1.5.06

Heima


Bókin Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást vann á dögunum Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þau verðlaun voru nú helguð ljóðabókum og er vonandi að Reykjavíkurborg haldi þeim ágæta sið áfram, enda ljóst að þótt verðlaunaféð komi flestum höfundum ágætlega þá eru þau væntanlega ljóðskáldum ennþá lífsnauðsynlegri en flestum öðrum. En verðlaunasamkeppnir í listum eru afskaplega skemmtilegt og vanmetið fyrirbæri þótt ekki sé maður alltaf sammála þeim, misjafnar skoðanir nokkurra verðandi ritstjórnarmeðlima á ljóðakeppni síðasta vor var til dæmis ein helsta kveikjan að stofnun þessa vefrits. Um ljóðið sem á endanum vann sagði einn meðlimur ritstjórnar meðal annars þetta:

„Innra sálarlíf. Ljóð eru ekki þerapía. Þann misskilning þarf að leiðrétta.“

(Eiríkur Örn Norðdahl á bloggsíðu sinni, færsluna alla má sjá hér.)

Um þetta er ég algerlega ósammála Eiríki, vill raunar ganga svo langt að fullyrða að öll ljóð (og jafnvel öll list) sem einhverju máli skipti séu þerapía á einhvern hátt. Blandarabrandarar eru til dæmis þerapía fyrir nútímafólk sem er statt í heilu úthafi texta úr öllum áttum, orðum sem birtast á tölvunni þinni, kalla á þig úr blaðabunkanum í forstofunni og jafnvel nokkur sem hafa aukið lífslíkur sínar verulega með því að komast upp í hillu.

Ef þerapía er hins vegar þess eðlis að hún gagnist aðeins höfundi sjálfum þá á hún vissulega lítið erindi á prent. Svo eru auðvitað ljóð sem eru alltof augljós þerapía og eru gefin út í litlum sætum bókum um ekki neitt sem er þægilegt að gefa í afmælisgjafir þegar manni dettur ekki neitt í hug. En helsta ástæðan fyrir þessum alltof langa inngangi er auðvitað sú að það er afskaplega auðvelt að afgreiða Guðlausa menn sem þerapíu Ingunnar Snædal. Þótt vafalaust sé hér tekinn hellingur af skáldaleyfum þá er bókin engu að síður fyrst og fremst fjölskyldusaga höfundar, saga um að koma út úr skápnum og um hvað í fjandanum þetta „heima“ merki nú eiginlega. Þegar ég ætla að setja ljóðmælandi inn fyrir höfund / Ingunn þá veit ég að þetta er bara bókmenntafræðingurinn inní mér og ég segi honum að þegja. Það gerir hann vitanlega ekki og hefur eftirfarandi um málið að segja:

Það vantar skáldskap um nýja Ísland. Ekki enn eina Reykjavíkursöguna, það er nóg af þeim, nei, þetta Ísland okkar allra sem eigum hvorki heima í borg né í sveit, okkar sem búum í Reykjavík eða útlöndum en skilgreinum heima einhvers staðar út á landi, þar sem á að heita náttúra, sveitarómantík og slor – en um leið og Reykjavíkurskáldin sáu í gegnum þessa blekkingu fóru þau að yrkja billeg ljóð um hamborgarasjoppur og rúntinn. Eðlilega endaði þessi skitsófrenía í því að allir fóru að rífast um álver.

Út úr þessari veröld heldur Ingunn í ferðalag austur á land, fyrsta ljóðið (utan inngangsprósaljóðs) heitir „dauði, ferðalag og játning – I“ og hefst á 67 kílómetra hraða í gegnum Mosfellsbæ. Hún er að fara í jarðarför ömmu sinnar en um leið að leita að þessu einkennilega heima sem er statt þarna einhvers staðar á rúntinum milli sveitarómantíkunarinnar og næstu bensínstöðvar. Með í för eru systir og bróðir, þetta er fyrst og fremst ljóðabók um fjölskyldu. Amman sem þau eru að fara að jarða fær sitt ljóð seinna, hún er ekki fyrir sunnan, þar vantar ekkert – og ef eitthvað vantar er auðvelt að fá eitthvað í staðinn, í borginni stöðvast ekkert.

Í sveitinni tekur pabbi á móti manni, hrjúfur sveitamaður.

hversdagsleg kveðja hans
leysir upp kökkinn í hálsinum


Sambandið við föðurinn virðist stirt, en ef ljóð eins og ímynduðu samræðurnar sem fá númerið XV eru ljóð sem þerapía þá er það holl þerapía. Það sem hún vildi hafa sagt þeim gamla er líklega það að hún sé orðin ástfangin af konu. Samkynhneigðin sem slík er aðallega í forgrunni í ljóði XX þar sem hún missir mannréttindin 32 ára gömul en þess utan er hún bara eins og hver önnur ást, nógu fjandi flókin, öfugsnúin og sársaukafull hvers kyns sem hún er. Fyrst og fremst er ástin þó sjálfhverf, eins og höfundur áttar sig best á þegar hún segir mömmu sinni, sem er á leiðinni í skoðun út af krabbameini, allt um þessa nýju ást. Heimsmálin koma vissulega líka við sögu, en þá eins og þau framkallast í bílaútvarpi eða viðtæki í sveitinni þar sem maður hefur nægan tíma til að hugsa um fréttirnar, skilja og setja í samhengi. En á þessu ættarmót þá er það þó bróðirinn sem er í aðalhlutverki auk höfundar. Áður en ég minnist á ljóðið sem nefnt er eftir honum langar mig þó að bakka.

Allra fyrsta ljóð bókarinnar er prósaljóð, hálfgerður inngangur. Þar blotnar höfundur í lappirnar við að vaða yfir á sem hún hefði getað farið yfir þurrum fótum annars staðar. Hún útskýrir fljótfærnina með þessum orðum: „Og þegar maður er í öngum sínum og veður beint að augum er hallærislegt að taka á sig krók. Svolítið eins og maður sé ekki í nógu miklum öngum.“ Þetta snýst í mörgu um hversu erfitt það er að vera spontant á þessum síðustu og meðvituðustu tímum, eitthvað sem rímar ágætlega við viðtal í Víðsjá þar sem hún talar um ljóðið sem hún samdi á kortéri. Fyrir þá sem fullyrða að það þurfi langan tíma til að semja ljóð, jafnvel áralangan yfirlestur, þá er rétt að geta þess að þetta ljóð, „bróðir minn,“ er líklega besta ljóð bókarinnar. (Það má raunar heyra í fáeina daga í viðbót í upplestri höfundar hérna).

En auðvitað eru skriftirnar bara framköllunin, fram að þeim þarf að passa að hafa linsuopið opið nógu lengi til að taka myndina. Umræddur bróðir kýs Sjálfstæðisflokkinn og bíður þess að jökulsáin hans gufi upp og breytist í gull. Ólíkt því sem undirtitillinn kann að gefa til kynna þá fjallar bókin þó ósköp lítið um virkjanir og pólitík. Jökulvatnið er í eintölu, þetta er einfaldlega heima og þrætur um gildi jökulvatnsins stranda þar, þetta er heima þeirra beggja og hún á jafnmikinn hlut í gullinu og hann í vatninu.

Guðlausu mennirnir titilsins eru sveitungarnir en þó er aðeins vikið að þessu á einum stað, trúmál eru alls ekki í brennidepli hins vegar er forvitnilegt að setja þau í samhengi við þetta heima sem umlykur bókina alla, er guðleysið skortur á heimili eða jafnvel lausn þess sem á hvergi heima? Eru hinir guðlausu menn sveitlausir menn? Náttúrulausir menn? Þeir sem eru tilbúnir til að selja sveitina eða þeir sem vilja bara ekki búa þar?

Hvaða svör þú færð ræðst væntanlega af því hversu marga króka þú ert tilbúin til þess að taka og hversu miklum öngum þú kannt að vera í.

Ásgeir H Ingólfsson

Ingunn Snædal:
Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást
Bjartur, Reykjavík 2006.

Nánar má lesa um höfundinn á Bjartsvefnum með því að smella hér og með því að smella hér má sjá nokkrar myndir sem systir Ingunnar tók á verðlaunaafhendingunni.

Bókina sjálfa má svo kaupa hérna eða í næstu bókabúð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page