3.4.06

Tími til að myrða og skapa – aftur e. Eirík Örn Norðdahl

Það er fátt mikilvægara listamönnum en að neimdroppa. Þetta virðist kannski lítilsvert snobb við fyrstu sýn, og það má jafnvel hugsa sér að menn fái aulahroll. Guð veit að ég geng um af taugakippum í hvert skipti sem ég segi: „Language poetry“. Að ég tali nú ekki um Lang-po. En ég held það séu samt hreinar línur að aðilar ljóðabransans eru engan veginn nógu duglegir við að segja hvor öðrum hvað þeir eru að lesa – ef þeir eru þá að lesa nokkuð.

Akkilesarhæll íslenskrar ljóðlistar – já og jafnvel bara ljóðlistar almennt, þó sum svæði hafi orðið verr úti en önnur – eru þessir eilífu hringsnúningar skálda, bókmenntafræðinga og ljóðlestrarfólks alls lags í kringum miðlægt rassgat hins þekkta. Nú er ég minna að tala um vinahópa, og meira um landssvæði, þó vissulega rotti menn sig saman í pepp-bandalög þvers og kruss og hafi takmarkaðan til engan áhuga á öðru sem er lifandi í kringum þá. Íslenskt ljóðskáld í dag, líkt og fyrir 20 árum, á að þekkja Jónas, Einar, Stein, Sigfús og kannski handfylli í viðbót. Íslensk ljóðskáld lesa upp til hópa nákvæmlega sömu ljóðin – sem svo veldur blómlegri innræktun sálarlífs þeirra, eins og sveppvöxtur inn úr hjartanu. Þannig þurrhömpa menn fótleggina hver á öðrum út í gaddfreðinn óendanleikann, og öllu svipar þessu einhvernveginn meira og minna saman: Íslensk ljóð; íslensk ljóðskáld eru kominn í karl- kven- og hvorugkynslegg af sömu sæðiseggjahrærunni, úr sömu útungunarvélinni sem byggir á mekanískum hugmyndum um rómantík. Og það er sama hversu myndarlegum og viljugum erlendum dátum þú stillir upp á höfninni, endalaust vill þetta búalið hjakkast hvert á öðru, ýmist af engri formvitund eða prógrameraðri.

Að skrifa óbundið – vers libre – á ekkert skylt með því að skrifa inn í formleysi.

Á bókmenntavefnum hafa verið sömu fjögur maxímin lengur en ég man; eitt þeirra er tilvitnun í Arnald Indriðason um að heimurinn sé samansafn af lygum, vitnað er í ljóð eftir Margréti Lóu og annað eftir Gyrði – hvorutveggja er eins konar dulræn bókspeki - og loks kemur tilvitnun í Árna Ibsen, þann annars ágæta mann:

„Með tímanum hef ég farið að líta á ljóð sem aðferð til að muna, en leikrit sem aðferð til að skilja. Hvor tegundin um sig er aðferð til að endurbyggja, til að gera heilt.“
Og maður hlýtur óneitanlega að velta því fyrir sér hvaða djúpstæðu sannindi þetta eru – að ljóð séu aðferð til að muna – sem aðstandendum bókmenntavefsins finnst að hafi nægt erindi til þess að þetta birtist í fjórða hvert skipti sem maður lítur inn á vefinn. Því væntanlega er ekki mikil vinna fólgin í því að skipta út einu maxími fyrir annað. Út af fyrir sig er þetta ekki óáhugaverð hugmynd – ljóðlistin sem skjalavarsla hugans. Myndlíkingarnar eru þá væntanlega eins konar framkallarar minninganna – nema Árni sé að hjálpa öðrum að muna og hann líti á ljóðlist sína líkt og byggingu gagnabanka. Ég skal nú gerast svo breiður að viðurkenna að ég hef ekki, svo ég muni eftir, lesið ljóð eftir Árna. Kannski eru þetta runur af upplýsingum, mikilvæg símanúmer, afmælisdagar, leiðbeiningar við þvotta- sem mér þætti satt best að segja mjög áhugavert að komast í.

Nema hvað - Is it perfume from a dress / That makes me so digress? – hvar var ég? Með tímanum hef ég farið að líta á neimdropp sem aðferð til að læra. Það er ekki margt mikilvægara en að geta skipst á nöfnum við önnur ljóðskáld – þetta gera tónlistarmenn sem dæmi villt og galið (Ó, hvað ljóðskáld mættu læra margt af tónlistarmönnum! Og myndlistarmönnum!), og þetta gera ljóðskáld líka með tónlist. Í tónlistarbransanum er aktív typpakeppni í gangi um það hver getur fundið bestu obskúr böndin, hver getur grafið upp gimsteina þar sem enginn átti von á þeim. Tónlistarmaður skammast sín fyrir að eiga ekki nema hundrað geisladiska, á meðan ljóðskáld getur næstum því verið stolt af sínum hundrað ljóðabókum. Þetta hef ég sagt áður. Ljóðskáld getur átt sinn Einar Ben – sem er næstum því heill hillumetri af framsóknarljóðlist.

Einhver sagði að sá yrði ljóðskáld sem þráir að vera listamaður en nennir ekki að leggja neitt á sig til þess. Við nær allar aðrar listgreinar þurfa menn að fjárfesta í dýrum búnaði, og æfa sig gríðarlega mikið áður en þeir ná færni. Það gefur enginn út plötu sem hefur lært á selló í 2 ár, og það fær enginn jobb í konunglega sænska ballettinum sem getur ekki sest klofvega á kynfærin á sjálfum sér. Til að verða skáldsagnahöfundur þarf hið allra minnsta smá úthald, athyglisgáfu – hreinlega til að komast í gegnum hundrað blaðsíðna múrinn, sem ku skilja á milli skáldsagna og nóvella. En ljóðskáld þarf ekkert nema kolamola og klósettpappír. Eins og mýmörg dæmi íslenskrar ljóðlistar sanna þá er líka tiltölulega einfalt að feika sig í gegnum þetta – að ná grundvallarvaldi á líkinga- og myndmáli, og passa sig svo bara á að stíga ekki í klisjudrulluna sem skitið hefur verið á allar gangstéttir og upp alla veggi. Þetta er ekki flókið. Og rétt eins og sá sem hefur aldrei heyrt músík furðar sig á fegurð píanótóna, þó fimm ára barnið sem spilar hafi rétt í þessu verið að uppgötva að hljóð komi úr tækinu ef maður ýtir á takkana, þá gapa lesblindir af botnlausri hamingju þegar gellur í fögrum tónum myndlíkinganna.

Þetta er grundvallaratriði, eitthvað sem ætti ekki að taka árafjöld að komast að: Það eru ekki allir lesblindir. Við vitum hvað þú ert að gera.


Eiríkur Örn Norðdahl

2 Comments:

Blogger Ásgeir said...

En hvort er meira um vert; að neimdroppa eða vera neimdroppað?

4:07 e.h.  
Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said...

Það er ekkert á hvorugu að græða - í raun og veru. Best er að láta neimdroppa eitthvað við sig. Að neimdroppa er svo altrúísk gjörð -og sá sem neimdroppar verður að gera það af metnaði. Það þýðir ekki að segja bara að hvaða fúsk sem er sé frábært, og þýðir ekki að slá um sig með nöfnum sem eru ekkert merkileg. Neimdroppið verður að vera úthugsaður gjörningur þess sem hefur kynnt sér málið.

Það græðir svo heldur enginn neitt á því að vera neimdroppað, nema að hann/hún standi undir því þegar á hólminn er komið. Ef hann/hún gerir það ekki - þá missir líka neimdropparinn allan trúverðugleika.

10:14 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page