30.6.06

Hin asíska gredda – um Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk

Í vikunni bárust mér tvö póstkort. Þau bárust sama daginn. Annað þeirra var ekki undirritað, en á hinu stóð „kveðja, Steinn Steinarr“. Bréfritarar hafa ekki heldur haft fyrir því að finna heimilisfang mitt, því á öðru stóð einfaldlega „Eiríkur Norðdahl/ Ísafirði“ en á hinu „Eiríkur Örn N. / Ísafjörður / Vesturland [sic]“. Á framhliðum þeirra voru bókakápur á tveimur Bjartsbókum. Steinn Steinarr valdi kápukort af bókinni Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins eftir Steinar Braga, en Anonymous valdi Guðlausa menn Ingunnar Snædal.

Sagan sem ég hef heyrt er þessi. Á miðvikudagskvöld í síðustu viku hélt Bjartur ljóðakvöld á Næsta bar í Reykjavík, þar sem dreift var kortum með kápumyndum Bjartsbóka og áheyrendum boðið að senda vinum sínum og kunningjum póstkort/auglýsingu í boði Bjarts. Þetta er auðvitað sætt, þó þetta sé í aðra röndina krípi auglýsingamennska. Í öllu falli fannst mér fjarska gaman að fá mín tvö kort, og var ánægður að kort Anonymousar hafi ekki endað vestur á landi, heldur hér hjá mér, vestur á fjörðum.

En þetta er auðvitað allt saman útúrdúr. Ein þeirra bóka sem verið var að kynna á áðurnefndu ljóðakvöldi var Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson. Í fréttatilkynningu frá útgefanda kemur meðal annars fram að höfundur sé „búsettur í Asíu“, og var „sérlegur fulltrúi Bjarts“ því fenginn til að lesa úr bókinni. Ekki hef ég nokkra hugmynd um hver það var, enda var ég ekki á staðnum, og í bréfum Steins og Anonymousar er ekkert sagt um þetta. Komi í ljós að enginn gesta Næsta bars hafi skrifað kort og merkt það Vésteinn Lúðvíksson – Asíu, þá lýsi ég yfir alvarlegum skorti á sniðugheitum í íslenskum intellektúölum (en mér skilst barinn hafi verið fullur af slíkum). Asía er mjög gott heimilisfang.

Bókina hef ég lesið, mér til mikillar ánægju. Ég hef lítið lesið Véstein hingað til, gluggað í bækur hans í bókabúðum og fundið bragð en ekki svo ég hafi fengið þess almennilega notið. Í menntaskóla var mér gert að lesa Stalín er ekki hér, leikrit Vésteins – ég man ekki hvort ég las það í raun (ég las mjög lítið af því sem sett var fyrir í menntaskóla) en ég hef alla tíð haft illan bifur á því verki. Einhvern veginn hef ég alltaf haft það á tilfinningunni, hvort sem það er satt eður ei, að þetta sé eitthvað uppgjör við kommúnismann, og slíkt finnst mér álíka gaman og að lesa ritgerðir Enver Hoxha um smáborgaralegan marxisma Maó. Sumsé ekkert voðalega gaman.

Það fer vel á því að Vésteinn skuli búsettur í Asíu, enda bókin skrifuð undir „asískum áhrifum“ – það er í henni að finna gríðarfallegt Zen (hugtök úr asískum trúarheimi/spíritisma eru hér notuð algerlega án ábyrgðar – ég hef ekki vit á slíku fyrr en ég er orðinn mjög drukkinn), margt minnir á Matsuo Basho, eða Ryokan. Á köflum minnir kveðskapurinn líka á hófstilltari Mike Topp, já eða Þorstein Guðmundsson. Ég leyfi mér jafnvel að láta mig dreyma um að Vésteinn yrki undir áhrifum frá Po Chü-I, hvers bók, Brjálsemiskækir á fjöllum, Vésteinn þýddi fyrir skemmstu og kom út hjá Uppheimum, því úrvalsþýðinga forlagi - en eigandi eftir að lesa hana get ég minna fullyrt um það.

Nú iðrast ég þess eins
að hafa ekki lært sundtökin
af krókódílnum
og sýnt listir mínar í laugunum

Það úir og grúir af ljóðabókum í heiminum, og jafnvel á Íslandi, sem innihalda einhvers konar „asíska visku“ – litlar viskuperlur og náttúrumyndir í hækuformi sem eru jafnan algerlega ómerkilegar, jafn vitrar og djúpar og hvaða sjálfshjálparbókar-nonsense sem er. Við lestur Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk fær maður það á tilfinninguna að Vésteinn sé „alvöru“, þetta séu ekki látalæti og hann sé ekki að nota spekina til að hreykja sjálfum sér með henni, heldur til þess að skoða heiminn.

Verið hef ég matgæðingur
og fundist stórvægilegur galli
á dýraríkinu
að þurfa að stanga það úr tönnunum

Í ofanálag er bókin húmorísk, ekki þannig að maður skelli oft upp úr (þó það hafi reyndar gerst 2-3 sinnum) heldur þannig að kurrar í manni alla bókina. Þessi kímni er svolítið furðuleg, og er reyndar sömuleiðis þráður sem tengir Véstein við Basho fyrir mér, það er að húmorinn er einhvern veginn samtímis gríðarlega kurrandi og deprímerandi. Það er eitthvað undarlega kátinu- og harmþrungið við línur á borð við:

Alltaf að deyja
Það líður varla svo dagur
ég spyrji mig ekki
hvað hafi orðið af storminum

Og það er eitthvað kæruleysislegt við þetta líka, þetta færir manni heim sanninn um að hin raunverulega eilífð er fólgin í augnablikinu en ekki útblásnu tímaumfangi. Og ekki yfirborðslegri fágun heldur raunverulegum þokka, ekki handbragði heldur fimi.

Þetta er ekki ljóð
Þetta er ekki-ljóð
Þetta er ekki ekki-ljóð
um ljós

Veistu nú hvort það lýsir
affryst
fyrst þú ferð létt með að frysta það

Þetta er nefnilega ekki ljós
Þetta er ekki-ljós
Þetta er ekki ekki-ljós
sem lýsir upp ljóð

Veistu nú hvort það segir eitthvað
óort
ef þú telur þig vita að það sé ort?

Þá er ótalin undirliggjandi greddan í bókinni, sem kemur jafnvel einna best í ljós í þessum stórkostlega titli: Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk, sem sameinar einhvernveginn þessa asísku tilvistarspeki/trúarspeki/spíritisma um hluta mannsins í brahma (alls sem er, verður og hefur verið) og einstaklega fallega, heiðarlega og ákafa greddu. Og ást.

Kona sem setti metnað sinn
í skírlífi
á von á samvöxnum þríburum

Asísminn í þessari bók á meira skylt með list kóansins, en list hækunnar. Það er erfitt að ætla að dæma um hversu íslensk þessi bók er, og líklega gagnslaust. En hún er ekki al-asísk, þetta eru ekki beinlínis kóön eða hækur, og Zenið er ekki nákvæmlega það Zen sem við þekkjum frá Ryokan eða Basho. Enda kannski ekkert skrítið, kristileg ljóð Íslands samtímans eru ekki neinir passíusálmar.

Samantekt og niðurlag: Helvíti fín bók, og svo kostar hún víst ekki nema 1.680 krónur, og 1.512 krónur ef hún er keypt í netverslun Eymundsson eða í netverslun Bóksölu stúdenta.
Eiríkur Örn Norðdahl

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page