1.4.06

ógæfa á hótelinu á horni Vermont og 3. strætis

Alabam var laumupúki og þjófur og hann heimsótti mig
í herbergið þegar ég var drukkinn og
alltaf þegar ég stóð á fætur hrinti hann mér aftur
niður.

fáviti, sagði ég við hann, þú veist þú átt ekkert í mig!

hann hrinti mér bara niður
aftur.

ég náði loks að negla hann, rétt yfir
gagnauganu
og hann hopaði og
fór.
það var nokkrum dögum seinna
sem ég náði mér niður á honum: ég reið
kellingunni hans.

svo rölti ég niður til hans og bankaði á
dyrnar hjá honum.

jæja, Alabam, ég reið konunni þinni og nú ætla ég að
sparka þér alla leið til
helvítis!

aumingjans vesalingurinn fór að grenja, setti andlitið
í gaupnir sér og grét bara.

ég stóð þarna og horfði á
hann.

svo skildi ég hann eftir, fór aftur í
herbergið mitt.

við vorum öll alkar og ekkert okkar var í vinnu, allt sem við áttum
var hvert annað.

og meira að segja, þessi svokallaða kelling mín var á einhverjum bar eða
einhvers staðar, ég hafði ekki séð hana svo dögum
skipti.

ég átti flösku af púrtvíni
eftir.

tók tappann úr og fór með hana niður til
Alabams.

sagði, hvað segirðu um sopa,
Nagli?

hann leit upp, stóð upp, sótti tvö glös.

Charles Bukowski


Þýðing: Eiríkur Örn Norðdahl.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page