22.6.06

Um AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRST- UÚVWXYÝZÞÆÖ e. Óttar Martin Norðfjörð

AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRST- UÚVWXYÝZÞÆÖ er tímamótabók frá einu helsta ljóðskáldi þjóðarinnar, Óttari M. Norðfjörð, bók sem kallast á við fyrstu ljóðabækur hans í dirfsku og róttækni – og húmor. Ný ljóðabók frá hans hendi er bókmenntaviðburður. Með þessari bók kveður Óttar sér hljóðs með gjörólíkum hætti. Góðar viðtökur við fyrri bókum hljóta að hafa verið höfundi mikil hvatning og því lítur AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ nú dagsins ljós. Hér er á ferð óvenjuleg ljóðabók sem slær nýjan og framandlegan tón í íslenskri ljóðlist. Skyldueign ljóðaunnandans. Ljóðin í bókinni eru í anda þess fáránleika og þeirrar undarlegu sýnar á hversdaginn sem Óttar er þekktur fyrir. Með þessum ljóðum bætir Óttar perlum við áralangt ljóðaband sitt, tímalausum ljóðum sem tímabundnum, fullum af hlýlegum gáska. Þessa bók er best að lesa mörgum sinnum, stundum frá upphafi til enda, stundum bara eitt og eitt ljóð, og óvæntar myndir kvikna í huga lesandans. Þetta er bráðskemmtilegur kveðskapur sem svo sannarlega kitlar hláturtaugarnar og vel það.

Á sama hátt og efni fyrri ljóðabóka Óttars Martins, er efni ljóða AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ fjölbreytt. Ljóðin fjalla meðal annars um tímann, mannsævina frá æsku til elli, hverfulleikann, samtímann, ástina og margt fleira. Sjónarhornin eru margbreytileg og tónninn í AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ er næmur eins og í fyrri bókum höfundar.
AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ er án efa góð viðbót í bókasafn unnenda fallegra ljóða.

Þetta eru hæversk og hlédræg ljóð sem skyggnast inn í smáatriði og töfra aðventu, hátíða og vetrar. Bók fyrir alla sem unna fögrum skáldskap. Óttar hefur víða farið og yrkir um það sem fyrir augu ber í tilgerðarlausum og beinskeyttum stíl. Hann tengir saman lýrískt raunsæi og ádeilu og bregður upp svipmyndum úr amstri dagsins þar sem skynjun manneskjunnar á brothættri tilveru er í forgrunni. Yrkisefnin eru af margvíslegum toga, óbyggðir og byggð ból, heima og erlendis, íslensk náttúra og myndlist.

Ljóðin eru fjölbreytt að efni og braglistin bregst höfundi ekki. Óttar yrkir um töfra náttúrunnar, um heimahagana og leyndardóma lífsgátunnar. Lífsfögnuður og tregi yfir því horfna takast á í huga skáldsins og samspil glettni og alvöru gefur mörgum ljóðanna heillandi blæ. Það er lífsgleði, lífskraftur í þessari bók sem minnir á flugtak, nýtt upphaf. Þetta eru knöpp og myndskörp ljóð, nánast höggvin í stein.


Í bókinni eru ljóð um börn, ástina, listina og lífið. Listilegt vald höfundar á tungumálinu nýtur sín í einföldum og margslungnum myndum. Frumleg og fyndin ljóð þar sem kallast á bernskuminningar, föðurleg heilræði og kaldhæðnislegar hugleiðingar um lífið og tilveruna. Heilræði mömmu í nýju ljósi. Sýn skáldsins á áhugavert fólk er afar frumleg og hlýleg í senn. Svipmyndir úr kímilegri fortíð og ljúfsárri nútíð.

Óttar bregður á leik með nokkrar af ótal birtingarmyndum dauðans, afhelgar hann og kannar þessa botnlausu uppsprettu ráðgátna með flugbeitta kímnigáfu að vopni. Frumleg og skörp sýn gera AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ að ógleymanlegri hraðferð sköpunarkraftsins um ríki dauðans. Dauðinn hefur aldrei verið jafn skemmtilegur! Bók fyrir alla þá sem lifa. Bók fyrir alla þá sem deyja. Eða hafa dáið...

Eiríkur Örn Norðdahl

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page