25.10.06

Ljóðabókaflóð Bjarts á Næsta bar

Bjartur blæs til ljóðalesturs í kvöld á Næsta bar í Reykjavík, en líkt og sagt hefur verið frá á Tregawöttunum hafa nýlega komið út þrjár ljóðabækur frá forlaginu, Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást eftir Ingunni Snædal, sem fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir verkið, Loftskip eftir Óskar Árna Óskarsson, og Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson. Óskar Árni og Ingunn mæta sjálf á svæðið til að lesa upp úr sínum bókum, en Bjartur sendir sérlegan fulltrúa sinn í Vésteins stað, en skáldið mun búsett í Asíu. Þá er ekki allt upptalið því Steinar Bragi, sem reyndar er ekki með ljóðabók fyrir jólin heldur skáldsögu, mun hefja leikinn "með léttum lestri úr eldri ljóðum sínum", líkt og segir í tilkynningu, og útvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Eiríkur Guðmundsson, sem á sömuleiðis skáldsögu í flóðinu, mun sjá um að kynna skáldin til leiks. "Verður þetta stutt, hnitmiðuð og bráðskemmtileg dagskrá, og er fólki því bent á að mæta tímanlega. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og öllum heimill", segir í tilkynningu. Upplesturinn verður eins og áður segir á Næsta bar, Ingólfsstræti 1a, í kvöld og hefst hann klukkan 20.00.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page