20.5.06

Ölvaða borg e. Hermann Stefánsson

Þessi borg er ölvuð
turnar hennar tróna skakkir og skældir
byggingar úr mistri

skip sigla fullum seglum um strætin

áðan spurði mig einhver til vegar
ég svaraði því játandi

en að enginn þeirra lægi lengur til áfangastaðar

þessi borg er ölvuð
þeir söngla bænir sínar í turnunum
þótt þeir viti að á götunum er enginn
sem ekki heyrir til þeirra lengur

trúðarnir hafa sett upp óumræðilegan mæðusvip
stytturnar eru ekki samar og áður
jafnt þótt maður kastaði í þær sandi eða snjóboltum

auðvitað er listileg rigning og göturnar hafa flestar runnið til
það gildir einu fyrir þá sem á annað borð sigla

raunar hvíslaði regnið einhverju að mér í gær – ef ekki bara í gærkvöldi
en þá var ég að hlusta eftir fótataki svo ég veit ekki hvað það var

heyrðu, ég sé ekki betur en að áhöfn eins sjóræningjaskipsins sé að bera burt
allt silfrið í búðunum á torgi silfursmiðanna
sama er mér
þeir vita ekki hvað þeir eiga í vændum
fremur en aðrir

þessi borg er ölvuð
minningar mínar myndu bera mig ofurliði hefði ég minni
fæturnir bæru mig ofurliði hefði ég fætur
sum andlitin sem ég mæti fara langt með að gera útaf við mig

eins og þitt myndi gera ef ég hrinti upp sjóblautri hurð á siglingabar
æddi inn
og segði:
hingað er ég kominn
alla þessa leið
fyrir þig


Hermann Stefánsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page