23.4.06

Um Reykjavík - framtíðin er hér e. Hallgrím Helgason

Í velferðarþjóðfélaginu er ekkert plebbalegra en kosningabaráttur. Smákóngar berja aldrei jafn fast á brjóst sér, jafn sjálfbirgingsklikkaðir, og vikuna fyrir kosningar. Þetta eru dagar hinna innantómu hugmynda – „ertu með?“ og „allir með!“ – athafnastjórnmál og umræðustjórnmál. „Það er kosið um skipulagsmálin“ - „það er kosið um atvinnumálin“ – blaðamenn og atvinnuálitsgjafar endurtaka sama pípið og þeir píptu fyrir síðustu kosningar. Og í miðju kraðakinu var ég staddur á lítilli pizzabúllu í Reykjavík, hvar ég var að vinna mitt daglega góðverk (sem að þessu sinni var að fæða fátækling) þegar ég rakst á Samfylkingarblaðið. Þar kenndi auðvitað fárra forvitnilegra grasa – en þó var blaðið ekki algerlega tómt. Í blaðinu mátti nefnilega finna ljóðið „Reykjavík – framtíðin er hér“ eftir Hallgrím Helgason, miðborgarskáldið sjálft, manninn á bak við póstnúmerið. Hallgrímur hefur oft á tíðum gert áhugaverða hluti á ljóðsviðinu - og honum til hróss má meðal annars nefna frjálsa þýðingu á Pulse of the rhyme eftir ICE-T, undir heitinu Með rími ég rek þig á hol – en ég get samt ekki með góðu móti viðurkennt að það hafi komið mér á óvart að hann gæti ort vond ljóð. Ljóðmæli hans eru af mistækasta tagi. En þetta tiltekna ljóð var engu að síður sjokkerandi heimskuleg hrákasmíð.

Til að gæta alls hlutleysis er best að nefna að líklega var ljóðið ekki ort til þess að birtast á prenti. Í blaðinu er það kynnt sem texti við lag – og eins og til að kóróna geðsjúkan plebbismann kemur fram að Stefán Karl (Glanni glæpur) syngur lagið ásamt Stuðmönnum. Bjánalegur rytminn útskýrist líklega af því að það hafi verið sniðið inn í melódíu.

Fyrsta erindið hljómar svo:

„Nú held ég heim á leið,
eftir heilan vetur í útlöndum.
Þá við mér blasir breið
borgin sem sefur hjá Esju hverja nótt.“

Skáldið er væntanlega að koma frá Keflavík, þegar „breið“ borgin birtist, borgin sem „sefur hjá Esju hverja nótt“. Hallgrímur bjó náttúrulega eins og frægt er í borginni „sem aldrei sefur“ – New York, og ævisögulega greiningin hlýtur að gera ráð fyrir þeim möguleika að það sé einmitt þaðan sem ljóðmælandi sé að koma. Úr svefnlausu borginni, til Esjusvefnsborgarinnar. Ég get einhvern veginn ekki samþykkt það sem spennandi býtti, eða lagt trúnað á að ljóðmælanda finnist það í raun og veru frábært.

(Í framhjáhlaupi langar mig reyndar að nefna að Esjan er ekki frekar „hjá“ Reykjavík en Snæfjallaströndin er „hjá“ Ísafirði. Sólin er í sjónmáli frá Reykjavík daglangt, en hún er ekki „hjá“ Reykjavík. Esjan er lengst úti í rassgati.)

Og næsta erindi:

„Á ljósi við Laugaveg
lít ég blámann á sundunum.
Þá verð ég aftur ég.
Og í Öskjuhlíð finn ég að vorið kemur fljótt.“

Nú er ég ekki sérstaklega vel að mér í reykvískri landafræði, en eru ekki einu alvöru ljósin á Laugavegi á horni Snorrabrautar? Mig rekur minni til þess að hafa séð forsíðumynd í Fréttablaðinu, fyrir ekki svo löngu, sem var tekin á þessu horni. Yfirskrift myndarinnar var eitthvað á þessa leið: „Í blíðunni í Reykjavík“ og myndin var af manni að arka gegnum slabbið, umferðina og rokið. Ég man eftir að hafa hugsað til þess að þetta væri líklega ljótasti og þunglyndasti staður á jarðríki.

Línan: „Þá verð ég aftur ég“ er ólýsanlegur hroðbjóður. Sál mín ælir.

Að vera fastur á ljósi vísar til áróðurs andstæðinga Samfylkingarinnar um endalausar umferðarteppur í Reykjavík. Minnir á þetta. Einhver sagði um daginn, gott ef það var ekki heimdellingur: „Hver hefur ekki setið fastur á rauðu ljósi og bölvað Degi B.?“ Nú ætla ég ekki að taka afstöðu til þess hvort að í Reykjavík séu umferðarteppur eða of margir bílar – en er ekki Hallgrímur með þessu myndmáli að minna á eitthvað sem hefur – í hinni plebbísku sveitarstjórnarumræðu – verið nefnt „stórvandamál“? Eitthvað sem Samfylkingin hefur verið látin svara fyrir. Að koma frá útlöndum minnir svo á flugvelli – sem minnir á annað stórmál sem er óleyst og stjórnmálamenn klaufast í kringum.

„Því ég á heima í Reykjavík.
Já, hún er borgin mín.
Hún er skapandi, ung og orkurík.
En er þó best við börnin sín.
Hún býður mér og þér
Að fara nú hvergi því framtíðin er hér.“

Oflof er háð, og mér finnst einhvern veginn ólíklegt að hægt sé að lesa þessar línur, já eða heyra þær sungnar, af einhverri alvöru. Hallgrímur hefur fóstrað kaldhæðnina árum saman, og getur ekki ætlast til þess að línur eins og „er þó best við börnin sín“ séu teknar alvarlega.

Hingað til hefur ljóðið þó í það minnsta líkst sjálfu sér, skrifað í Hallbjörnskum hætti (sem einkennist fyrst og síðast af einsatkvæðisrími banalla og hálfósýnilegra orða, eins og mín/sín, þér/hér o.s.frv. – Hallbjörn á það reyndar líka til að ríma sama orðinu, á/á)

Eftir viðlagið fer ljóðið á flug:

„Já, hérna er allt hægt
Því hérna er hægt að gera allt
Sem getur garðinn frægt
Úr Gróttu er stysta leiðin útí geim.“

Fyrstu tvær línurnar jafnast á við bestu línur Hallbjarnar. „Já, hérna er allt hægt því hérna er hægt að gera allt“. Það er ekki bara ótrúlegt að þetta ljóð sé skrifað af einum virtasta höfundi þjóðarinnar, það er beinlínis engu lagi líkt að þetta komi úr penna fullorðinnar manneskju. Hefur kosningabaráttupólitíkin sogið allt vit úr Hallgrími? Allt er hægt því allt er hægt? Ha? Eða er allt kannski bara hægt því allt er hægt „sem getur garðinn frægt“? Og er Hallgrímur þá að vísa til íslensku hæpmenningarinnar sem upphafi og enda alheimsins? Er þetta sami maður og skrifaði Þetta er allt að koma? Það er eiginlega meira eins og Ragnheiður Birna hafi skrifað þetta sjálf...

„Hér andinn er yfir mér
og annar hver maður í miðbænum
er kominn út af þér.
Blærinn reynir við laufið með norðlenskum hreim.“

„Annar hver maður í miðbænum/ er kominn út af þér“ – hvað er maðurinn að meina? Mig bókstaflega svimar af vitleysunni. Þetta er náttúrulega bæði stórkostlega áhugavert, og skemmtilegt. En hvað á þetta að fyrirstilla? Hvernig stendur á því að fyllilega skynsamur maður, langt fyrir almennan kölkunaraldur, tekur upp á því fyrirvaralaust að tjá sig eins og hann hafi fengið raðheilablóðfall?

Lokalínur síðustu tveggja erindanna eru síðan sérlega athygliverðar. „Úr Gróttu er stysta leiðin út í geim“ er fyrsta tilraunin til ljóðrænu í kvæðinu, og rímar við hina tilraunina „Blærinn reynir við laufið með norðlenskum hreim“. Útskýrir þetta sig ekki sjálft? Laufið? Í Reykjavík? Með norðlenskum hreim? Stysta leiðin út í geim?

Á þessum stað í hugsanaferlinu byrjar mér að detta í hug að kannski sé Hallgrímur bara að grínast eftir allt saman, eða að reyna að vinna hryðjuverk á framboði konu sinnar. Hann hefur áður kvabbað undan því í blaðagrein að hann sé hálf umkomu- og tilgangslaus sem heimavinnandi húsfaðir, hvers helsta áhugamál er að líma blaðaúrklippur af konu sinni á ísskápinn. Kannski vill Hallgrímur einfaldlega koma í veg fyrir að Oddný hljóti nokkurs konar kosningu. Þetta er auðvitað frekar undarlegt. En það getur bara varla verið að Hallgrímur yrki svona, nema viljandi.

Eiríkur Örn Norðdahl

4 Comments:

Blogger Kári said...

Haha! Þvílík hörmungarsmíð! Það er greinilega erfitt að vera "konungur tíðarandans".

9:56 f.h.  
Blogger Ásgeir said...

Er Gróttulínan að vísa til þess að besta djammið sé á Seltjarnarnesi? Það telst nú tæknilega ekki Reykjavík þannig að ekki styrkir það málstaðinn ...

2:38 e.h.  
Blogger Arngrímur Vídalín said...

Raðheilablóðfall, það er vel að orði komist! Þetta er algjör hryllingur!

7:21 e.h.  
Blogger Birgitta Jónsdóttir said...

Hefði hæglega getað unnið versta ljóð Íslands keppni.. en greinin þín er frábær ... ég held að ég sé að fá raðheilablóðfall eftir að hafa lesið ljóðið... er allavega að berjast við æluna sem vill þrengja sér út um kok mitt

er þetta kannski súrealískur djókur eins og sú staðreynd að jón gnarr vinni sem sölumaður guðs

8:45 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page