18.4.06

Tvö ljóð úr Ráð við hversdagslegum uppákomum e. Óskar Árna Óskarsson

Hollráð í tengslum við inniveru

Innivera hefur á síðustu árum verið stórlega vanmetin. Gott ráð til að venja sig á inniveru er að semja við kaupmanninn um heimsendingarþjónustu. Þá er maður fullkomlega frjáls og áhyggjulaus að reika milli herbergja, njóta bóklesturs, teygjuæfinga og alls þess sem maður hefur yndi af. Veðrið fyrir utan gluggann er síbreytilegt og fátt veitir meiri innri ró en að fylgjast með skýjafarinu frá degi til dags. Bjóðist ykkur heimilishjálp er engin sérstök þörf á henni.


Tilmæli til áhugamanna um varðveislu njólans

Eins og borgarbúar hafa ef til vil tekið eftir hefur njólinn átt undir högg að sækja í görðum og óræktarspildum innan borgarmarkanna síðustu misserin. Á vorum allsnægtartímum fær ekkert undir sólinni að vera í friði sem er einungis þar fyrir sjálft sig. Villilöndin eru smátt og smátt að hverfa, njólaskógarnir að þynnast, klappir og holt komin undir malbik og gler. Varla að finnist lengur staðir til að ráfa um óáreittur og tylla sér á stein þar sem smáblóm og fjölskrúðugt illgresi fær að vaxa án afskipta skipulagsstjóra, staðir þar sem hægt er hverfa á vit himinblámans í skjóli njólablaða og bylgjandi stráa. Svo algerlega hefur verið þrengt að einskismannsblettum borgarinnar að börnin eru hrakin inn í hálfrökkvaða leiktækjasali í leit að afdrepi undan leiðindum hinna fullorðnu. Drögum úr notkun geðlyfja! Stöndum vörð um njólann!


Óskar Árni Óskarsson

Bókin kostar 1290 kr. og er til sölu í helstu bókabúðum í Reykjavík, auk þess sem hægt er að panta hana hjá Smekkleysu í síma 551 3730 og 551 3780, og hjá höfundinum í síma 552 2631.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page