25.4.06

Gullöldin er aldrei núna

Hver voru uppáhaldsljóðskáld Íslendinga á öldinni sem leið? Þessu reynir Gísli Sigurðsson fyrrverandi Lesbókarritstjóri að svara með stuttri skoðanakönnun í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um síðustu helgi. Niðurstaðan er álíka fyrirsjáanleg og búast mátti við. Einar Benediktsson er efstur og níu efstu ljóðskáldin eru öll fædd fyrir miðja öldina, Þórarinn Eldjárn (fæddur 1949) þeirra yngstur. Svarendur eru fimmtán og þeirra yngstir eru tveir piltar úr MK. Kíkjum á svör annars þeirra:

„11. Kjartan Gíslason menntaskólanemi úr Menntaskólanum í Kópavogi er líkt og félagi hans, Guðmundur Valur, fulltrúi þeirra ungu. Skoðanir beggja á uppáhaldsskáldum voru fastmótaðar þrátt fyrir ungan aldur.
Kjartan nefndi Einar Benediktsson, Stein Steinarr og Þórarinn Eldjárn. Kjartan er aðeins 18 ára og ugglaust ekki eins kunnur og flestir sem hér svara. En hann var fljótur að komast að niðurstöðu og niðurstaða hans vekur engar sérstakar spurningar.“

Ég vona svo sannarlega að það sé rangt hjá Gísla að skoðanir átján og sextán ára unglinga á ljóðlist séu þegar fastmótaðar – þó vissulega sé það sorglega líklegt. Ennþá merkilegra er þó að niðurstaða hans veki engar spurningar. Er það ekki dálítið merkilegt að af þremur skáldum sem táningur nefnir séu tvö dáin fyrir nær hálfri öld? Hversu margir jafnaldrar hans hefðu nefnt Bing Crosby og Al Jolson sem uppáhaldssöngvara eða Clark Gable og Gretu Garbo sem uppáhaldsleikara?

En á meðan þekking íslenskra ungmenna á tónlist og kvikmyndum er oft sorglega bundin við síðustu 20-30 árin þá er þekking þeirra á ljóðlist sorglega föst í fortíðinni – þegar svo vel vill til að um einhverja þekkingu sé yfir höfuð að ræða. Hinir eldri eru vissulega litlu betri – og í raun oft þeir sem bera ábyrgð á ástandinu. Það eru jú þeir sem velja ljóðin í skólabækurnar, það þarf mikla og sjaldgæfa forvitni til þess að leita lengra eftir ljóðum eftir þá reynslu.

Þetta snýst ekki aðeins um hvort ljóðin séu góð eða vond (enda eru mörg ljóðskáldin sem nefnd eru vissulega fullverðug sæmdarinnar), heldur snýst það um breidd og það að við eigum okkur ljóðskáld sem ríma við okkar tíma. Máski er þetta eins og með gjafirnar, við erum gjörn á að gefa gjafir sem okkur langar í. Eins kenna kennarar ljóð sem höfða til þeirra, ekki miklu yngri nemenda þeirra. Þegar við bætist landlæg tregða til breytinga erum við ennþá að mestu að læra uppáhaldsljóð kennara frá millistríðsárunum, þó blessunarlega séu til nýjungagjarnir kennarar og kennslubókarhöfundar sem eru undantekningar frá þeirri reglu.

Af þessu skapast svo ákveðið rof, ákveðinn geðklofi meintrar bókaþjóðar. Hátíðarræður ráðamanna enduróma skólaljóðin, velsæld okkar er rómuð á meðan ljóðin eru öll frá gullöldinni, þið vitið, þegar okkur var almennilega kalt og þegar við bjuggum á sveitabæjum, í bröggum eða jafnvel torfbæjum. Þegar við vorum ein fátækasta þjóð Evrópu en ekki sú ríkasta. En þarna á milli virðast ekki vera neinar brýr, því sá sem skilur ekki ljóðlist núsins getur seint skilið ljóðlist þásins og hlutverks þess í núinu.

----

Fyrir áhugasama er svo rétt að birta niðurstöður könnunarinnar í Morgunblaðinu. Það vakti athygli tregawattana að eitthvað virtist talningin hafa skolast til upp í móum og því eru hér lokatölurnar margtaldar. Sérstaka athygli hlýtur að vekja sú staðreynd hve Hannes reynist skáldlegt nafn, en 3 af þeim 18 skáldum sem nefnd eru heita Hannes. Aðeins Magnúsarnir eru líka í fleirtölu, en til þess þarf raunar einn Magnús sem er aldrei kallaður annað en Megas.

1. Einar Benediktsson (1864-1940) 7 atkvæði
2. Hannes Pétursson (1931-) 6
3.-4. Steinn Steinarr (1908-58) 5
3.-4. Snorri Hjartarson (1906-86) 5
5. Stefán Hörður Grímsson (1919-2002) 4
6. Þorsteinn frá Hamri (1938-) 3
7.-9. Þórarinn Eldjárn (1949-) 2
7.-9. Tómas Guðmundsson (1901-83) 2
7.-9. Ingibjörg Haraldsdóttir (1942-)

Þá fengu eftirtaldir eitt atkvæði:

Hannes Hafstein (1861-1922), Hannes Sigfússon (1922-97), Helgi Hálfdánarson (1911-), Magnús Ásgeirsson (1902-55), Matthías Johannessen (1930-), Megas (1945-), Jóhann Sigurjónsson (1880-1919), Sigfús Daðason (1928-96), Gyrðir Elíasson (1961-)

Ásgeir H Ingólfsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page