5.5.06

Um Waiting for the rapture e. Kirby Olson


Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.

(Fyrra Þessalóníkubréf, 4;17)

Waiting for the rapture, eða Beðið eftir brotthrifningunni, er ný ljóðabók eftir Kirby Olson. Kirby er fyrrverandi bítnikkaskáld sem öðlaðist trú og er í dag kirkjusækinn mótmælandi, en hann hefur sömuleiðis lýst yfir mikilli trú á súrrealismanum sem einhvers konar guðlegu verkfæri sem getur þegar best lætur skapað magnaðan núning húmors og alvöru, þyngdar og léttleika. Speki sína, sem Kirby kveðst einn aðhyllast þó von sé á algerum yfirráðum hvað á hverju, nefnir hann Lúterskan súrrealisma. Í núninginum finnur Kirby sannleika og fegurð, fyrir honum smellur lúterskan við súrrealismann líkt og flís við rass.

„Lúterskur súrrealismi er í raun ekki nein uppfinning, heldur uppgötvun ákveðinna lífshátta sem fyrirfinnast nú þegar, eða eru byrjaðir að koma í ljós í alheiminum. Hann er uppgötvun þeirrar mótsagnakenndu og sínísku tilfinningar að mannkynssagan sé feill, og að tíminn sé sóun, en að innan tímans sé ólýsanlegur kjarni sem allar verur jarðarinnar finna fyrir – frá fálmurum maursins sem lemja brauðmolanna yfir að humrinum sem valsar á hlið yfir sjávarbotninn – að eitthvað venjulegt hylji veruleika sem er svo tragískur og kómískur, svo augljós og í senn svo falinn – að allar tilraunir okkar verða að engu í samanburði. Við viðurkennum fúslega að við getum ekki rekið á eftir þróuninni, við getum ekki tælt hana áfram, en hún kemur til að vekja okkur til nýs anda sem er jafn gamall og hið fyrsta atóm (Adam).“ (Úr Formáli að þriðja ávarpi hvaða lúterska-súrrealisma sem er; Af ljóðum, Nýhil 2005).

Orðið rapture er dregið af latneska orðinu rapere sem er notað í biblíutilvitnuninni hér að ofan, og merkir að „vera gagntekinn“ eða „uppnuminn“, („hrifnir burt“) og er notað til að lýsa endalokum kirkjualdar þegar kristnir menn fá að hitta Jesú Krist sem svífur um í andrúmsloftinu án þess að snerta jörðu og fylgir hinum kristnu til himna. Þetta er ekki alveg sami viðburður og endurkoma Krists – án þess ég hafi guðfræðilega þekkingu til að skilja almennilega á milli þeirra. Þessi gagntaka hlýtur líka að eiga sér aukmerkingu í þessu verki Kirbys, þar sem Kirby er gagntekinn af trúnni, guði og fegurðinni og gerir tilraun til að gagntaka lesendur sína:

Peel
apart
an orange,
bizarre

always
thirteen
sections

twelve disciples
plus
The Lord

& the seeds
the seeds...
Eternal Life


(Who’s counting?)

Það er sjaldgæft að ég rekist á sannfærandi trúarkveðskap sem er yngri en 100 ára, enda er það algengur kvilli trúaðra manna að vera haldnir nær fanatískri fortíðarhyggju og íhaldssemi sem vill standa þeim fyrir þrifum þegar kemur að kreatífum listum. Þetta lýsir sér kannski ekki síst í hvítasunnumúsík þar sem menn geta oft sungið fjörutíu áttundir án þess að ýfa svo mikið sem einn einasta þráð í sálu manns. Bakgrunnur Kirbys sem einhverslags bítnikkaskálds, og áhugi sá og þekking sem varð til á utangarðsskáldum á borð við Gregory Corso og súrrealistum, og síðar Andrei Codrescu, speglast undarlega saman við heimspeki Marteins Lúther og Sörens Kierkegaard. Upplag Kirbys sem kristins manns veitir honum sérstaka stöðu innan samtímaljóðlistar, líkt og það að hann sé upphaflega utangarðsmaður gefur honum sérstaka stöðu innan kirkjunnar:

Protestants once lived
a life of service,
but ever since the Sixties
the service has sucked.


(State of the union)

Kannski er það sem heillar mig við þennan kveðskap ekki minnst hversu Kirby tekst að vera samtímalegur í trú sinni og ljóðlist á tímum þar sem ljóðið á að vera að minnsta kosti jafn dautt og guð.

Eiríkur Örn Norðdahl

tenglar:
Lúterski súrrealisminn

Um Kirby
Kirby lýsir bókinni

Simon DeDeo fjallar um ljóðið 'Decades' úr Waiting for the rapture
Persistencia press, útgefandi bókarinnar

1 Comments:

Blogger Kirby Olson said...

Eirikur, thanks so much for this review. I can read Icelandic surprisingly well although I've never studied it. But there is a contact I have -- Louisa Mattiasdottir's granddaughter lives over the next hill and I'm going to show it to her and see if she will read it for me so I can see if what I think it says is what it says!

Do you know Louisa Mattiasdottir? She is a very famous painter from Iceland who has gotten reviews from people like John Ashbery. One of her paintings graces the front cover of Halldor Laxness' book Independent People in the American translation.

If any Icelandic poets want copies of the book they can ask for one by sending an email to me at

olsonjk@delhi.edu, and stating the address. Iceland is very important to the Lutheran Surrealist project, and remains uppermost in our hearts.

Utri fridur!

Kirby

5:24 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page