1.6.06

Erlendir þátttakendur á alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils

Christian Bök er metsöluhöfundur framúrstefnuljóðabókarinnar Eunoia (Coach House Books, 2001), en fyrir hana vann hann ljóðaverðlaunin Griffin Prize for Poetic Excellence (2002). Fyrsta ljóðabók Christians, Crystallography (Coach House Press, 1994) var tilnefnd til Gerald Lampert Memorial Award verðlaunanna. Christian hefur samið ný tungumál fyrir tvo sjónvarpsþætti, Earth: Final Conflict frá Gene Roddenberry og Amazon frá Peter Benchley. Þá hefur hann hlotið mikið lof fyrir afburða flutning á hljóðljóðum. Konseptverk hans (meðal annars bækur byggðar úr töfrateningum og Legókubbum) hafa birst á Marianne Boesky galleríinu í New York sem hluti af sýningunni Poetry Plastique. Christian kennir við enskudeild University of Calgary.

Skrif Kenneths Goldsmith hafa verið kölluð með „ítarlegustu og fallegustu collage-verkum ljóðsögunnar“ í Publishers Weekly. Goldsmith er höfundur átta ljóðabóka, stofnandi og ritstjóri vefskjalasafnsins UbuWeb (http://ubu.com) og ritstjóri verksins „I’ll Be Your Mirror: The selected Andy Warhol Interviews“, sem er grunnurinn að óperunni „Trans-Warhol“ sem frumsýnd verður í Genf í mars, 2007. Kenneth er þáttastjórnandi í vikulegum útvarpsþætti á WFMU stöðinni í New York. Hann kennir skrif við The University of Pennsylvania, þar sem hann ritstýrir PennSound, sem er vefskjalasafn ljóða. Frekar er hægt að fræðast um Goldsmith á höfundarsíðu hans á Electronic Poetry Center frá University of Buffalo: http://epc.buffalo.edu/authors/goldsmith.

Leevi Lehto er finnskt ljóðskáld, þýðandi og forritari. Frá því að hann gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1967 hefur hann gefið út fimm ljóðabækur til, skáldsöguna Janajevin unet (Draumar Janajevs, 1991) og tilrauna-prósaverk, Päivä (Dagur, 2004). Hann er einnig þekktur fyrir tilraunir sínar við stafræn skrif og má meðal þeirra nefna ljóðavélina The Google Poem Generator. Leevi hefur þýtt um fjörutíu bækur og vinnur þessa stundina að því að þýða Ódysseif James Joyce. Hann kennir ljóðlist við Kriitininen korkeakoulu (Kritísku akademíuna) í Helsinki og er formaður skipulagsnefndar hinnar árlegu ljóðahátíðar The Helsinki Poetics Conference. Fyrsta ljóðabók Leevis á ensku, Lake Onega and Other Poems, verður gefin út í nóvember 2006. Frekari upplýsingar má finna á www.leevilehto.net.

Katie Degentesh býr í New York og er með M.A.-gráðu í skapandi skrifum frá University of California, Davis. Ljóð hennar og ritgerðir hafa birst í tímaritum á borð við Shiny, Fence, New American Writing og fjölmörgum öðrum. Fyrsta ljóðabók hennar, The Anger Scale, kom nýverið út hjá Combo Books. Titlar ljóðanna í bókinni eru spurningar úr MMPI (Minnesota Multiphasic Personality Inventory (fjölfasa persónuleikapróf)) og eru samin með aðstoð leitarvéla internetsins.

Gunnar Wærness er fæddur í Þrándheimi í Noregi og gaf út sína fyrstu bók, Kongesplint, árið 1999, og önnur bók hans, Takk, kom út árið 2002. Gunnar hefur einnig samið leikrit, kennt skapandi skrif, ritstýrt tímaritum, framið gjörninga, skipulagt námskeið og hátíðir og unnið við útvarp. Nýlega gaf hann út bókina „Hverandres“, sem inniheldur mikið af myndljóðlist. Gunnar er búsettur í Svíþjóð. Myndina af honum tók Per Larsson.

Anna Hallberg er ljóðskáld og bókmenntagagnrýnandi. Hún býr og vinnur í Stokkhólmi í Svíþjóð. Fyrsta bók hennar, Friktion, kom út árið 2001. Önnur bók hennar, På era platser, sem kom út árið 2004, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þriðja ljóðabók hennar, mil, kemur út árið 2008. Anna er meðlimur í ritstjórn sænska ljóðatímaritsins OEI.

Jörgen Gassilewski vinnur og býr í Stokkhólmi. Fyrsta bók hans, Du, kom út árið 1987 og hefur hann alls gefið út átta ljóðabækur. Sú síðasta, Skapelsens sedelärande samtal, kom út árið 2002. Fyrsta skáldsaga hans, Göteborgshändelserna, kom út í ár og hefur verið tilnefnd til sænsku bókmenntaverðlaunanna Augustpriset. Jörgen er meðlimur í ritstjórn sænska ljóðatímaritsins OEI. Hann vinnur einnig sem þýðandi, menningarblaðamaður og útvarpsmaður.

Jane Thompson nemur félagsfræði og ensku við University of Calgary. Hún er meðritstjóri að No Press, aðstoðarritstjóri á tímaritinu NoD magazine og hluti af samvinnuhópnum sem gefur út filling Station. Skáldskapur hennar hefur birst í safnritum og tímaritum um alla N-Ameríku. Hún vinnur þessa dagana að því að ritstýra alþjóðlegu safni af fundnum ljóðum.

derek beaulieu er höfundur tveggja ljóðabóka, with wax (Coach House, 2003) og fractal economies (talonbooks, 2006). Árið 2005 skrifaði hann bókina frogments from the frag pool með Gary Barwin, og var meðritstjóri að Shift & Switch: New Canadian Poetry, en báðar voru þessar bækur gefnar út af Mercury Press. Myndlist hans, sem höndlar með texta og lestur, hefur verið sýnd á sam- og einkasýningum víða í N-Ameríku. Hann hefur tekið þátt í útgáfum tímaritanna dANDelion, endNote og filling Station, auk þess sem hann var útgáfustjóri housepress, sem var smáútgáfa sem gaf út róttæka tilraunaljóðlist og prósaverk frá 1997-2004. Árið 2007 kemur konsept-skáldsaga Dereks, Flatland, út hjá útgáfu Simons Morris, information as material press.

Matti Pentikäinen er einn þriðji framúrstefnu raf hipp-hopp sveitarinnar Ceebrolistics. Fyrsta ljóðabók hans, aavaaavaa, kom út í júní árið 2005, ásamt hljóðrásardisk þar sem Matti vann meðal annars með Vladislav Delay, Samuli Kosminen (trommuleikara múm), Rrimöykk o.fl. Hann hefur meðal annars flutt „audiovisual“ gjörninga í samtímalistasafninu Kiasma í Helsinki. Árið 2006 var þýðing Mattis á ljóði Saul Williams, ,said the shotgun to the head, gefin út af Like-kustannus og hlaut hann mikið lof fyrir hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page