23.6.06

Útgáfufréttir

Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk

Fyrir fáeinum dögum komu út tvær nýjar ljóðabækur frá Bjarti eftir ljóðskáld sem hafa bæði látið verulega að sér kveða í íslenskri ljóðlist um dágott skeið. Annars vegar er hér um að ræða bókina Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson, en í tilkynningu frá útgefanda segir meðal annars: „Vésteinn Lúðvíksson olli vissum vatnaskilum í íslenskum bókmenntum með skáldsögum sínum og smásögum á áttunda áratugnum. Hann kvaddi sér síðan hljóðs að nýju eftir langt hlé með ljóðabókinni Úr hljóðveri augans sem Bjartur gaf út árið 2003. Árið eftir fylgdi bókin Svona er að eiga fjall að vini (2004). Nú hefur Vésteinn sent frá sér nýja ljóðbók: Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk. Vésteinn er búsettur í Asíu, á heimaslóðum búddismans.“

Loftskip Óskars Árna

Hin bókin er eftir Óskar Árna Óskarsson og nefnist Loftskip. „Loftskip er níunda ljóðabók Óskars Árna en hann er einnig að góðu kunnur fyrir smáprósa sína og þýðingar. Lesandanum er boðið í ferð með strætisvagni sem enga endastöð virðist hafa þar sem farþegarnir rýna í leiðarkortin og úti sér ekki í nóttina fyrir myrkri. Skáldið fer með lesandann í ferðalag jafnt um kunnuglegar sem fáfarnari slóðir og reynist þar margt annað en sýnist. Sjaldan hefur höfundur stýrt ljóðafleyi sínu af meira öryggi en í þessari bók. Óskar Árni hlaut fyrr á þessu ári Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Í bláu myrkri.“

Ný bók frá Hannesi Péturssyni?

Þá er slúðrað um það á Vísi.is að orðrómur sé í gangi um að nýrrar ljóðabókar sé að vænta frá Hannesi Péturssyni. Það er Mál og menning sem á að gefa út bókina og mun hún hafa verið forskráð hjá Þjóðarbókhlöðu undir heitinu Fyrir kvölddyrum. Þá segir: „Síðasta ljóðabók Hannesar, Eldhylur, kom út 1993 og eru því fjölmargir aðdáendur skáldsins orðnir langeygir eftir nýju ljóðasafni hans en greinasafn hans, Birtubrigði daganna, kom út 2002. Hann sendi frá sér safn þýðinga eftir þýska skáldið Hölderlin 1997, Lauf súlnanna. Hannes hefur löngum verið talinn eitt höfuðskáld þjóðarinnar á síðari helmingi tuttugustu aldar. Hann kom fram við mikil fagnaðarlæti en hefur reynst þolgóður og skáldskapur hans hefur jafnan sætt tíðindum meðal ljóðaunnenda þá ný ljóð hans birtast.“

Óttar Martin í stafrófsröð!

Von mun á allsérstæðri ljóðabók úr ranni Óttars Martins Norðfjörð, sem áður hefur gefið út ljóðabækurnar Sirkus, Grillveður í Október, og Gleði og glötun. Það sem gerir bókina sérstaka mun ekki síst það að orðin í henni eru öll í stafrófsröð, frá fyrsta orði á fyrstu síðu til síðasta orðs á þeirri síðustu. Kallast þetta á við aðferðir Oulipo-hreyfingarinnar frönsku og margt það sem hefur þótt hressast í post-avant hreyfingunni vestanhafs. Sem fyrr er það Nýhil sem gefur út ljóðabækur Óttars.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page