynjar ekki þann mun sem gerður er á nútíð, framtíð, fortíð og hefur því ekki sömu hugmyndir um orsakasamhengi og aðrir. Þar sem hugmyndir og kenningar Jameson hafa ekkert með sjúkdóminn að gera kýs ég að íslenska orðið „schizophrenia“ fremur en að notast við nákvæma þýðingu þess, þannig verður hugmynd Jameson nefnd skitsófrenía hér.

Hugtakið skitsófrenía vísar til þessa málvanda eða upplausnar tímans í samtímamenningu. Til þess að útskýra þá merkingarleysu sem skitsófreníuhugtakið fæst við tekur Jameson dæmi af ljóðinu „Kína“ eftir Bob Perelman, einum af upphafsmönnum Language Poetry stefnunnar. Það ljóð samanstendur af setningum sem erfitt er að sjá merkingu í. Í ljós kemur, ef rýnt er betur, að hver setning ljóðsins fjallar um eina ljósmynd úr bók um Kína. Lesandinn veit ekkert um bókina og því er táknmið ljóðsins eða hefðbundna merkingu hvergi að finna.
[18]

Í Blandarabröndurum, sem er skrifuð í anda Language Poetry, hefur einn af liðunum sem mynda merkingu verið fjarlægður, upphaflega samhengi orðanna er hvergi að finna.
[19] Með því að kópý-peista, að því er virðist handahófskennt, setningar og brot úr samtímanum hefur Eiríkur rofið sambandið á milli táknmiða og –mynda. Við fyrstu sýn virðast ljóðin merkingarrýr samtíningur, svo þegar þau eru skoðuð betur og lesandinn fer að kannast við brotin fer óhugnanlegur hrollur um hann.[20] Þetta er ein leið til þess að skoða bókina og virðast flestir gagnrýnendur hafa farið hana í túlkun sinni en dýpri skilningur fæst ekki á ljóðunum fyrr en týndu hlekkirnir í merkingunni koma fram í dagsljósið og því er niðurstaða gagnrýnenda í flestum tilfellum frekar takmörkuð.

Ef við skoðum til að mynda lengsta ljóð bókarinnar, „til þess er það varðar [sic]“ (bls. 29-47), með hliðsjón af túlkun Móheiðar Hlífar á því í Morgunblaðinu og síðan umfjöllun Eiríks sjálfs um ljóðið og túlkun Móheiðar kemur í ljós að Eiríkur Örn getur sjálfur allteins verið uppspretta merkingarinnar. Ljóðið er mammútslangur samtíningur á setningum sem hefjast á orðunum „hvað varðar“ og „varðandi“. Móheiður segir að „[e]ftir lestur þessa texta, sem [henni] þótti næstum aldrei ætla að enda, var [hún] komin á þá skoðun að orðin "varðandi" eða "hvað varðar" eru afskaplega leiðinleg og allt of mikið notuð í tungumálinu.“
[21] Eiríkur Örn bendir hins vegar á í pistli um dóm Móheiðar að þau hafi setið saman í ritlistar námskeiði hjá Nirði P. Njarðvík. Þar hafi mikil áhersla verið lögð á að skrifa aldrei „að eitthvað varðar eitthvað“ eða „að eitthvað væri varðandi eitthvað“. Hér fær því ljóðið „til þess er það varðar [sic]“ allt aðra merkingu en það eitt og sér hefur í bókinni. Ljóðið fjallar ekki endilega um ofnotkun á þessu orði og þá um leið hversu illa unnin öll skrif eru á fjölmiðlum þar eð setningarnar bera þess merki að koma þaðan heldur getur það allt eins fjallað um tilgangslausa baráttu málverndunarmanna sem Njörð P. Njarðvík er fulltrúi fyrir í þessu tilviki.[22]

Ef örlítil rannsókn er gerð á bakgrunni ljóðanna kemur sköpunarsaga þeirra oft mjög á óvart og myndar í raun merkingu ljóðanna eins og dæmin af ljóðunum „Besta orðið mitt“ og „til þess er það varðar [sic]“ sýna. Týndu brotin gefa ljóðunum meiri dýpt þannig að (ó)raunveruleikinn sem þau eru að takast á við skellur á lesandanum og samtíminn afhjúpast. Og þá má spyrja sig hvort að sköpunarsagan hefði átt að fylgja með ljóðunum? Svarið við þessu er að sjálfsögðu neitandi því að við sjáum öll að leikurinn sem lesandinn tekur þátt í skapar merkinguna og ljóðið. Á heimasíðu Eiríks, Fjallabaksleiðinni, má finna sögur af tilurð ljóðanna. Því má segja að Eiríkur stígi skrefi lengra en upphafsmenn Language Poetry og búi til nýtt táknmið fyrir ljóðin, heimasíðan og Eiríkur Örn sjálfur eru uppspretta merkingarinnar, táknmið ljóðanna.

Að lokum má benda á að þá staðreynd að margir leggja mikla vinnu á sig við að skilja og túlka ljóð annarra bókmenntagreina og eltast við skáld annarra tímabila. Hver er munurinn á því að skoða stigann sem Jónas fótbraut sig á, fjöllin í heimasveit hans eða daunilla knæpuna þar sem hann á að hafa drukkið sér til óbóta með öðrum skáldum og listamönnum, og því að leggja leið sína inn á alheimsgagnabankann ógurlega, táknmynd nútímans þar sem upplausn tímans er algjör og merkingin hefur verið rofin að eilífu í einu alsherjar núi ... og lesa sér til um tilurð og túlkun ljóðanna og Eirík Örn sjálfan?

Eftirmáli

I
Löng hefð er fyrir því að íslenskir bókmenntafræðingar velji sér sinn höfund sem þeir síðan stunda nokkurskonar umboðsstörf fyrir. Þá lesa þeir og túlka allt sem sá höfundur gerir, oftast á jákvæðum nótum, taka síðan ítarleg viðtöl við þá um verk þeirra þar sem spurt er hvort túlkun bókmenntafræðingsins sé nú ekki rétt. Spurningarnar hljóma á þessa leið: Nú er nærvera höfundarnafns þíns alltaf til staðar í verkum þínum, ekki satt? Og allt sem spurningin í rauninni segir er ég fattaði það, ég fattaði það og höfundurinn getur kinkað kolli og sagt eitthvað gáfulegt um stöðu sína í verkinu o.s.frv.

Þetta samband er ekki einhliða. Höfundurinn græðir á því að hafa talsmann innan fjölmiðla- og fræðaheimsins svo og í styrkjanefndum ýmiskonar. Bókmenntafræðingurinn getur síðan með tíð og tíma öðlast hlutdeild í ljómanum sem stafar af höfundinum. Staða bókmenntafræðings sem helsta túlkanda merkasta listamanns síðasta áratugar er ekki slæm staða. Það eina sem þarf að gera er að velja rétt, velja einhvern sem er vel til þess fallinn að njóta virðingar í framtíðinni. Hann má alls ekki vera of vel metin á upphafsárum ferilsins, það er nauðsynlegt að hann hafi sterk persónueinkenni svo hann falli ekki sjálfkrafa að smekk allra o.s.frv. Það þarf að taka áhættu svo líkur séu á góðri ávöxtun. Oft dala þeir sem mest er hampað í upphafi en tími þeirra sem ryðja brautina fyrir nýjungum er oftar en ekki framtíðin.

Eiríkur Örn hefur lagt mikið af mörkum til ljóðlistar á undanförnum árum, kynnt erlenda listamenn og framandi strauma framúrstefnuljóðlistar fyrir landanum. Þá hefur hann vakið athygli á ljóðlist í samtímanum með ýmsum uppákomum og skrifum. Bækur hans hafa þó ekki alltaf fengið jákvæðar viðtökur en þar er fremur um að kenna að skrif hans eru samferðamönnum hans framandi en að þau séu léleg. Þessari grein er ætlað að bæta úr skorti á fræðilegri nálgun á verkum Eiríks Arnar og vonandi er þetta aðeins upphafið að gjöfulu samstarfi.

II
Ég skrifaði ekki eitt einasta orð í þessum ritdómi. Nei, það eru ekki ýkjur. Allar túlkanir á ljóðum í ritdómnum koma frá Eiríki Erni sjálfum, eða af heimasíðu hans. Flestar skoðanirnar sem koma fram eru einnig frá honum, en ekki allar. Margt kemur frá mér en flest er fengið að láni. Textaeiningarnar eru misstórar og aðferðirnar við að raða þeim saman ekki ósvipaðar og aðrir bókmenntafræðingarnir nota, hvernig þeir velja úr orð, skoðanir og túlkanir og hamra saman í dóm. Margt er umorðað og sett í nýtt samhengi þannig að hin upphaflega merking er víðsfjarri. Hér er enginn að finna upp hjólið. Orðin hafa verið til áður. Það eina sem er nýtt er sjónarhornið og það skiptir höfuðmáli; allt sem hér er sagt er satt þó það sé stolið.

Anna Björk EinarsdóttirHeimildir
Eiríkur Örn Norðdahl, Blandarabrandarar. (die Mixerwitze), Norrænar bókmenntir IV (Reykjavík: Nýhil,
2005).
Eiríkur Örn Norðdahl, Fjallabaksleiðin. Á netinu:
http://www.fjallabaksleidin.blogspot.com/. Sjá um
Blandarabrandara, færslurnar: „Yfirlýsing vegna Blandarabrandara“ (07.12.05), „Leyndarmál“ (17.12.05), „Dómur“ (30.12.05), „Annar dómur“ (02.01.06), „Íslensk bókmenntafræði“ (31.01.06). Og um annað efni tengt ljóðlist, færslurnar: „Lítið eitt um ömurleg ljóð“ (15.02.06), „Íslandsmeistaramót í ljóðlist“ (14.02.06)
Eiríkur Örn Norðdahl, „Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist“, TMM 67:2 (2006), bls. 37-
49.
Ingi Björn Guðnason, „Norrænar bókmenntir. Blandarabrandarar (die Mixerwitze)“, Bókmenntavefurinn. Á
netinu:
http://www.bokmenntir.is/displayer.asp?cat_id=383#Norrænar%20bókmenntir .
Jameson, Fredric „Postmodernism and Consumer Society“, í The Anti-Aesthetic. Essays on Postmodern
Culture, ritstj. Hal Foster (Seattle: Bay press, 1983), bls. 111-125.
Jameson, Fredric, Postmodernism, or, the Cultural Logic of Late Capitalism (Durham: Duke, 1991).
Kristrún Heiða Hauksdóttir, „Norrænar bókmenntir. Ljóðaritröð Nýhils“, Kistan, 29.12.05. Á netinu:
http://kistan.is/efni.asp?n=4364&f=1&u=14
Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, „Hæfilega blandað“, Morgunblaðið, 31.01.06.
[1] Eiríkur Örn Norðdahl, „Yfirlýsing vegna Blandarabrandara“, Fjallabaksleiðin 07.12.05.
[2] Kristrún Heiða Hauksdóttir, „Norrænar bókmenntir. Ljóðaritröð Nýhils“, Kistan, 29.12.05. Á netinu:
http://kistan.is/efni.asp?n=4364&f=1&u=14. Eiríkur Örn Norðdahl, „Dómur“, Fjallabaksleiðin, 30.12.05.
[3] Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, „Hæfilega blandað“, Morgunblaðið, 31.01.06. Eiríkur Örn Norðdahl, „Íslensk bókmenntafræði“, Fjallabaksleiðin, 31.01.06. Þess má geta að ritdómur Inga Björns Guðnasonar sem birtist á bókmenntavefnum um Norrænar bókmenntir er að mörgu leyti sama marki brenndur og fyrrgreindir dómar. Þó hann sé mun opnari fyrir bókinni og afskrifi hana ekki þá segir hann t.d.: „Klippiaðferðin er heillandi, kannski ekki alltaf vegna afurðanna sem af henni hljótast, heldur frekar vegna aðferðarinnar sjálfrar.“ Og hann bætir við að mörg ljóðanna séu erfið aflestrar. Sjá Ingi Björn Guðnason, „Norrænar bókmenntir. Blandarabrandarar (die Mixerwitze)“, Bókmenntavefurinn. Á netinu: http://www.bokmenntir.is/displayer.asp?cat_id=383#Norrænar%20bókmenntir. Eiríkur Örn Norðdahl, „Annar dómur“, Fjallabaksleiðin, 02.01.06. Við þetta má bæta að Eiríkur Örn gagnrýnir dóm Inga Björns ekki eins og hann gagnrýnir dóma þeirra Móheiðar og Kristrúnar, kannski vegna þess að Ingi Björn er frekar jákvæður á bókina.
[4] Sjá eftirmála Blandarabrandara: Eiríkur Örn Norðdahl, Blandarabrandarar. (die Mixerwitze), Norrænar bókmenntir IV (Reykjavík: Nýhil, 2005), bls. 62.
[5] Eiríkur Örn Norðdahl, „Yfirlýsing vegna Blandarabrandara“, Fjallabaksleiðin 07.12.05.
[6] Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, „Hæfilega blandað“, Morgunblaðið.
[7] Fredric Jameson, „Postmodernism and Consumer Society“, í The Anti-Aesthetic. Essays on Postmodern Culture, ritstj. Hal Foster (Seattle: Bay press, 1983), bls. 111-125.
[8] Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, „Hæfilega blandað“, Morgunblaðið, 31.01.06. Eiríkur Örn Norðdahl, „Íslensk bókmenntafræði“, Fjallabaksleiðin, 31.01.06.
[9] Eiríkur Örn Norðdahl, „Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist“, TMM 67:2 (2006), bls. 37- 49.
[10] Eiríkur Örn Norðdahl, „Íslensk bókmenntafræði“, Fjallabaksleiðin, 31.01.06.
[11] Eiríkur Örn Norðdahl, „Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist“, TMM 67:2 (2006), bls. 37- 49
[12] Eiríkur Örn Norðdahl, „Yfirlýsing vegna Blandarabrandara“, Fjallabaksleiðin, 07.12.05.
[13] Eiríkur Örn Norðdahl, „Lítið eitt um ömurleg ljóð“, Fjallabaksleiðin, 15.02.06.
[14] Eiríkur Örn Norðdahl, „Íslandsmeistaramót í ljóðlist“, Fjallabaksleiðin, 14.02.06.
[15] Eiríkur Örn Norðdahl, „Leyndarmál“, Fjallabaksleiðin 17.12.05.
[16] Fredric Jameson, „Postmodernism and Consumer Society“, bls. 111-125, Fredric Jameson, Postmodernism, or, the Cultural Logic of Late Capitalism (Durham: Duke, 1991).
[17] Fredric Jameson, Postmodernism, bls. 1-16, Fredric Jameson, „Postmodernism and Consumer Society“, bls. 123-125.
[18] Fredric Jameson, „Postmodernism and Consumer Society“, bls. 119–123.
[19] Eiríkur Örn Norðdahl, „Yfirlýsing vegna Blandarabrandara“, Fjallabaksleiðin, 07.12.05.
[20] Sjá eftirmála Blandarabrandara: Eiríkur Örn Norðdahl, Blandarabrandarar. (die Mixerwitze), Norrænar bókmenntir IV (Reykjavík: Nýhil, 2005), bls. 60-62.
[21] Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, „Hæfilega blandað“, Morgunblaðið, 31.01.06.
[22] Eiríkur Örn Norðdahl, „Íslensk bókmenntafræði“, Fjallabaksleiðin, 31.01.06.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page