11.4.06

Paul Muldoon – The More a Man Has the More a Man Wants

Paul Muldoon er skáld og fræðimaður, fæddur árið 1951 í Armagh-sýslu, Norður-Írlandi og menntaður í Queen’s University of Belfast. Hann hefur gefið út margar ljóðabækur, fengið fjölda verðlauna fyrir skáldskap sinn, þar á meðal, Pulitzer-verðlaunin árið 2003, T.S. Eliot-verðlaunin, Griffin Poetry-verðlaunin, og The Irish Times Poetry-verðlaunin. Hann gegndi stöðu prófessors í ljóðlist við Oxford-háskóla frá árunum 1999 til 2004, og er nú prófessor við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er almennt viðurkenndur sem fremsta núlifandi ljóðskáld Íra ásamt kunningja sínum, nóbelsverðlaunahafanum Seamus Heaney. Sé leitað að honum í Gegni, þá kemur í ljós að til er ein bók honum tengd á Íslandi. Það er safnbók frá 1986 sem heitir The Faber Book of Contemporary Irish Poetry, ritstýrt af Paul Muldoon. Það er allt og sumt.

Til kynningar á verkum þessa fróma manns, þá fylgir hér á eftir umfjöllun um ljóð eftir hann sem nefnist The More a Man Has the More a Man Wants. Það birtist í lokin á bókinni Quoof, sem kom út árið 1983 og er hans fjórða bók. Ljóðið er all langt, en það hefur verið venja hjá Muldoon að hafa eitt langt ljóð í lok bóka sinna. Þó hefur löngu ljóðunum fjölgað í seinni tíð.

Árin fyrir, og í kringum útgáfutíma bókarinnar var mikið um ofbeldi á Norður-Írlandi og aðskilnaðarbarátta I.R.A. var í algleymingi. ‘Blóðugi sunnudagurinn’ var árið 1972, en eftir þau fjöldamorð á írskum borgurum má segja að I.R.A. hafi sleppt fram af sér beislinu í ofbeldisverkum, auk þess sem I.R.A. liðar fóru oft í hungurverkföll eftir að þeir voru handsamaðir. Það borgar sig að geta þessa í umfjöllun um verk Muldoon, enda hefur hann alltaf valið að fjalla með beinum hætti um málefni á borð við þessi, ólíkt Heaney sem hefur jafnan kosið að draga sig frá þessum atburðum til að íhuga þá og fjalla þannig um þá í sínum ljóðmælum. The More a Man Has… er ljóð sem er stútfullt af ofbeldi og engum þarf að dyljast reiði Muldoon yfir blóbaðinu og voðaverkunum sem geysa í kringum hann. Hins vegar veit hann að það myndi gagnast lítið að gefa út skáldskap fullan af dídaktík og siðapredikunum, auk þess sem slíkt myndi eyðileggja fagurfræðilegt gildi ljóðanna. Hann kýs því að útrýma tilfinningaseminni úr skáldskapnum og þannig nær hann að framkalla mun sterkari ljóðræn áhrif en ella.

Í upphafi ljóðsins hittir lesandinn, eða virðist hitta því ljóðið er vísvitandi órætt, aðalpersónuna sem nefnist Gallogly.

At four in the morning he wakes
to the yawn of brakes,
the snore of a diesel engine.
Gone. All she left
Is a froth of bra and panties.
The scum of the Seine
and the Farset.
Gallogly squats in his own pelt.
A sodium street light
has brought a new dimension
to their black taxi.
By the time they force an entry
He’ll have skedaddled
Among hen runs and pigeon lofts.

Gallogly er á flótta. Að öllum líkindum er hann I.R.A. hryðjuverkamaður með yfirvöld á hælunum, þó í þessu ljóði sé ekkert vitað fyrir víst. En það er í lagi þó hann sé eltur, hann getur nefnilega haft hamskipti og brugðið sér í allra kvikinda líki.

The charter flight from Florida
touched down at Aldergrove
minutes earlier,
at 3.54 a.m.
Its excess baggage takes the form
of Mangas Jones, esquire,
who is, as it turns out, Apache.
He carries only hand luggage.
‘Anything to declare?’
He opens the powder-blue attaché-
case. ‘A pebble of quartz.’
‘You’re an Apache?’Mescalero.’
He follows the corridor’s
arroyo till the signs reads Hertz.

Strax í öðru erindi er orðið nokkuð erfitt að fylgja þræðinum, enda á sjálfsagt ekki að vera mikill þráður. Er Gallogly kominn til Flórída? Lesandinn getur ekki vitað neitt með vissu í þessu óskýra ljóðalandslagi þar sem staðir og persónuleikar renna saman og blandast. Það sem máli skiptir, er að Ameríka er nefnd til sögunnar. Sem persóna virðist Gallogly eiga einhverjar rætur að rekja til hrekkjalómahefðar Norður-Amerískra indíánagoðsagna. Auk þess er hér nefndur Apache- indíáni, sem leiðir huga manns annars vegar að villta vestrinu, sem leiðir huga manns til ofbeldis, og hins vegar til ofskynjunarlyfja á borð við Peyote, sem er unnið úr sandkaktusum og notað er m.a. í LSD. Brengluð skynjun er áberandi í fleiri ljóðum eftir Muldoon. Í þriðja lagi mætti kannski segja að hugur manns sé leiddur að bandarískri ljóðlist, annars vegar að Beat-skáldum, og svo er hér líka tilvísun í ljóð eftir Robert Frost. Setningin ‘A pebble of quartz’ er úr ljóði eftir Frost sem nefnist For once, then, something. Í því verður ljóðmælanda litið ofan í djúpan brunn, og þar sér hann glampa á eitthvað glóandi ofan í vatninu. Það gæti verið verðmætur steinn, kannski úr kvarsmálmi, en gæti líka verið eitthvað allt annað.

All a bit much after the night shift
to meet a milkman
who’s double-parked his van
closing your front door after him.
He’s sporting your
Donegal tweed suit and your
Sunday shoes and politely raises your
hat as he goes by.
You stand there with your mouth open
as he climbs into the still-warm
driving seat of your Cortina
and screeches off towards the motorway,
leaving you uncertain
of your still-warm wife’s damp tuft.

Eins og áður sagði virðist Gallogly vera hamskiptingur. Hann virðist í ljóðinu bregða sér í allra kvikinda líki, svo sem hænu, rjúpu, hunds, bjarnar og kanínu, og auk þess brugðið sér í ham ólíkra manna, svo sem mjólkurpóstsins í Belfast (ef það er þá Belfast) eða indíánans Mangas Jones. Hann rennur saman við margt ólíkt fólk, og hann gæti verið hver sem er. Hann gæti jafnvel hafa þóst vera þú sjálfur, gengið um hús þitt og notið ásta með konunni þinni, þessi ofbeldismaður og skálkur. Í öllu falli er dýrslegt eðli hans ljóst. Og vitaskuld hafa allir þetta dýrslega eðli, þó misgrunnt sé á því. Gallogly gæti verið ég eða þú.

Gallogly’s thorn-proof tweed jacket
is now several sizes too big.
He has flopped
down in a hay shed
to ram a wad of hay into the toe
of each of his ill-fitting
brouges, when he gets the drift
of ham and eggs.
Now he’s led by his own wet nose
to the hacienda-style
farmhouse, a baggy-kneed animated
bear drawn out of the woods
by an apple pie
left to cool on a windowsill.

Eins og áður sagði er mikið um ofbeldi í ljóðinu, hvort sem það birtist í formi bílsprengja sem Gallogly hefur líklega komið fyrir, eða fólki sem er skotið til bana, að öllum líkindum af Gallogly, eða skírskotunum til napalmsprengja varpað á Víetnam, sprengjuárása fasista á Guernica, frönsku byltingarinnar, fjöldamorðsins á indíánum við Undað Hné, eða ræningja með nælonsokka yfir höfðinu. Hins vegar er ofbeldinu iðullega stillt upp við hlið stórra nafna úr menningarsögu mannkyns á borð við Picasso, Jackson Pollock, Gertrude Stein eða Óvidíus, eins og af orðfárri gremju og biturð yfir þessari heimsku sem er að eiga sér stað. Nafn Óvidíusar gæti rennt stoðum undir þá túlkun að hamskipti séu stöðugt að eiga sér stað hjá Gallogly. Gallogly virðist mikið vera að bardúsa með Kalashnikov-riffla og sprengihlaup, sem styður þá túlkun að hann sé hermdarverkamaður. Ofbeldisverkunum eru oft gerð skil með ‘opinberu’ orðalagi, sem gerir þetta sama orðalag oft frekar kaldhæðnislegt, kannski svipað og þegar Bandaríkjaher réðst inn í Írak og hinn tæknilega frasa ‘collateral damage’ bar oft á góma og uppskar oft kaldranalegt gys. Þarna skín kannski reiði Muldoon yfir atburðunum sterkast í gegnum þoku ljóðmálsins.

The U.D.R. corporal had come off duty
to be with his wife
while the others set about
a follow-up search.
When he tramped out just before twelve
to exercise the grayhound
he was hit by a single high-velocity
shot.
You could, if you like, put your fist
in the exit wound
in his chest.
He slumps
in the spume of his own arterial blood
like an overturned paraffin lamp.

Annað sem virðist bráðna undan þeim áköfu hughrifum sem ofbeldið skapar, ásamt stað, stund, og persónuleika, er tungumálið. Það kemur fyrir að eitt og eitt orð er bókstaflega ruglað, eins og það hafi gefið sig. Til að mynda má sjá orðið “Vietmanese” (og jafnvel “Viet-ma-friggin’-knees”) í stað “Vietnamese” snemma í ljóðinu. Þegar hjaðningavígin eru orðin svona áköf þá verður allsherjar upplausn á tilverunni. Allt gengur af göflunum, og hvernig er annað hægt en að verða svolítið brjálaður sjálfur af því að horfa uppá firringu heimsins? Hvernig geta menn verið vissir um að allar fórnirnar séu þess virði að færa þær, ef þær þýða að vefnaður veraldarinnar raknar svona upp?

Was she Aurora, or the goddes Flora,
Artemidora, or Venus bright,
or Helen fair beyond compare
That Priam stole from the Grecian sight?
Quite modestly she answered me
And she gave her head one fetch up
And she said I am gathering musheroons
To make my mammy ketchup.
The dunt and dunder
Of a culvert-bomb
Wakes him
As it might have woken Leander.
And she said I am gathering musheroons
To make my mammy ketchup O.


Titill ljóðsins er vísun í litla stöku sem kemur fyrir í erindi 44.

The more a man has the more a man wants,
the same I don’t think true.
For I never met a man with one black eye
who ever wanted two.
In the Las Vegas Lounge and Cabaret
the resident group—
pot bellies, Aran knits—
have you eating out of their hands.
Never throw a brick to a drowning man
when you’re near to a grocer’s store.
Just throw him a cake of Sunlight soap,
let him wash himself ashore.
You will act the gallot, and the gallivant,
and call for another encore.

Kaldhæðnin er auðvitað sú að fólk virðist ekki fá nóg. Eitt glóðarauga dugar ekki, þau verða að vera fleiri og fleiri og blóðþorstanum virðist aldrei vera fullnægt. Línurnar fjórar um sápuna ættu að hafa augljósa merkingu: hér er ekki vanþörf á því að menn drukknandi í ofbeldi geri iðrun og yfirbót og þvoi af sér syndir sínar. Hér er mikil þörf á syndaaflausn. Þessar línur eru meira að segja endurteknar í erindi 46 til undirstrikunar. Ljóðið endar svo á sprengingu í erindi 49, eftir það sem virðist vera rán á bensínstöð:

It was this self-same pump attendant
Who dragged the head and torso
Clear
And mouthed an Act of Contrition
In the frazzled ear
And overheard
Those already-famous last words
Moose… Indian.
‘Next of all wuz the han’. ‘Be Japers’
‘The sodgers cordonned-off the area
wi’ what-ye-may-call-it tape.’
‘Lunimous.’ ‘They foun’ this hairy
han’ wi’ a drowneded man’s grip
on a lunimous stone no bigger than a…’

‘Huh.’

Og þar með snýst þetta langa og torræða ljóð aftur að byrjun sinni og gefur kannski í skyn að verið sé að lýsa vítahring. Aftur erum við komin að ljóði Roberts Frost um manninn sem sá eitthvað glóa á botni brunnsins, en í ljóði Muldoon hafa menn þegar fleygt sér á bólakaf í myrkan brunn ofbeldis og morða í von um að finna gullið á botninum. En ætli það hafi í rauninni verið gull? Varla. Það er ekki einu sinni glóandi, það er “lunimous” í staðinn fyrir “luminous”. Og jafnvel þó það væri ekta gull, skiptir það varla máli þegar maður er drukknaður.

Hér hefur verið stiklað á stóru í þessu langa og mikla ljóði og því hafa langt í frá verið gerð tæmandi skil, þó auðvitað sé ekkert slíkt til. Vonandi vaknar hjá þeim sem þetta lesa, örlítill áhugi eða forvitni á að kynna sér betur verk Muldoon, eins af merkustu skáldum samtímans. Í október er von á nýrri bók eftir hann sem nefnist Horse Latitudes, og undirritaður leyfir sér að vona að hún rati í bókabúðir og bókasöfn á Íslandi. Það veitir ekki af, því eins og áður segir er ekkert af ljóðmælum hans á boðstólum hér núna.

Kári Páll Óskarsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page