7.4.06

Er maðurinn að grínast? Um Gleði og glötun e. Óttar Martin Norðfjörð

Í X-kynslóðarbíómyndinni Reality bites er sena þar sem ein aðalsöguhetjan, Lelaina Pierce (Winona Ryder), sækir um starf á dagblaði og er spurð hvort hún geti skilgreint íróníu. Hún hikstar á þessu og fær ekki vinnuna. Þegar hún kemur heim, pirruð og reið og vonsvikin, gengur hún í fangið á óhamingjusama og listræna snillingnum Troy Dyer:

"Lelaina: I mean, these job interviews, Troy... The word “vivesection” is a staggering understatement. I mean, can you define irony?
Troy: Its when the actual meaning is the complete opposite from the literal meaning.
Lelaina: My God, where were you when I needed you today?"

Þetta er auðvitað ekki alveg rétt hjá Troy, þó hann sé snillingur, en það sannar kannski einmitt það sem Lelaina hafði upplifað, að írónía er ekki sérlega auðveld viðureignar. Írónía er illskilgreinanleg tegund húmors, og jafnvel enn frekar illskiljanleg. Sumir skilja ekki þá sem hlæja að Silvíu Nótt, sumir skilja ekki þá sem hlæja ekki. Og það er engin sérstök regla að segi maður eitthvað sem er öfugt við það sem maður meinar, þá sé um íróníu að ræða, né heldur er öll írónía af þeirri tegund. Íróníu mætti mögulega skilgreina sem tiltölulega blátt áfram fullyrðingar þar sem merkingin fer á einhvers konar ferðalag, sem getur endað á sama stað og það hófst. Það er einhver strekkingur í merkingunni, eitthvað óþægilegt og óljóst. En svo er fólk víst alls ekki sammála um það heldur.

Gleði og glötun er heitið á síðustu ljóðabók Óttars Martin Norðfjörð, en hún kom út í seríu Nýhils, Norrænar bókmenntir, síðastliðið haust. Ég er aldrei viss hvernig ég eigi að taka ljóðum Óttars. Þau snúa oftar en ekki upp á veruleikann með því einu að segja hlutina eins og þeir eru, og það er eitthvað óþægilegt við það. Eins og þegar róttæklingar segja að Halldór Ásgrímsson sé (óbeint) barnamorðingi, fyrir að hafa samþykkt innrásina í Írak. Auðvitað er það rétt. Það er ekki skilgreiningaratriði. En það er óþægilegt, jafnvel ósanngjarnt, og það er ekkert víst að það „gagnist málstaðnum“ að hamra sífellt á því eða kæra Halldór fyrir barnamorð. Það er rétt, en það er samt eins og sá sem segi það sé með hundaæði.Ljóð Óttars krefjast þess af manni að maður takist á við þau. Er maðurinn að grínast? Bókin er konkret- og myndljóðlist, sver sig inn í pönkaramenninguna að formi til, en fer samt dálítið annað. Hún er einlægari og ekki jafn „innvikluð“. Pönkaramenningin var nefnilega ekki jafn mikil einstaklingshyggjumenning og hún gaf sig stundum út fyrir að vera, þar gengu menn í einkennisbúningum og börðust „saman“. Það er engin leið að skilja af Gleði og glötun hvort Óttar er að ráðast að vestrænni neyslu- og stríðshyggju eða vestrænum velferðarríkismótmælendaplebbum.Þetta er sem dæmi algerlega yfirgengilegt. Satan er sjálfsagt gildishlaðnasta orð sem til er, og sú fullyrðing að allt í sjónvarpinu sé Satan er svo stórkostlega banal að maður hlýtur að spyrja sig enn og aftur: er maðurinn að grínast? Og list Óttars er kannski einmitt fólgin í þessu, að koma sér út úr hinu fyrirsjáanlega rými, að búa svo um hnútana að í heimi sem er meira og minna fullur af sísálgreinandi vælukjóum þá geti engin getið sér til um hvert maður er að fara eða hvað maður meinar.

Tiltölulega framarlega í bókinni er svo þessi síða, hin banala yfirlýsing, þetta er svona, hér erum við og við erum að gera þetta:Síðurnar á undan og eftir eru auðvitað svo smekkfullar af ádeilu að ekki einu sinni Arðránsmenn Jóhannesar úr Kötlum kæmist með tærnar þar sem ádeila Óttars hefur hælana. En síðan kemur þetta, eins og skrattinn úr sauðaleggnum:Þorgrímur Þráinsson er líklega eins langt frá því að vera sú manneskja sem íslenskir róttæklingar samsama sig með og hægt er að komast, nema téðir róttæklingar séu reykingafasistar auðvitað. En hér er Þorgrímur ekki að skrifa um reykingar, hann er að segja frá ættingja sínum sem er alkóhólisti með framheilaskaða, manni sem er „einn af hinum gleymdu þegnum þjóðfélagsins [...] sem hafa orðið undir í velmegunarsprengingunni þar sem allt blómstrar.“ Svo virðist sem öreigarnir þrammi í kröfugöngu fyrir ofan hann, hann hefur Sovét-Ísland sér á vinstri hönd og undir niðri lýsir Óttar yfir algerri samstöðu með Þorgrími og virðist einhvern veginn vera að springa úr hlátri, tærast í sundur af kaldhæðni og samt kemur það einhvern veginn ekki alveg til greina. Er maðurinn að grínast? Er Óttar að gera lítið úr fólki með framheilaskaða – er hann að reyna að senda fólk fram af svölunum á öryrkjablokkinni? Það gengur eiginlega ekki upp. Ég veit ekki hvort maðurinn er að grínast, en mér finnst þetta alveg kynngimagnað.

Loks finnst mér rétt að benda á, og fagna, notkun Óttars á texta þjóðfélagsins – dagblöð, teiknimyndasögur, sjónvarpsdagskrár, fjölskyldualbúm, auglýsingar, frægar myndir, þekkt sönglög, byggingar og mynstur allt er kannibalíserað bókinni til göfgunar.


Eiríkur Örn Norðdahl

Tenglar:

Sálin er krakki sem hlær af ást. Ljóð e. Óttar

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page