12.4.06

Vessapóesía

Sólveig Einarsdóttir: Draumur II, strauborð úr tæplega þúsund sykurpúðum (2004). „Sólveig leggur mikið upp úr því að myndlistin hafi jákvæð áhrif á nánasta umhverfi sitt og hefur unnið markvisst með hversdagsleikann í fyrri verkum. Verkið vísar frekar til hversdagsleika heimilisins í samræðu við listina, en feminískrar ádeilu á kvenmannshlutverkið sem strauborðið hugsanlega gefur til kynna.“ KDJ Mynd og texti fengin að láni úr sýningarskrá samsýningar 13 ungra myndlistarmanna, Grasrót #5, í Nýlistasafninu og húsi Orkuveitu Reykjavíkur árið 2004.

Um og eftir 1970, eða einhvern tímann, segi ég enda enginn sagnfræðingur og alls ekki viss, reis það sem síðar var skilgreint sem þriðja bylgja femínismans. Eins og aðrar menningarbylgjur skall þessi ekki á Ísland fyrr en 10 árum eftir að hennar varð vart annars staðar og splundraði þá Rauðsokkuhreyfingunni og upp úr brakinu reis Kvennalistinn. Rauðsokkurnar höfðu margar hverjar verið félagar í Alþýðubandalaginu eða ungliðahreyfingunni Fylkingunni og höfðu verið framarlega í baráttunni gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og hernámsliðinu á Miðnesheiði. Konurnar sem stofnuðu Kvennalistann vildu stefnubreytingu kvenréttindabaráttunnar frá alþjóðapólitík að praktískari málum og kusu að einbeita sér í byrjun að bæjarstjórn og buðu fram lista bæði í Reykjavík og á Akureyri. Á stormasömum stofnfundum Kvennalistans var tekist á um þessi mál og þegar stefnan var loks tekinn gekk Helga Kress út og hefur ekki sést síðan.


Í stað þess að krefjast byltingar kynjahlutverkanna var ákveðið að einbeita sér að praktískari hagsmunamálum kvenna eins og dagvistuna barna, jafnrétti til náms, sömu laun fyrir sömu vinnu o.s.frv. Þessar konur vildu ekki afneita sögu mæðra sinna og neituðu að skammast sín fyrir löngu liðnar kynsystur sínar og hlutverk þeirra gegnum tíðina. Þess í stað þurfti að breyta viðhorfunum til þessara hlutverka og sýna fram á hve mikilvæg þau væru og hefðu verið samfélaginu. Í þessu fólst nokkur mæðrahyggja. Femínistar höfðu fram að því litið á móðurhlutverkið sem uppspuna, tilbúning gerðan til að viðhalda ójafnrétti kynjanna sem þyrfti að leiðrétta en þriðju bylgju femínistar töldu vænlegra til árangurs að breyta viðteknum viðhorfum til hlutverkana en að breyta hlutverkunum algjörlega: Konur eru kúl – Girls Rule. Það er allt í lagi að klæðast bleiku.


Í bókmenntum sjást þessi skil vel í muninum á kvenlýsingum í bókum módernistanna annars vegar og yngri skálda, póstmódernista, hins vegar, sem gáfu út sínar fyrstu bækur á 9. áratugnum. Einn þekktasti módernistinn, Svava Jakobsdóttir, dregur upp frekar neikvæða mynd af hugarheimi kvenna sem samkvæmt henni einkennist af heimóttarskap, snobbi, andleysi og leiðindum. Í póstmódernískum skáldskap er enn sem fyrr fjallað um mæður og húsmæður og hversdagsleg samskipti kvenna við börnin sín og aðrar konur en nú er þeim aftur á móti lýst af alúð og hlýju og yfir þeim liggur dulúð – dulmagn konunnar. Í ljóðum póstmódernista er höfuð konunnar léttara en höfuð karslins og engin ástæða til að láta það sliga sig heldur lagt til að farin sé hópgandreið upp á Klambratún að stíga villtan nornadans fram á nótt. Upp úr þessum pælingum spruttu svo fleiri kvenljóðskáld sem lýstu sínum fyrrum hugarfylgsnum af offorsi. Undir ládeyðunni sem Svava fjallaði um hafði allan tíman kraumað tilfinningahiti og ástríður. Konan hafði bælt með sér hatur og ást og síðast en ekki síst kynlífsóra sem hún lét nú alla flakka óheft svo karlpungar, sem ekki gátu ímyndað sér konur sem kynverur, fóru hjá sér, roðnuðu og litu undan í feimni. Kvenkyns dónaskáld skrifuðu bálka sem bókmenntafræðingar kepptust við að kalla karnivalíska líkamslistagrótesku og fjölluðu um buddur og pjásur sem þrá svo að fylla sig að vessarnir flæða út fyrir barmana og niður lærin og mynda gulleita slímpolla á eldhúsgólfinu þar sem þær standa og hræra í hafragrautnum og bíða eftir því að suðan komi upp og svo helteknar eru þær af frygð og sjálfs(umsérnógri)fróun að þær taka ekki einu sinni eftir því þegar karlinn kemur heim úr vinnunni með úrbeinaðar kjúklingabringur undir hendinni og gengur að þeim og teygir sig til að kyssa þær á hálsinn en gætir sín ekki og rennur í sleipum vessunum á eldhúsgólfinu og dettur á hausinn, hálsbrotnar og deyr – Auminginn litli.


Þetta var fyrir mörgum árum en ungar konur eru enn að semja ljóð um vessa, pjásur buddur, blóð, píkusafa, seríos og vanillubúðing og hvað þær þrá að ríða nú alveg djöfullega á sig gat og hvað allt þetta fáránlega líf sé nú mikil píka. En fyrir langa löngu þegar konur hættu að brenna brjóstahaldara og neituðu að hafna móðurhlutverkinu og fóru að raka sig undir höndunum og nota varalit á ný, þá var það gert sem andsvar við yfirliggjandi bylgju femínismans, a la Betty Friedan og Simone de Beauvoir, sem síðar var gefin raðtalan 2. Í dag, aftur á móti, þegar píkur hanga uppglenntar á öllum veggjum svo vart verður komist hjá því að vökna af vessunum sem drjúpa af þeim og annar hver maður er organdi um gredduna í sér á götuhornum og Valgerður Sverris, og hvað hún heitir þarna menntamálaráðherra, segja sögur af píkunni á sér á sviði Þjóðleikhússins og kvenfélag Framsóknar í Kópavogi býður félagskonum sínum með uppsett hár að fara að sjá og þær hlæja sig úr kjálkaliðunum og ganga svo út í sólina í sátt við guð og píkuna á sér, þá hvarflar að manni að spyrja hvert pointið sé með fleiri vessaljóðum þar sem ormar bora gat á maga og koma út um sköp og blóð blandast kókómjólk sem þú hellir yfir bakið á mér og sleikir svo af með tungunni þinni o.s.frv. Popp tíví segir þetta bara svo miklu betur:


Barely move, we've arrived
Lookin' sexy, lookin' fly
Baddest chick, chick inside (uh)
DJ, jam tonight (uh)
Spotted me (uh) a tender thang (uh)
There you are, (uh) come on baby (uh)
Don't you wanna (uh) dance with me (uh)
Can you handle, (uh) handle me

...

I don't think you ready for this jelly
I don't think you ready for this jelly
I don't think you ready for this
'Cos my body too bootylicious for ya babe


Magnús Þór Snæbjörnsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page