4.9.06

Nýhil boðar til Ljóðapartís

Næstkomandi fimmtudagskvöld hyggst ljóða- og listabálkurinn Nýhil halda ljóðapartí í Þjóðleikhúskjallaranum, til að fagna þeim sjö titlum sem kompaníið hefur látið frá sér síðustu mánuði. Um er að ræða prósaverk á ensku, Vera & Linus, eftir Jesse Ball og Þórdísi Björnsdóttur, ljóðabókina Barkakýli úr tré eftir Þorstein Guðmundsson, og seinni bækurnar fimm í bókaflokkinum ‘Norrænar bókmenntir’, en þær eru Roði (e. Ófeig Sigurðsson), Húðlit auðnin (e. Kristínu Eiríksdóttur), Og svo kom nóttin (e. Þórdísi Björnsdóttur), Eðalog (e. Val Brynjar Antonsson) og Litli kall strikes again (e. Steinar Braga). Þess má geta í framhjáhlaupi að ljóðabókin Barkakýli úr tré, sem kom út fyrir rúmri viku síðan, er þegar uppseld hjá útgefanda og von á nýju upplagi von bráðar. Enn er þó hægt að fá eintök af bókinni í betri bókabúðum, og ku m.a. nokkur vera eftir í Ljóðabókaverzlun Nýhils, þó forlagslagerinn sé uppurinn. Kannast menn vart við aðra eins sölu á ljóðabók í seinni tíð, og í raun bara ein bók sem kemst í návígi við Barkakýlið í sölu, en eins og menn muna rauk bókin Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson út þegar hún kom út fyrir fáeinum misserum. Báðar innihalda bækurnar skondnar, stuttar og eitraðar athugasemdir við þjóðfélagsmálin, og spurning hvort það segi ekki skáldum eitthvað.

Ljóðfögnuður Nýhils fer að þessu sinni fram í Þjóðleikhúskjallaranum og opnar húsið kl. 20. Skáldin munu lesa úr nýútkomnum verkum auk þess sem frekari útgáfa haustsins verður kynnt, en von er á a.m.k. tveimur skáldsögum, eftir Bjarna Klemenz annars vegar og Hauk Má Helgason hins vegar, sem og a.m.k. einni ljóðabók frá Eiríki Erni Norðdahl, frá forlaginu. Söngkonan blíða Lay Low léttir lund á milli atriða og auðvelt verður að nálgast hressingar á barnum. Húsið opnar klukkan 20:00 en dagskrá hefst um 20:30.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page