12.7.06

Höpöhöpö Böks gefið út í Kanada

Forlagið Housepress í Kanada hefur gefið út ljóðið Höpöhöpö Böks eftir Eirík Örn Norðdahl. Ljóðið er svokallað einhljóða lípógram, en eini sérhljóðinn sem ljóðið inniheldur er 'ö'. Það er ort til og um kanadíska ljóðskáldið Christian Bök sem skrifaði bókina Eunoia, sem er einhljóða lípógram allra sérhljóðanna nema 'y' og 'ö'. Að sögn hótaði Eiríkur því að skrifa ljóðið þegar Christian var á landinu á alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils um Verslunarmannahelgi fyrir ári síðan, enda hafi honum þótt ótækt að sérhljóðinn ö, sem er m.a. í nafninu Bök, ætti sér ekki sitt eigið einhljóða lípógram. Orðið 'höpöhöpö' er líklega fæstum Íslendingum kunnugt, en þetta er að sögn heimildarmanna eitt fárra orða í heiminum til að innihalda fjögur 'ö'. Orðið er úr finnskri tungu og þýðir „vitleysa“. Ljóðið er prentað í bækling og birtist bæði í upprunalegri íslensku og í enskri grófþýðingu. Einungis takmarkað upplag hefur verið prentað og ættu fyrstu eintökin að vera væntanleg í Ljóðabókaverzlun Nýhils í Kjörgarði á næstu dögum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page