4.4.06

Orð af orði - Um Stóru orðabókina og skáldskaparfræðin

Tepra

ég á bara engin orð yfir svona dónaskap
nú á ég engin orð
þetta er yndislegra, dásamlegra en orð fá lýst

þögn

segja ekki orð,
segja ekki aukatekið orð
mæli ekki orð af vörum
mæli ekki orð af munni
tala ekki orð frá munni
get ekki dregið upp úr mér orð
get ekki togað upp úr mér orð

orðfall

kem ekki upp nokkru orði
(fyrir geðshræringu)
kem hvorki fyrir mig orði né eiði
mér verður orðs vant
kem ekki orðum að þessu

tek svo til orða:

kveð svo að orði
kemst klaufalega að orði
kem illa fyrir mig orði
er klúr í orðum
hnykki á orðunum
mér er margt betur gefið en hagmælskan

orðið er laust
orðið er frjálst


Út kom fyrir jól hjá J[óhanni] P[áli] V[aldimarssyni] ný, glæsileg og vel þung orðabók sem markar tímamót í íslenskri orðabókaútgáfu. Stóra orðabókin um íslenska málnotkun eftir Jón Hilmar Jónsson er stærsta orðabók sem út hefur komið síðustu áratugi enda er hún yfir 1600 bls. í stóru broti. Auk þess fylgir geisladiskur bókinni sem inniheldur rafræna útgáfa hennar þar sem boðið er upp á margvíslega leitar- og notkunarmöguleika.

Bókin mun án efa koma sér vel fyrir alla sem fást við skriftir af einhverju tagi. Jafnt þá sem sitja við skriftir öðru hvoru sem og þá sem vinna við skriftir og hafa kynnst því af eigin raun hvað það er lýjandi að sitja við skriftir allan daginn og semja texta, rita texta, skrifa texta, skrifa upp texta, fara yfir texta, renna yfir texta, reyna að stafa sig fram úr texta, lagfæra texta, leiðrétta texta, ganga frá texta og greina texta að ógleymdu því að þýða texta. Bókin er happafengur jafnt fyrir þá sem vilja skrifa góðan texta og leitast við að skrif þeirra séu vandaður, góður, læsilegur og lipur texti sem og þá sem kjósa að texti þeirra sé erfiður, snúinn, torskilinn og tyrfinn.

Þeir sem vilja skrifa lipran stíl eða ætla að skapa sér persónulegan, sérstakan og fágaðan stíl er Stóra orðabókin kærkomið hjálpartæki. Þar gildir einu hvort markmiðið er að stílinn sé liðugur, léttur og leikandi, fjörlegur, blæbrigðaríkur, litríkur, svipmikill, myndríkur, fágaður, hátíðlegur, íburðarmikill eða þá agaður, knappur, einfaldur, látlaus og jafnvel dauflegur, litlaus, lágkúrulegur, upphafinn, ofhlaðinn, þungur, þunglamalegur, knosaður sem og uppskrúfaður. Sem sagt er bókin öllum þeim sem vilja aga stílinn mikið þarfaþing.

Þá sé ég fyrir mér að Stóra orðabókin eigi eftir að koma okkur ljóðskáldunum að góðum notum. Upp úr henni mætti yrkja fjölda ljóða. Ljóð um ástina og náttúruna bæði rímuð ljóð sem og órímuð ljóð, formfrjáls ljóð og háttfrjáls ljóð. Ljóð þar sem gætir trega, Ljóð þar sem skáldið beitir líkingum. Falleg ljóð og hjartnæm, angurvær, tregablandin og tregafull ljóð. Fáein ástarljóð eða þá ljúflingsljóð, munarljóð, tilfinningaljóð, kenndarljóð, hvataljóð, saknaðarljóð, gleðiljóð, frásagnarljóð, söguljóð, lausamálsljóð, prósaljóð, vorljóð, kvöldljóð, trúarljóð, hátíðarljóð, fagnaðarljóð, brúðkaupsljóð, ættjarðarljóð, átthagaljóð, bernskuljóð, æskuljóð, baráttuljóð, kenniljóð, galdraljóð, töfraljóð, náttúruljóð, hjarðljóð, vögguljóð, já og nokkur helgiljóð mega líka fljóta með. Ef þannig lægi á skáldi þá mætti líka sækja sér hjálp hennar við að yrkja harmaljóð, sorgarljóð, angurljóð, tregaljóð, minningarljóð, erfiljóð, dánarljóð og útfararljóð svo eitthvað sé nefnt. Svo er alltaf hægt að setja saman eins og eitt stykki atómljóð eins og það sem fór hér á undan og er allfarið samið með orðum úr Stóru orðabókinni um íslenska orðnotkun, að titlinum undanskildum því honum stal ég frá vini mínum. Ég kýs að kalla ljóðið Tepru en það mun einnig birtast í væntanlegri ljóðabók minni.


Magnús Þór Snæbjörnsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page