9.8.06

Úlfhildur um Norrænar bókmenntir

Á bókmenntavefnum hefur nú birst umfjöllun um síðara holl í ljóðabókaseríu Nýhils, Norrænar bókmenntir. Það er Úlfhildur Dagsdóttir sem fjallar þar um, en Ingi Björn Guðnason hafði þegar gert fyrra hollinu skil. Úlfhildur ber m.a. hollin saman, og segist mun hrifnari af því síðara. „Uppskeran að þessu sinni er þó mun ríkulegri en frá fyrra hollinu, en að mínu mati náði bók Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar þar ein máli. Af þessum fimm er hinsvegar aðeins ein sem ekki getur talist vel heppnuð, en það er bók Ófeigs Sigurðssonar, Roði. Eitt einkenni þessara ljóðabóka er að þær hafa allar yfir sér ákveðið heildaryfirbragð sem virðist mjög móðins, en er hinsvegar nokkuð vandasamt viðfangs.“ Þá segir Úlfhildur að „ofhlaðinn texti“ Ófeigs „líði fyrir tilgerð.“ Hún segir að Steinar Bragi, í bók sinni Litli kall strikes again, skapi „ferskan skáldskap úr þeim nýja textaheimi sem netvæðingin hefur opnað fyrir og nýtir sér möguleika þessa forms á kraftmikinn og krefjandi hátt.“ Hún segir látlausan stíl Þórdísar Björnsdóttur, í ...og svo kemur nóttin vera „of ógagnsær á stundum“ en njóti þess að vera „skemmtilega myndlýstur“. Um Eðalog eftir Val Brynjar Antonsson segir hún: „Myndmálið er almennt hressilegt og smart og bókin í heild vel heppnuð með nokkuð skemmtilegum leik með uppsetningu þarsem stakar línur úr textunum eru teknar út og þeim aðeins breytt á síðum milli prósanna.“ Hrifnust er Úlfhildur þó af ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur, Húðlit auðnin, „Draumkennt yfirbragð og síendurtekin stef skapa sterka nærveru.[...] Það er eitthvað sérlega heillandi við þessa prósaröð Kristínar, hún skapar í knöppu máli heilan heim sem lesandi sogast auðveldlega inní og gleymir ekki.“

Umfjöllun Úlfhildar má lesa í heild sinni á bókmenntavefnum. Eins og áður segir má einnig finna þar umfjöllun Inga Björns Guðnasonar um fyrra holl Norrænna bókmennta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page