2.10.06

Listamannalaunum var úthlutað í gær e. Dag Sigurðarson

Þjóðskáldið frá Grettisgötu hefur hvorki bragðað vott né þurrt dögum saman. Hann er farinn að gánga í loftinu og hættur að finna fyrir slyddunni sem seitlar innum götin á skónum. Fæturnir eru dofnir. Hann er blánkur, kvenmannslaus, á götunni.
Hann fer inní port til að pissa. Þegar hann er að ljúka sér af finnur hann að hönd er lögð á öxl honum.
- Komdu, segir vinaleg rödd. Komdu og fáðu þér bita.
Dyr opnast fyrir framan þjóðskáldið. Hann er leiddur til sætir í uppljómuðum veislusal. Þarna er mikið af kátu fólki. Á borðum er herramannsmatur, þrír menntamálaráðherrar, steiktir í heilu lagi á teini, fylltir með frösum. Það er verið að halda ræðu:
- Segjum svo ... Segjum að ... Tökum dæmi ...
Hvílíkt lostæti! Þjóðskáldið er mikið fyrir feitt og hámar í sig matinn af græðgi.
- Tökum dæmi ... Tökum annað dæmi ... Tökum svo enn eitt ... Segjum svo ... Segjum nú svo ... Segjum ...
Inn eru bornir þrír leirbullarar fylltir með rímklúðri og dauðhreinsaðri lýrikk.

Þeir fundu hann liggjandi á grúfu í portinu.
- Hann er fullur, sagði yngri lögregluþjónninn.
Sá eldri þagði ábúðarfullur.
- Víst er hann fullur.
- Minna má nú sjá, sagði sá eldri: Hann er útúr.


Dagur Sigurðarson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page