5.5.06

Fjöllistahópurinn Pjallan og leit að merkingu

Fjöllistahópurinn Pjallan átti ljóð í Fréttablaðssamkeppninni. Ljóðið fékk ekki góða dóma hjá Ásgeiri H. Ingólfssyni:

"Ekki byrja ósköpin nú gæfulega. Brenndur af fjölda hópverkefna í gegnum tíðina hafði ég miklar efasemdir um að tvær stúlkur að skrifa lítið sex lína ljóð væri góð hugmynd. Eftir að hafa lesið „Sannleikur allífsins“ í flutningi Fjöllistarhópsins Pjöllu þá er ég sannfærður. Það er bara ekkert í gangi, dæmigert feikljóð þar sem frasarnir eru fléttaðir saman í von um að einhver slysist til að búa til merkingu úr því."

Mér fannst undarlegt að þetta ljóð skuli koma fyrir í keppninni. Ég velti því fyrir mér hver hafi valið það, hvort Pjalla hafi sent inn mörg og einhver úr dómnefnd hafi valið það. Ástæðan er sú að ég hef áður lesið ljóð eftir Pjöllu sem mér finnst koma meira til.
Tilkynning, lýsir eftir djáknum og fyrirskipar “aungva afarkosti”. Gimbill er bæði ljóðalegt og íslenskt. ljósið kemur langt og mjótt er svo dramatískt að það “logar á fífustönglum”. Sum þeirra ná einhverjum krúttlegum talsmáta í anda úfin, strokin eftir Örvar Þóreyjarson Smárason, enda sýnist mér þær klæða sig dáldið svipað og hann.

Allt eru þetta auðvitað ljóð sem erfitt er fyrir gagnrýnendur að láta ljós sitt skína yfir, vegna þess að þau gera lítið fyrir hina röklegu meðvitund, en það er hún sem vel rökstuddir ljóðadómar eru skapaðir úr. Hinsvegar búa slík ljóð til brýr innan í heilanum á okkur, sem sjálfur er alltaf of lítill til að skilja sjálfan sig. Og fyrst við erum komin á þessar slóðir. Í einhverri bók sinni á Max Ernst að hafa fjallað um deilur milli endurreisnamálaranna da Vinci og Boticelli. Samkvæmt Ernst á sá síðarnefndi að hafa talað gegn landslagsverkum og á að hafa sagt: “með því að kasta svampi, bleyttum í mismunandi litum, í vegg gerir maður klessu sem hægt er að sjá sem fagurt landslag”.
Þessu á da Vinci að hafa svarað því til að það væri rétt. Að í slíkri klessu væri vissulega hægt að finna “furðulegar uppfinningar”. Sá sem stari af athygli geti greint “mannahöfuð, dýr ýmiskonar, orrustu, einhverja steina, hafið, ský, skóg og þúsund aðra hluti”. En þó bletturinn sé nytsamlegur til að koma með hugmyndir “kennir hann manni ekki að klára nokkurn hluta málverksins. Og ofangreindur málari [Boticelli] gerir mjög léleg landslagsmálverk”.

(Um þessar tilvitnanir Max Ernst hef ég því miður bara aðgang að fremur
óbeinni heimild eins og stendur)

Svo vikið sé aftur að Pjöllu. Ásgeir lýsir fréttablaðsljóðinu sem feikljóði “þar sem frasarnir eru fléttaðir saman í von um að einhver slysist til að búa til merkingu úr því”. Pjalla
lýsir því á ljod.is hvernig “munnræpan [hafi] ollið út úr okkur eins og pergament”, - og flest þeirra 107 ljóða sem þar birtast bera þess vitni. Munnræpa Pjöllu er því dálítið eins og klessa á vegg eftir litableyttan svamp. Ánægja mín af ofantöldum ljóðum kemur þá e.t.v. til af því ég hef “slysast til að búa til merkingu”, hef séð eitthvað úr klessunni.

Á undanförnum áratugum hefur farið fram umræða í háskólum um að merking sé ekki sköpuð af höfundinum (einum) heldur sé hún einskonar samvinnuverkefni allra þeirra sem skrifa og lesa, ef ekki fleiri (Bartes og allt það). Slysni mín við að sjá góð ljóð úr “munnræpu” Pjöllu er því kannski hluti af merkingarsköpuninni, og ef til vill sama vinna og da Vinci lýsir við að stara á svampklessu, uppfærð frá þeim tíma þegar menn trúðu á snillinga. Þegar Pjalla sendir eitt af ljóðum sínum í fréttablaðið sér hún ekkert af því sem ég sá í klessunni.

Ég held að það sé þetta sem
Eiríkur talar um í aðdraganda þessa rits: “Kannski er fjöldi lélegra ljóðabóka í umferð, sú staðreynd að erfitt er að ramba á áhugaverða ljóðlist fyrir tilviljun, eða án töluverðrar fyrirhafnar jafnvel, ástæðan fyrir litlum áhuga” og leggur til að “búa til áttavitann”. Þegar Eiríkur eða einhver annar agnúast út í íslenska ljóðlist í dag er óhjákvæmilega verið að bera hana saman við eitthvað annað. Við íslenska ljóðlist áður, eða við erlenda ljóðlist. Og það er eitt sem erlend og gömul ljóðlist hefur fram yfir það sem við höfum núna: fjarlægðin. Þá sem nú, og þar sem hér, var mikill fjöldi (lélegra?) ljóða í umferð. Fjarlægðin gerir að til okkar berst bara hluti, valinn hluti sem búið er að prósessera, flokka og búa til merkingu á.

Það er einmitt þetta sem þarf. Það þarf duglegt fólk til að stara á klessurnar á veggjunum og hlusta á munnræpurnar og “slysast til að búa til merkingu úr þeim”, og sjá “mannahöfuð, dýr ýmiskonar, orrustu”. Það er það sem greinir að landslagsmálverk Boticelli og da Vinci. Það er það sem greinir ljóðið í fréttablaðskeppninni frá
Gimbli.

Merkinguna þarf að búa til. Séu menn að leita að henni á annað borð. Ljóðskáldin eru ekki fær um það ein.

Arnar Sigurðsson

2 Comments:

Blogger Ásgeir said...

Spurning hvort það séu góð eða slæm örlög listamanna að vera frægir fyrir eitt af sínum síðri verkum? Vekur auðvitað athygli á þeim en fælir líklega um leið marga frá sem annars hefðu haft áhuga.

Forvitnileg pæling með hlutverk gagnrýnandans og hins röklega. Mér dettur í hug að staðlaðar lágmarks- og hámarkslengdir á ritdómum sé þar um að kenna, stundum hefur maður vissulega fátt annað merkilegt að segja um listaverk annað en að það sé gott eða slæmt. En vel rökstuddur ljóðadómur er ekki endilega góður – hann er ekki góður ef hann er skapaður úr hinni röklegu meðvitund, enda lítill sköpunarkraftur í þeirri meðvitund. Þá meðvitund á heldur ekki að nota til að skapa úr heldur sem tæki til að bregðast við þeim viðbrögðum, sem oft virðast órökrétt, sem ljóð vekja hjá manni. Maður getur þurft að berjast við að útskýra af hverju eitthvað sé gott eða vont þó hin röklega meðvitund bendi manni í allt aðra átt (þó vissulega sé hún stundum sammála sem gerir manni mun auðveldara fyrir að skrifa dóm). Þessi núningur getur svo á endanum gert það að verkum að hin kalda rökhyggja hættir að vera köld og verður öllu manneskjulegri á meðan tilfinningaviðbrögðin verða ekki alveg jafn blind. Stundum þarf maður auðvitað að játa sig sigraðan og viðurkenna að maður geti ómögulega útskýrt af hverju manni finni viðkomandi verk svona gott (já eða vont). En þá er líklega ritdómur óþarfur.

9:13 e.h.  
Blogger haukur said...

Orðið "voffgjarn" í djákna-ljóðinu er ljóð eitt og sér. Það þarf ekki meira, það væri hægt að koma saman nefnd sem myndi starfa í marga mánuði til að yrkja ljóð og hún myndi ekki endilega yrkja betur en þetta: "voffgjarn"!

1:33 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page