5.5.06

Í landi norðurljósanna e. Einar Má Guðmundsson

Hér segir af tímum tvennum, tilurð eins ljóðs og komu Jesús Krists til Færeyja

Þú sem átt heima
með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:

Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.

Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.


Málið snýst um tvær ferðir með sextán ára millibili. Nú er ég að fara í þá þriðju. Ártöl sem koma við sögu: 1977, 1993, 2006. Heildartími: 29 ár.
„Ég kom til Comala ...“ Þannig hefst Pedro Paramo eftir Juan Rulfo. Ég gæti skrifað sögu sem byrjaði svona: „Ég kom til Klakksvíkur ...“ nema Comala er skáldað þorp en ekki Klakksvík.
En ég byrja að skálda um leið og hugsa um Klakksvík og tíma minn þar, svo það kemur út á eitt.
Þess vegna leyfi ég mér smá upprifjun og byrja á norðurljósunum, en fátt er fegurra en stjörnubjartur himinn og svífandi norðurljós þegar úti er kalt en lygnt.
Þá ávarpar einveran heiminn og hjartað fyllist ljóðrænum töfrum. Þetta er norrænt jóga, æðrulaust samband við alheiminn, og þyrfti að kynna fyrir Austurlandabúum, sem eiga höfundarréttinn á æðruleysinu.
Þótt norðurljósin skreyti oft himininn yfir Íslandi finnst mér Færeyingar eiga þau. Ég er kannski bara svona rausnarlegur og þetta svipuð rökleysa og þegar menn kýta um hver eigi jólasveininn.
Ég hef heldur aldrei heyrt að nokkur Færeyingur hafi reynt að selja norðurljósin einsog skáldið Einar Benediktsson, sem bauð þau til kaups í London fyrir hundrað árum og ekki óviðeigandi að rifja upp nú þegar íslenskir kaupsýslumenn fara um heiminn einsog víkingar með greiðslukort.
En nú er ég farinn að syngja allt aðra sálma en í upphafi stóð til. Kannski er ég svo vanur frelsi skáldsögunnar að ég veð úr einu í annað, en ég geri ráð fyrir að ég tengi norðurljósin við Færeyjar út af skáldinu William Heinesen.
Þegar ég les lýsingar William Heinesens á bænum Þórshöfn fæ ég á tilfinninguna að götur bæjarins séu lýstar upp með norðurljósum, að þau streymi frá ljósastaurunum. Það er einhver undarlegur alheimur sem William Heinesen hefur skapað úr Þórshöfn, svo ljóðrænn og tær, fullur af dulrænni einveru sem um leið fær á sig blæ samkenndar með öllu.
Ég hef sjálfur orðið vitni að þessu eina febrúarnótt þegar unglingarnir í Þórshöfn skenktu mér og Thor Vilhjálmssyni vodka í plastglös og fögnuðu okkur einsog þjóðhöfðingjum einmitt á meðan norðurljósin svifu yfir bænum og stjörnurnar fylgdust með okkur einsog augu ú öðrum heimi.
Þetta var 1993. Í blöðunum stóð að við værum tveir þekktir rithöfundar sem myndu lesa upp í Norðurlandahúsinu, en orðið þekktur á færeysku er kenndur, sem á íslensku þýðir ölvaður, svipað og orðið rolig þýðir eitt á dönsku og annað á sænsku. Fyrirsögnin í blaðinu var: Tveir kenndir rithöfundar lesa upp í Norðurlandahúsinu. Hentu landar okkar gaman að.
Ljóðið hér að ofan orti ég eina af þessum febrúarnóttum árið 1993. Þeirri nótt eyddi ég á Sjómannaheimilinu í Klakksvík. Við vorum á ferðalagi að kynna eyjaskeggjum íslenska menningu, tónlist, myndlist og bókmenntir.
Ég varð einn eftir í Klakksvík og bað um að fá gamla herbergið mitt á Sjómannaheimilinu. Ég hafði búið þar allt sumarið 1977 og unnið í frystihúsi í bænum og eftir á að hyggja skiptir Klakksvík mig og minn skáldskap ótrúlega miklu máli. Ég sá heimaslóðir mínar í nýju ljósi og hin ljóðræna einvera – tao norðursins - rann upp fyrir mér. Sögupersónur einsog Anton rakari byrjuðu að mótast í höfði mínu, þó ekki birtust þær á prenti fyrr en mörgum árum síðar.
Sumarið 1977 fórum við þangað nafnarnir, ég og Einar Kárason, óskrifuð blöð en með hausana fulla af hugmyndum. Þá var nóg að gera, hvert herbergi umsetið, vertíðarfólk, Færeyingar, Íslendingar, Grænlendingar, Danir, Svíar, Norðmenn, Ítalir, Frakkar og Skotar.
Þetta alþjóðlega andrúmsloft notaði ég að hluta í sögu sem heitir Leitin að dýragarðinum, og er titilsagan í samnefndu smásagnasafni.
Sú saga segir frá Dominique, ungum fransmanni sem lítur út einsog Jesús Kristur. Hann ákveður að ferðast til Íslands, og fer á puttanum frá heimili sínu í Bordeaux til Aberdeen í Skotlandi þar sem hann vonast til að geta siglt með togara til Íslands, en hefur ekki hugmynd um að það er stríð milli landanna, þorskastríð, og er því laminn þegar hann nefnir Ísland á nafn.
En færeyskir sjómenn taka hann upp á sína arma og hann kemur til Þórshafnar. Og þá verður spurningin, hvað gerist þegar Jesús Kristur kemur inn í samfélag sem trúir svo heitt á tilvist hans. Jesús veit ekki að hann er Jesús, en Dominique gat framkvæmt kraftaverk, og því var hann Jesús í augum sértrúarsafnaðanna á staðnum, auk þess leit hann út einsog Jesús, einsog við sjáum hann fyrir okkur.
Dominique býr á farfuglaheimilinu í Þórshöfn og þegar hann kemur í kjörbúðina vill afgreiðslustúlkan ekki þiggja greiðslu. Aðrir fransmenn sem þar búa eru staurblankir eftir ferðalag um Ísland á hátindi verðbólgunnar. Þeir rjúka í kjörbúðina og vilja fá sömu meðferð og Dominique. Þegar því er ekki til að dreifa og þeir biðja um skýringu segir afgreiðslustúlkan: “Jesús Kristur þarf ekki að borga í Færeyjum.”
Þetta er auðvitað aðeins grundvöllur sögunnar Leitin að dýragarðinum, en ekki sagan sjálf. Þessi grundvöllur speglar hins vegar þá ólgandi kviku sem mætti okkur í Færeyjum sumarið 1977.
Tæpum sextán árum síðar, í febrúar 1993, er ég enn á ný gestur á staðnum, en nú ríkir grafarþögn á Sjómannaheimilinu. Ljós logar í einum glugga. Þar fyrir innan situr ellilífeyrisþegi og bíður eftir hjartaaðgerð. Til að fá gamla herbergið mitt, sem er yst í ganginum til hægri, þarf ég að ryðja burt sautján reiðhjólum sem brottfluttar fjölskyldur hafa skilið eftir. Þegar inn er komið er vatnið í kranunum lengi ryðbrúnt, á litinn eins og Johnny Walker Red Label.
1977 ólgaði athafnasemin í loftinu en nú var kreppa. Aðgerðaleysið hékk einsog ský yfir bænum. Kvöldinu varði ég í heimsóknir en ljóðið kom yfir mig um nóttina.

Þú sem átt heima
með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:

Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.

Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Nú segir frá Grænlendingi sem stekkur út um glugga, fjalli sem gat flautað og heimsókn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins


Ég kom til Klakksvíkur sextán árum seinna, í febrúar 1993, og var hissa á því hvernig húsin höfðu hópast einsog álfar út úr hæðunum. Heil fjallshlíð skartaði glænýjum húsum. Það var einsog gulli hefði rignt yfir bæinn.
Trúboðinn, sem rak Sjómannaheimilið, var farinn eldast og sonur hans tekinn við. Hann var samt þarna ennþá, en hann mundi ekki eftir mér þegar ég sagði honum að ég hefði búið þarna fyrir sextán árum. Hann sagði að það merkti aðeins eitt, að ég hefði hagað mér vel.
Ég velti þessu örlítið fyrir mér. Það gat vel verið að hann hefði rétt fyrir sér. Á meðan allt var í fluggír á Sjómannaheimilinu og nóg að gera var samkeppnin ekki hörð þegar að prúðmennsku kom. Hver meðal pönkari var einsog sunnudagaskólastrákur innan um alla jaxlana sem stundum skutu upp kollinum og gerðu flestir stuttan stans.
Það voru ekki langt að komnir Frakkar eða Ítalir, sem áttu erfitt uppdráttar. Því síður Íslendingar eða Danir. Skotum var tekið opnum örmum. Nei, hér sem víðar voru það Grænlendingar sem lentu botninum og hlutu sína útlegðardóma.
Þó voru þetta prúðmenni upp til hópa, en sumir alveg mállausir, og þar með sambandslausir. Þeir voru á risatogurum og voru samfleytt í sex mánuði úti á sjó. Þetta voru kallaðir saltfisktogarar. Um borð var aflinn verkaður og saltaður. Við landkrabbarnir unnum við að skipa upp úr þessum togurum.
Á milli þessara túra höfðu áhafnirnar tvær til þrjár vikur í landi. Einn Grænlendingurinn fékk herbergi á Sjómannaheimilinu. Eftir túrinn hafði hann mikið fé milli handanna og fór í raftækjaverslun Anfinns við aðalgötuna og keypti sér hljómtæki.
Þetta var sumarið sem Elvis Presley dó, svo grænlenski sjómaðurinn keypti sér nokkrar Presley plötur. Hófust nú miklir tónleikar. Við sátum fyrir utan í kvöldkyrrðinni og hlustuðum á sjálfan konunginn, en fregnin af dauða hans hafði bergmálað í skipalestunum nokkrum dögum fyrr.
Á meðan Love me tender sveif um kvöldkyrrðina heyrðust allt í einu þung högg. Trúboðinn sem rak Sjómannaheimilið barði á dyrnar hjá Grænlendingnum. Höggunum fylgdi slíkur munnsöfnuður að Grænlendingurinn hélt að trúboðinn ætlaði að drepa sig.
En trúboðinn, sem stjórnaði Sjómannaheimilinu, var að vísu aðeins að segja grænlenska sjómanninum að lækka í tækjunum, en lætin sem því fylgdu voru slík og Grænlendingurinn svo hræddur að fyrst fleygði hann græjunum út um gluggann og kom síðan sjálfur.
Því næst hljóp hann upp fjallshlíðina, en þá var ekki búið að byggja öll nýju og fínu húsin, sem fólk var nú óðum að yfirgefa vegna skorts á atvinnutækifærum og gjaldþrota.

Já nú voru bátarnir bundnir við bryggju og helmingur íbúanna án atvinnu. Helsta vonin var sú að brátt fyndist olía, en margir voru á því að Bretar myndu slá eign sinni á hana út af einhverjum óljósum mörkum á hafsbotni sem ég ætla ekki að tjá mig um.
Það er bátasmiður í Klakksvík sem segir mér frá þessu, og ég segi við hann: “Þið farið bara í stríð við Breta.”
“Nei, við erum ekki Íslendingar,” segir hann og brosir feimnislega.
En auðvitað eru Færeyingar og Íslendingar nauðalíkir. Thor Vilhjálmsson er spurður að þessu, og hann segir að svo sé, munurinn sé kannski helst sá hvað Færeyingar séu hræddir við djöfulinn, sem sé skrýtið, því að Íslendingar hafi aðallega haft hann í sendiferðum og vísar þar í söguna af Sæmundi fróða sem lét djöfulinn flytja sig yfir hafið í selslíki en barði hann svo með Biblíunni í höfðuð þegar hann vildi fá sál hans.
En hvernig sem djöflinum líður – hann virðist hafa það frekar gott um þessar mundir - og hvar sem olíu er að finna, þá var kreppa í Færeyjum þessa febrúardaga 1993. Talað var um þjóðargjaldþrot. Öll hjól höfðu snúist með rosa hraða, en nú var allt stopp. Eitt fjall var kallað blokkflautan af því að búið var að bora svo mörg jarðgöng í gegnum það. Í vissum vindáttum heyrðist í því einsog flautu, stundum þverflautu en oftast blokkflautu.
Í litlum bæ, skammt fyrir utan Þórshöfn, blasti við hálfkláruð höfn, gjörsamlega óþörf, en stjórnmálamaðurinn í byggðarlaginu var búinn lofa íbúunum henni og auðvitað stóð hann við orð sín.
Bankarnir hirtu líka hvert húsið af öðru, en húsin kostuðu ekki neitt, svo bankarnir fengu bara skuldir. Margir komu bara með útidyralyklana og skildu þá eftir hjá gjaldkeranum, hoppuðu síðan upp í næstu flugvél og sögðu: “Burt, burt,” einsog Baudelaire forðum.
En það er dansað í kreppunni, hringdans, söngur og gleði. Menn eru ekkert alltaf að væla, þó það líti þannig út í blöðunum.
Við göngum dimma götu í litlum bæ. Íslendingahópur. Tónlist berst um loftið. Húsið iðar af kátínu og dansi. Hér hlýtur að vera hátíð, einsog segir í Heimsljósi eftir Halldór Laxness. Dansinn dunar. Fyrst hringdans, svo rokkdans. Úr lúgu selur þéttvaxinn maður vodka í ísboxum.
“Íslendingar,” segir hann.
“Já,” svörum við.
“Þá þurfið þið ekkert bland,” segir hann og réttir okkur box.
Úti er kreppa en fólkið heldur áfram að vera til. Það skvettir úr klaufunum. Það segir sögur og hlær. Þetta er ekki hnípin þjóð. Þetta er ekki gjaldþrota hagsúla, ekki örvasa línurit. Líklega eru hagfræðingarnir heima hjá sér.

Eitt fallegasta ljóð Róa Paturssonar er ljóðið um regnið. Ljóðið um litlu stúlkuna sem segir að það rigni um allan heim.
Við Rói höfum hist nokkrum sinnum og lesið upp saman. Í ljóðabókinni “Líkasum” eða “Einsog” eru mörg frábær ljóð. Einsog þetta ljóð um regnið, regnið sem fellur um allan heim.
Ljóðabókin “Líkasum” kom út árið 1985 og fyrir hana hlaut Rói Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið eftir. Síðan hefur hann ekki gefið út neina bók og jafnvel sagst vera hættur að yrkja.
Rói var mikið til sjós á yngri árum og vann eitt sumar á Bessastöðum, var húskarl hjá Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands. Hann orti mikið en auk þess hefur hann prófgráðu í heimspeki. Frá því um 1985 hefur hann verið skólastjóri við Lýðháskólann í Þórshöfn.
Ég er kominn aftur til Þórshafnar frá Klakksvík. Ég hringi í Róa frá kaffihúsi í miðbænum. Við mælum okkur mót á heimili hans við Lýðháskólann. Skólinn er í stóru húsi og þar er heimavist.
Rói sýnir mér skólann. Þarna er unnið með handverk og tækni, myndbönd og margmiðlun, allt afar nútímalegt, og frjálsræðisblær lýðháskólans svífur yfir vötnum.
Í samkomusal nemenda eru stólar og borð, en á þykkri súlu í miðjum salnum hangir þjóðsöngur Færeyja, handskrifaður af nemendum. Yfir hægra hornið er búið að hengja mynd. Á myndinni eru þrír menn sem greinilega eru staddir á flugvellinum.
“Hverjir eru þetta?” spyr ég Róa.
“Þetta eru fulltrúar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins,” segir Rói.
Ég virði þá betur fyrir mér. Þetta eru ábúðarmiklir menn.
“Sá í miðið er Íslendingur,” segir Rói.
Hann er með sólgleraugu og hatt. Hinir tveir eru Japanir, talsvert lágvaxnari.
Ég lít í átt að glugganum.
Það rignir fyrir utan gluggann.
Það rignir í Þórshöfn.
Það rignir um allan heim.


Hér segir meðal annars frá hröktum manni á pramma, þýðanda Íslandsklukkunnar og styrjöld sem háð var með skóflum og járnkörlum


Nú man ég ekki lengur hvernig Rói Patursson skáld og Joannes Patursson eru skyldir, hvort Joannes er afi hans eða langafi, en allir sem bera Patursson nafnið eru víst skyldir.
Einn þeirra er Trondur, einn þekktasti listamaður Færeyinga, og við munum eftir Erlendi, sem var lögmaður Færeyinga, og talaði þessa fínu íslensku.
En Joannes Patursson, sem hér er nefndur, var þingmaður og einn af upphafsmönnum þjóðlegrar vakningar í Færeyjum. Ég hugsa að hann sé þeirra Jón Sigurðsson eða eitthvað þar um bil.
Joannes var frá Kirkjubæ. Eitt sinn bjargaði hann skipbrotsmanni sem rekið hafði í óratíma um hafið á litlum pramma. Skipbrotsmaðurinn lá kylliflatur á prammanum og hélt dauðahaldi í einn endann, aðframkominn og aumur.
Joannes tekur kaldan manninn og hlýjar honum með líkamshita sínum, svipað og segir frá í mörgum íslenskum hrakningasögum. Ég held að skipbrotsmaðurinn hafi verið hollenskur frekar en þýskur, en tuttugu árum eftir lífgjöfina kemur hann alheill í heimsókn og hittir lífgjafa sinn.
Þá sér hann prammann, sem hann hafði hrakist á, en nú var pramminn orðinn að myndarlegri borðplötu á bændasetrinu í Kirkjubæ og þannig er hann enn meira en öld síðar er við strjúkum yfir hana með fingrunum.
Í Kirkjubæ hittum við prófessor Jóhan Hendrik, sem er talsmaður þeirra sjónarmiða að Færeyingar lagi nýyrði og tökuorð að sínu eigin máli, svipað og við Íslendingar gerum.
“Þú talar ansi góða íslensku,” segi ég við prófessor Jóhan Hendrik, sem hann svo sannarlega gerir.
“Latínu norðursins,” segir hann, “þó það nú væri.”
Það má segja að við Íslendingar séum alls staðar í góðum málum, en alveg sérdeilis í Færeyjum. „Upphefðin kemur að utan,“ sagði skáldið. Ekki verra ef hún kemur líka að innan, segi ég.

Ég var aftur kominn til Þórshafnar, heimsóknin til Klakksvíkur að baki. Nokkur ljóð í farteskinu og skáldsöguhandrit í molum, Englar alheimsins, átta mánaða meðganga fyrir höndum. Allt þetta er ég með í gömlu slitnu töskunni sem ég keypti á Grikklandi haustið 1978 og hefur æ síðan fylgt mér; og gerir enn.
En nóg um það; aðalatriðið er að ég er kominn aftur til Þórshafnar. Ég heimsæki Sigurd Joensen, þann kraftmikla karl sem ég hafði hitt tveimur árum fyrr á skáldaþingi í Svíþjóð, í Biskops Arnö þar sem biskupar Norðurlanda sátu um hríð.
Þaðan fengum við Íslendingar nokkrar sendingar, til að mynda biskupinn Jón Gerreksson, en saurlifnaður hans og illska leiddi til þess að bændur stungu honum í poka, bundu fyrir og drekktu honum einsog ketti. Segir sagan að Jón hafi flúið inn í kirkju, þar sem ekki mátti handsama hann, en þá röðuðu bændur sér meðfram kirkjunni og lyftu henni ofan af honum.
En sem sé, þarna hitti ég Sigurd Joensen fyrst. Nú er hann dáinn. Hann varð háaldraður. Sigurd Joensen var rithöfundur og skrifaði aðallega barnabækur og smásögur, en starfaði lengst af sem lögmaður.
Rödd hans var svo kraftmikill og sterk að sem ungur maður var hann látinn hrópa yfir brimgarðinn til að leiðbeina skipum í land. Það gefur augaleið að maður með slíka rödd gat orðið góður lögmaður. Hann lærði lögfræði í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann Íslendingum og talaði betri íslensku en flest okkar sem göngum hér og nú.
Sigurd býr einn í risastóru húsi, kominn vel á níræðisaldur þegar ég heimsæki hann. Konan hans er dáin og börnin flutt að heiman. Hann á barnabörn og barnabarnabörn, sum búsett á Íslandi. Þegar ég kem til hans berast raddir að ofan: Það eru BBC fréttamenn. Í kreppunni eru Færeyingar nýkomnir í gervihnattasamband og geta gónt á útlendar sjónvarpsstöðvar allan sólarhringinn.
Sigurd skrúfar niður í fréttamönnunum með viðeigandi orðbragði, finnur tvö rauðvínsstaup og fyllir þau af Calvados. Skál. Hingað er ég velkominn. Á stofuborðinu liggur mikið af handskrifuðum blöðum og alls kyns uppsláttarrit og bækur.
“Veistu hvað þetta er?” segir Sigurd stundarhátt og bendir á blöðin og áður en ég næ að hrista höfuðið segir hann: “Þetta er Íslandsklukkan á færeysku.”
Það hefur verið starf hans undanfarin misseri, að þýða hana. Í augum Sigurds er Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness ekki aðeins mikið bókmenntaverk, heldur líka barátturit. Hann vill meina að Færeyingar nútímans séu á sama stigi og Íslendingar á nýlendutímanum.
Þegar hann flytur mál sitt er baráttukrafturinn í honum einsog í gamalli stríðshetju. Það hvarflar ekki mér að mótmæla honum, enda getur vel verið að hann hafi rétt fyrir sér.

Þetta er alla vega einstakur maður, og ég nefni hann ekki aðeins til sögunnar af því að hann er þýðandi Íslandsklukkunnar, heldur var hann einnig verjandi uppreisnarmannanna frá Klakksvík, en uppreisnin í Klakksvík var aðal umræðuefnið okkar er við hittumst í Svíþjóð.
Uppreisnin í Klakksvík gengur ýmist undir nafninu “Klakksvíkurstyrjöldin” eða “Læknastríðið”, og var háð á milli íbúa Klakksvíkur og danskra hernaðaryfirvalda árið 1955. Sumarið sem ég vann í Klakksvík fékk ég gríðarlegan áhuga á þessari styrjöld sem meira að segja Danir hafa nefnt svanasöng danskrar heimsvaldastefnu.
En því meiri sem áhugi minn varð því hljóðari urðu viðmælendur mínir. Það var einsog bannhelgi hvíldi yfir þessum atburðum. Innfæddir fóru undan í flæmingi. Þeir vildu ekki ræða þá. Að toga út úr þeim sögur var starf fyrir tannlækni og ef einhver sagði eitthvað mátti ekki hafa það eftir honum.
Ekki það að menn væru að setja út á sögulega forvitni aðkomukomumannsins. Nei, viðbrögðin minntu mig á söguna af bananaverkfallinu í Hundrað ára einsemd sem allir gleymdu þegar það var afstaðið og sögðu að hefði aldrei átt sér stað.
Læknastríðið í Klakksvík fór því að fá á sig þjóðsögulegar víddir í höfði mínu. Ég nánast bjó til mína eigin útgáfu af þessari styrjöld eftir munnmælum og sögusögnum og einsog þegar slíkt gerist verður uppspuninn með einum eða öðrum hætti sannari en atvikin sjálf.
Þannig var að Danska Læknasambandið hugðist setja Halvorsen lækni af. Sögðu sumir að hann væri göldróttur skottulæknir, en aðrir að hann hefði átt vingott við nasista. Slíkir menn áttu borga sektir og því neitaði Halvorsen vegna þess að í fyrsta lagi sá hann ekkert að því að hafa verið nasisti á sínum unglingsárum og í öðru lagi hafði hann sagt sig úr nasistaflokknum mjög fljótt, einfaldlega af því að honum þótti ekkert varið í nasista. Hann neitaði að greiða sektir, nafn hans stóð skrifað í spjaldskrár og þar við sat.
Þá gripu dönsku læknasamtökin til þess ráðs að víkja Halvorsen úr embætti og settu nýjan lækni í hans stað. Þessu vildu Klakksvíkingar ekki una. Tóku nú að breiðast um Eyjarnar átján kraftaverkasögur af Halvorsen. Sagt var að lamaðir menn gætu staðið á höndum bara ef þeir litu í augun á Halvorsen og margir trúðu því að honum fylgdi guðlegur máttur.
Þegar svona var í pottinn búið var ákveðið að setja nýja lækninn í embætti með lögreglu- og hervaldi. Þá gripu Klakksvíkingar til vopna og buðu hundruðum lögreglumanna með sjefferhunda og barefli byrginn.
Þetta var ójafn leikur: Klakksvíkingar voru vopnaðir rifflum, skóflum, hökum og grjóti. Litlir drengir bjuggu til teygjubyssur og skutu örvum af boga. Símastaurar voru felldir. Klakksvík var í hershöndum. Læknirinn sem kom í stað Halvorsen hét Einer Lund og hefur sonur hans Niels Lund skrifað fína frásögn um sína upplifun af þessum atburðum. (1)
En nú vildi svo til að einhver agúrkutíð var í styrjaldarrekstri í heiminum eða menn voru orðnir leiðir á þeim stríðum sem í gangi voru. Því runnu heimsblöðin á slóðina og mynduðu átökin, drengi sem miðuðu teygjubyssum á herskip og sjómenn sem buðu herveldinu byrginn með skóflum og járnkörlum.
Þannig að þó Klakksvíkingar töpuðu átökunum um lækninn sinn unnu þeir stríðið í augum heimsins, enda hlutu uppreisnarmenn væga dóma og Klakksvíkingar kusu að gleyma því sem gerst hafði.
Þetta er nokkurn veginn atburðarásin, en átökin um lækninn voru aðeins yfirborðið. Undir niðri kraumaði krafan um sjálfstæði. Þetta leiddi Sigurd Joensen mér allt fyrir sjónir og hvatti til að skrifa skáldsögu um þessa atburði, helst margar, en þeir hafa á undanförnum árum verið dregnir fram í dagsljósið og um þá fjallað í lærðum ritum. (2)

Nú er ég aftur á leið til Færeyja, á tónlistarhátíðina G!. Ég tek son minn með og segi honum hvað pabbi gerði í gamla daga. Þarna verða fullt af fínum hljómsveitum, frá mörgum löndum, en færeyskt tónlistarlíf hefur staðið í miklum blóma á undanförnum árum og þarf engan að undra þegar afkomendum hinna glötuðu snillinga er stungið í samband við umheiminn. Ég á að lesa upp ásamt innfæddum skáldum og dönskum skáldum og norskum. Þetta er vanalega nokkuð góður kokteill. Upplestur er tónlist okkar skáldanna, okkar rock and roll.
Ég nefndi sjálfstæðið, í tengslum við Klakksvíkurstyrjöldina. Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um sjálfstæði Færeyja. Til stóð að Færeyingar hlytu sjálfstæði. Deilt var um aðlöðunartíma. Færeyingar vildu hafa hann fimmtán árum lengri en danska stjórnin vildi veita þeim.
Nú kunna að hafa legið ýmis rök fyrir því, en þetta fannst mér mjög skrýtið. Ef frelsið er ekki fimmtán ára virði, hvers virði er þá? Ég fór að hugsa um hvað íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sem, innblásnar af þýsku rómantíkinni og frönsku byltingunni, leiddu okkur til sjálfstæðis, hefðu sagt.
Kannski eru Færeyingar bara svona vel upp aldir, að þegar þeim er boðið að verða sjálfstæðir strax vilja þeir fá að vera ósjálfstæðir fimmtán árum lengur eða er þetta óttinn við hið óþekkta, hræðslan við djöfulinn sem Thor Vilhjálmsson nefndi.
En kannski er öll rómantík, sjálfstæðishugsjónir og byltingarhyggja, úr sögunni. Feiti þjónninn er við völd, ekki barði þrællinn. Hvað gera ekki íslenskir stjórnmálamenn þegar ameríski herinn ætlar loks að fara? Jú, grátbiðja hann að vera lengur, krjúpa frammi fyrir hernaðaryfirvöldum og biðja þau um að yfirgefa sig ekki.
No more heroes. Kannski höfðu Stranglers rétt fyrir sér. Ég veit það ekki. Ég fer bráðum til Færeyja og held áfram að velta þessu fyrir mér.
Einar Már Guðmundsson

1. Niels Lund: Min skolevej i Klaksvig – spidroðsvejen. Min skolevej 2, 1991, Vindrose.
2. sjá til dæmis, Frede Asgaard: KLAKSVIG-STRIDEN I – IV, Forlaget Insight. Ég hef aðeins bindi eitt tvö undir höndum en reikna með að hin hafi komið út.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page