20.5.06

Fyrsta ljóðabókabúð Íslands

Í dag gerast þau stórtíðindi á Íslandi að fyrsta bókabúðin sem sérhæfir sig í sölu ljóðabóka opnar í Kjörgarði. Það er Nýhil sem stendur fyrir þessum gjörningi og mun reka búðina um ókomna tíð. Vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á áður óþekkt úrval af íslenskum og erlendum forlagsbókum, og ekki síður sjálfsútgáfubókum. Húsnæði verslunarinnar er að Laugavegi 59, í kjallara Kjörgarðs, inn af plötuverslun Smekkleysu. Opnunin stendur frá 16 til 18 og í boði verða "léttar veitingar, ljúf skemmtiatriði og leiðinleg ræðuhöld", eins og segir í tilkynningu. Búðin verður framvegis opin virka daga frá 14 til 18. Eins og lesendur Tregawattanna vita er nýkomið seinna hollið í ljóðabókaseríu Nýhils, Norrænar bókmenntir. Áskrifendur að Norrænum bókmenntum geta sótt eintök sín í búðina, og þeir sem það gera á laugardaginn fá safnljóðabók Nýhils Ást Æða Varps í kaupbæti. Aðrir áskrifendur fá svo seríuna senda heim. Þeir sem vilja kaupa sér áskrift að seríunni geta gert það í ljóðabókabúð Nýhils, eða með því að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org. Bækurnar fimm sem nú koma út eru Roði eftir Ófeig Sigurðsson, Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur, Eðalog eftir Val B. Antonsson, ónefnd bók eftir Þórdísi Björnsdóttur og Litli kall strikes again eftir Steinar Braga. Fyrri bækurnar fjórar í seríunni voru Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason, Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl og Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason. Allar þessar níu bækur fást fyrir litlar 6.750 krónur.

Frekari upplýsingar er að fá hjá Þór Steinarssyni, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni, verslunarstjóra Nýhils (869-3099).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page