19.4.06

Ljósmynd og skuggamynd e. Hauk Ingvarsson

Þau koma úr sjónum og taka sér stöðu á gulhvítri klöpp. Hún hristir höfuðið og dropar slettast á hlæjandi andlit hans. Hann sleikir úr munnvikinu og segir að droparnir séu saltir eins og tár.

Svo leggjast þau á magann og sóla sig.

„Við ættum að eiga mynd af okkur eins og við erum einmitt núna," segir hún og rís upp á olnbogana, kallar á strák í fjörunni og biður hann að taka mynd. Þegar þau eru staðinn upp mótar fyrir líkömum þeirra á klöppinni. „Sjáðu," segir hún og bendir aftur fyrir sig „fjórir skuggar." Þau hlæja. Strákurinn skyggnist í kringum sig áður en hann smellir af. Út úr vélinni kemur hvítt spjald eins og tunga. Þau fylgjast með sjálfum sér koma í ljós á spjaldinu. Svo dorma þau, fljúgast á, kyssast djúpt, drepa tímann og busla í sjónum. Þegar þau ætla að snúa heim sjá þau að andlit þeirra eru gufuð upp.

Eftir standa tveir sviplausir skuggar.

Haukur Ingvarsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page