4.5.06

Glatað sakleysi: Ljóðasmygl og skáldarán e. Andra Snæ Magnason


Ég gekk meðfram sjónum
með sólinni minni

Sól heimsins gekk
andspænis okkur

Ég kyssti sólina mína
hún roðnaði
og settist í sandinn

Sól heimsins kyssti okkur
hún roðnaði
og settist í sjóinn


(Sólin og ég; bls. 30)

Þetta ljóð Andra Snæs Magnasonar úr ljóðabókinni Ljóðasmygl og skáldarán frá árinu 1995 er lýsandi fyrir bókina alla. Hún er falleg og fín, sakleysisleg og leikandi. Skáld kyssa sólir og sólir kyssa skáld og sólir og allir roðna gegndrepa af hamingju. Andri hóf máls á þessu þegar hann gaf mér bókina eftir kröfugönguna 1. maí síðastliðinn. „Ég man ekki til þess að hafa hugsað um alvarleg málefni“, sagði Andri. „Ég var í íslenskunni í háskólanum, og umgekkst kommúnista en það eina sem við töluðum um var Pamela Anderson og póstmódernismi“. Þá þrífur hann til sín bókina aftur og bendir á káputextann og les: „„Á miðhálendi Íslands hafa illvíg leynisamtök stundað neðanjarðartilraunir“ – miðhálendi Íslands var einfaldlega fáránlegasti staður sem mér datt í hug. Það hafði ekki aðra merkingu.“ Svo bendir hann á orðið „hækuverkamenn“ og segir: „Hryðjuverkamaður hafði allt aðra merkingu árið 1995 en það hefur í dag.“

Það er undarlegt til þessa alls að hugsa að nýútkomnu Draumalandi, eftir Lovestar og Bláa hnöttinn. Reyndar verður að segjast að meira að segja í bókum eins og Draumalandinu er ákveðið leikandi sakleysi í hugsun Andra, krúttkynslóðasjarminn sem stundum hefur staðið „róttækum“ skoðunum hans fyrir þrifum og stundum hefur veitt réttlætiskenndinni verðskuldaða undirstrikun.

En í Ljóðasmygli og skáldaráni er hin barnslega fegurð alls ráðandi, og það er eitthvað heillandi við það þó ljóðin í bókinni séu misgóð eins og gengur og gerist. Það er mikið um bláeyga bjartsýni, einfaldar ljóðmyndir úr náttúrunni og sólskinsbrosandi aulahúmor. Það er einhvers konar lygi að kalla bókina léttvæga, en það væri líka einhvers konar lygi að gera það ekki. Ljóðin eru ekki endilega léttvæg þó það sé byrjendabragur á þeim, en yrkisefnin eru léttvæg. Það er eins og veröldin sé ekki til. Eða réttara sagt, það er eins og mannkynssögunni hafi lokið, og hafði Andri það einmitt á orði. Óhamingjan er ekki lengur til, fátækt, stríð, meira að segja geðsýkin er einhvern veginn bara krúttleg:

Lífið er einfalt og hvítt
ég bý í stóru hvítu húsi
í litlu hvítu herbergi
með mjúkum hvítum veggjum
ég ligg í hvítu rúmi
í hvítri treyju með löngum ermum
bundnum fyrir aftan bak
margir hvítir karlar tala við mig
í stórum hvítum sloppum
og gefa mér hvítar töflur
sem passa að blómin taki ekki
af mér eyrun


(Lífið; bls. 15)

En „Í víghreiðrunum/ klekjast út loftárásir/ komandi sumra“ (Myndir af Melrakkasléttu; bls. 37) – sama ár og Ljóðasmygl og skáldarán kemur út var nefnilega gefin út önnur bók sem spilar ekki minna hlutverk í höfundarverki Andra Snæs, nefnilega bæklingurinn Lowest energy prices!! sem honum verður tíðrætt um í Draumalandinu.

Bókin geldur auðvitað fyrir léttvæg umfjöllunarefnin, þó á köflum sé vel ort og langar mig sérstaklega að nefna hækuflokkinn aftast í bókinni, Myndir af Melrakkasléttu sem vitnað var í hér að ofan. Þetta er augljóslega sama skáldið og orti Bónusljóð og Bónusljóð 33% meira, en það er samt einhver eðlismunur frá fyrstu bók að annarri; bæði er hugmyndavinnan ekki nærri jafn ríkjandi þáttur í verkinu og í seinni bókum og svo er, eins og minnst hefur verið á, þessi algerlega og fyllilega harmlausa veröld sem bókin lýsir. Maður fær það næstum á tilfinninguna að Andri sé að ljúga að manni, að þetta sé jafnvel meðvitað stílbragð til að undirstrika hrottaskapinn í heiminum; hin þrúgandi fjarlæga nálægð. Ég man nefnilega ekki betur en fólk hafi drepist í hrönnum úr öllum andskotanum árið 1995 sem og önnur ár. Ef ég man rétt var fyrsta alvöru vopnahléið á Norður-Írlandi rétt ársgamalt, það leið víst ekki mánuður milli Íraksstríða án loftárása, um alla Suður Ameríku börðust skæruliðar fyrir lýðræði og velferð – og þar fram eftir götunum endalaust.

Í blálokin er rétt að skammast út í þá undarlegu tilhneigingu íslenskra rithöfunda til að yfirgefa ljóðið eins og það sé hluti af því að „fullorðnast“ að láta af ljóðlist. Andri gaf út tvær ljóðabækur, og sneri sér svo að öðrum hnöppum. Það er afskaplega miður og er væntanlega einhvers konar sjúkdómseinkenni – annað hvort á ljóðinu eða skáldunum. Með þessu fyllir Andri flokk með mönnum eins og Einari Má, Jóni Kalman, Braga Ólafssyni og Sjón, sem hafa lítið sem ekkert ort eftir að þeim var skipað í flokk „alvöru“ höfunda.


-Eiríkur Örn Norðdahl

Tenglar:
Dómur EÖN um Bónusljóð 33% meira á Nýhil
Heimasíða Andra Snæs
Úlfhildur Dagsdóttir um Andra á bokmenntir.is

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page