Viðurkenning fyrir ágæti og yfirburði í beitingu hinnar íslensku tungu

Að þessu hinu fyrsta sinni fellur viðurkenningin í skaut tveggja óþekktra unglingsstúlkna, sem skutu upp höfði í tilkynningu frá Lögreglunni í Reykjavík, þar sem segir orðrétt: „Lögreglan í Reykjavík hafði afskipti af tveimur unglingsstúlkum, 12 og 13 ára, sem létu mjög ófriðlega í fjölbýlishúsi í borginni í gærkvöld. Hvorug þeirra býr á umræddum stað en íbúar hússins kvörtuðu sáran undan framferði þeirra sem var vægast sagt ekki til fyrirmyndar. Lögreglan hugðist koma stúlkunum til síns heima en þær brugðust ókvæða við og var þá afráðið að flytja þær á lögreglustöð. Á leiðinni þangað hótuðu þær lögreglumönnum öllu illu og viðhöfðu svívirðingar sem ekki er hægt að hafa eftir. Lögreglumenn eru ýmsu vanir en þarna keyrði um þverbak enda var munnsöfnuður stúlknanna óhugnanlegur.“
Dómnefnd þykir ljóst að á meðan æskan býr yfir slíkri orðkynngi sem getur fengið lögregluna til að roðna, þurfi ekki nokkur maður að hafa áhyggjur af málþroska barna þessa lands. Tekið skal fram að dómnefnd veitir verðlaunin einungis á grundvelli vandlætingar lögreglunnar, enda veit dómnefnd ekki hvað það var sem stúlkurnar sögðu sem svo fór fyrir brjóst lögreglunnar. Dómnefnd veit enn sem komið er ekki heldur hverjar stúlkurnar eru, en vilji þær heimta viðurkenningarskjal og bókagjöf frá Nýhil og 10.000 Tregawöttum er þeim bent á að hafa samband við 10.000 Tregawött á netfangið tiuthusundtregawott@gmail.com.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home