16.5.06

3 ljóð eftir Franz Wright

Alkóhól

Þú ert nú dálítið ræfilslegur.

En við getum bjargað því.

Ekki satt.

Satt best að segja líturðu ömurlega út.

Heyrirðu það.

Þú ert ekki einn.

Og þér veitir ekki af einhverri hjálp í dag, þar sem þú pakkar niður í
myrkrinu, stígur upp í rútuna, hallar sætinu aftur og
glottir meðan skelfingin streymir yfir fætur þína, milli
fingranna og gegnum hárið…

Ég beið alltaf, var alltaf til staðar.

Þekkirðu einhvern sem getur sagt það sama.

Ég ráðlegg þér að hugsa um hana eins og hún er:
enn eitt nafnið rist í tungu þína.

Hvernig var þetta aftur hjá þér, „Frekar að skaddast en
að valda skaða, það er ekki lítilmótlegt.“

Hlífðu mér.

Getum við ekki farið að koma okkur af stað.

Manstu, við kunnum vel við okkur í rútu. Saman

gætum við horft á þessa vetrarakra líða hjá, og
kvíðinn hverfur með þeim,

hugsaðu þér bara.

Ég þarf hvergi að vera.




Næturskrif

Það sem heyrist þegar einhver grætur í næstu íbúð.

Í framandi borg, hér er ég þá, eina ferðina
enn

óviðbúinn þessum sérstöku kringustæðum

eða hvaða kringustæðum sem er, semsagt –

frosinn í stólnum

líkami minn eitt stórt eyra.

Stórt eyra skríðandi upp eftir vegg.

Í herberginu þar sem ég muldra án afláts og pata –
og enginnn má heyra í mér –
aleinn þar til ég sofna:

líf mitt sundurtætt jörð farin að grænka á ný.

Það sem heyrist þegar einhver grætur




Þarna
(Thomas Frank)

Látum rigna núna,
göturnar eru auðar.
Kuldalegt hvísl laufblaðanna
yfir húsþakinu;
skrjáf í blaðsíðum,
bók skilin eftir opin við gluggann.
Göturnar eru auðar, það má byrja
núna.

Eins og þú
var ég ekki viðstaddur
útförina. Þennan morgun

gekk ég út
í fyrsta sinn
og ráfa hér
innan um ógrynni
af merkingarlausum nöfnum
sem standa grafkyrr
í grasinu –

(nafnið á steininum þínum
mun standa
lengi
í símaskrám,
ljós, býst ég við,
frá horfinni stjörnu…)

- einungis til að staðsetja reitinn,
komast nær, án þess að vita hvar þú ert
eða að þú vitir að ég er þarna.


Franz Wright

Þýðing: Jón Kalman Stefánsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page