16.4.06

Um Teardrops of Wisdom e. Silvia Night

Teardrops of Wisdom eftir Silvia Night er ekki ljóðabók sem kemur á óvart. Hún er að öllu leyti eins og við mátti búast af Silvíu Nótt – ljóðin eru stutt, þau hverfast í kringum ljóðmælanda og þann gríðarlega dýrðarljóma sem stúlkan hefur búið til í kringum sig. Ljóðin eru reyndar svo stutt að íslensk þýðing hundrað blaðsíðna bókar er birt á einni einustu opnu aftast í bókinni. Það er eitt ljóð á hverri opnu, og ljóðin eru skreytt með myndum af súperstjörnunni í erli dagsins, sem í tilfelli Silvíu á sér stað í ljósmyndastúdíóum í stílíseriðum stellingum. Framsetning ljóðanna er í konkret-stíl, pældum uppsetningum – stórum stöfum, lituðum, mismunandi leturgerðum og leturlitum – sem væntanlega eru hugarfóstur auglýsingastofunnar Vatíkanið, sem er skrifuð fyrir „listrænni stjórnun og hönnun“.

God has a garden
where he grows his
most beautiful flowers
deep in my soul

(Eden)

Ljóðmál Silvíu er einhvers konar skopstæling á því sem hefur verið nefnt „ég-ljóðið“ – það er yfirdramatískt, vísar til gríðarstórra óræðra hugtaka (guð, ást) til uppljómunar viðfangsefnisins frekar en til að fjalla um hugtökin. Að einhverju leyti vísar þessi ljóðagerð líka til textagerð glysrokksins á níunda áratugnum, hljómsveita á borð við Mötley Crue.

Life is a stage
the band is
your family
the lights of
your soul
and the fans
they are
the world.
Classy, cool
I’m a dangerous tool
if not used gently
you’ll be
getting detention
at my love school.

(Arena – þetta ljóð er reyndar á tveimur opnum, sem eru ekki samliggjandi, en það er þýtt aftast sem eitt ljóð og því set ég það hér saman í ensku útgáfunni).

Að einhverju leyti er eðlilegt að persóna sem hugsar ekki um neitt nema sjálfa sig skuli finna hjá sér tilhneigingu til að yrkja. Tilhneiging íslenskra ljóðskálda í kringum tvítugt (ef eitthvað er að marka ljóðavefi á borð við ljóðasvæðið á huga.is og ljod.is, og sambærilegt erlendis) er einmitt að nota ljóðlistina til sjálfsupphafningar. Þar er upphafningin kannski ekki alveg jafn umbúðalaus og hjá Silvíu, en hún lýsir sér í sams konar stækkun á mikilvægi sálarlífsins. Ljóðmælandi ég-ljóðsins er kannski ekki jafn ánægður með sjálfan sig og Silvía, en hann er alveg jafn upptekinn af sjálfum sér. Að því leyti er speglun Silvíu á ég-ljóðinu alger: ljóð hennar eru alveg eins en þau snúa öfugt, hægri er vinstri, upp er niður o.s.frv.

Silvía málar veröldina í sínum eigin litum, útskýrir heiminn eins og hún sér hann, með sjálfa sig í miðjunni dáða og elskaða svo hrokinn veldur manni gubbupestum og hlátursköstum til skiptis. Þetta er að einhverju leyti lífspeki, og ekki endilega vitlaust að stilla upp kverum á borð við Bókina með veginn og Spámanninn til samanburðar. Veröld Silvíu er ekki endilega einföld, ekki auðútskýranleg. Silvía er Lao Tze íslenskra unglingsstúlkna, þó henni gangi kannski ekki jafn gott til og Lao.

Silvía er samt auðvitað stærri en þessi bók – og ég veit ekki hvort það er hægt að skoða bókina sem afmarkað fyrirbæri án þess að taka inn þá veröld sem Silvía hefur búið til í kringum sig, með lífvörðum, stílistum, hárgreiðslumönnum, dönsurum, að ógleymdum sjónvarpsþáttunum og Júróvisjón-ævintýrinu. Það sem Silvía tekur sér fyrir hendur er undantekningalaust stórt og glæst. Teardrops of Wisdom er ekki bara stórkostlega útsett og auglýsingastofuhönnuð, hún er prentuð á þykkan glanspappír, búningarnir eru töfrandi að venju og framleiðslan er að sjálfsögðu afskaplega pró. Og stærðin hrífur, hið yfirdrifna er nægilega yfirdrifið til að maður dáist að því hreint og klárt sem íþrótt, afrekið sem tilvist Silvíu Nætur er fær mann til að taka andköf. Því metnaðurinn er þrátt fyrir allt talsverður, það er ekki kastað til höndunum við framleiðslu þessa glitrandi yfirborðs sem er svo þykkt að þó maður viti að ekkert hvílir undir (enda er það stanslaust gefið í skyn) þá er ekki sjálfgefið að fólk sjái í gegn. Silvía er nefnilega ekki eins og Elsa Lund, líkt og sumir hafa haldið fram, hún er miklu heldur eins og Andy Kaufman. Hún er bæði fyrirsjáanleg og óútreiknanleg, og það er síður en svo víst að það eina sem sköpurum hennar gangi til sé að vera fyndin, þó auðvitað sé verknaðurinn á köflum yfirdrifið kjánalegur og jafnvel tilgangslaus, í versta falli níhilísk (og á þar aftur kannski snertiflöt við Kaufman).

Það vakti athygli mína að útgefandi bókarinnar, JPV, víkur ekki einu orði að henni á heimasíðu sinni, þó þar sé unnið öflugt kynningarstarf á öðrum bókum forlagsins. Það best ég veit er bókin heldur ekki seld í neinum bókabúðum, en eingöngu í verslunum Hagkaup. Sem aftur dregur líka athyglina að eina blettinum sem fellur á glamúr Silvíu. Með bókinni fylgir nefnilega plakat með forsíðumyndinni, en töfrandi og fögru yfirborðinu er stórkostlega spillt með ótrúlega sjoppulegu Hagkaups-lógói í horninu.

Eiríkur Örn Norðdahl

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page