15.4.06

SMEKKLEYSA sm.ehf. kynnir nýjar bækur:

FJÓRAR LÍNUR OG TITILL
eftir Braga Ólafsson

og

RÁÐ VIÐ HVERSDAGSLEGUM UPPÁKOMUM
eftir Óskar Árna Óskarsson


sem báðar eru gefnar út í tilefni af tuttugu ára útgáfuafmæli höfundanna, og koma út á opnunardegi hátíðarinnar ORÐIÐ TÓNLIST sem Smekkleysa stendur fyrir í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík.

FJÓRAR LÍNUR OG TITILL eftir Braga Ólafsson er safn 52 texta sem höfundur hefur sett saman á undanförnum árum, og eins og titill bókarinnar gefur til kynna eru textarnir samsettir af fjórum línum og titli. Bragi gaf út sína fyrstu bók, ljóðabókina Dragsúgur, árið 1986 en hefur á undanförnum árum aðallega einbeitt sér að skáldsagnaritun. Síðustu útgefin verk hans eru skáldsagan Samkvæmisleikir sem kom út 2004, prósaljóðið Innkaupalisti fyrir Kaupmannahöfn, sem kom út í 50 eintökum í tengslum við sýningu Smekkleysu Humar eða frægð í Kaupmannahöfn í apríl 2004, og leikritið Belgíska Kongó sem Leikfélag Reykjavíkur hefur sýnt fyrir fullu húsi tvö leikár í röð.

RÁÐ VIÐ HVERSDAGSLEGUM UPPÁKOMUM eftir Óskar Árna Óskarsson er safn húsráða, leiðbeininga og heilræða sem höfundur hefur skrifað fyrir lesendur sína, og munu nýtast við ólíkar aðstæður og tækifæri. Óskar Árni gaf út sína fyrstu bók, ljóðabókina Handklæði í gluggakistunni, árið 1986 og hefur á tuttugu árum gefið út fjölmörg ljóða- og prósasöfn, auk þess að vera mikilsvirkur þýðandi. Síðustu bækur hans eru prósasöfnin Lakkrísgerðin og Truflanir í Vetrarbrautinni sem komu út árin 2001 og 2004, og er von á nýrri ljóðabók eftir hann næsta haust.

Bækurnar eru báðar um 30 bls. að lengd. Þær eru gefnar út í 299 eintökum, og eru 99 eintök af hvorri þeirra tölusett og árituð af höfundi.

Verð hvorrar bókar um sig er 1290 kr. og eru þær til sölu í helstu bókabúðum í Reykjavík, auk þess sem hægt er að panta þær hjá Smekkleysu í síma 551 3730 og 551 3780, og hjá höfundum: Braga í símum 552 0126 og 865 7961, og Óskari í síma 552 2631.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page