26.10.06

Upplestur, meiri upplestur!

Ljóð eru ágæt til síns brúks í þessum ágætu litlu kverum sem er alltaf verið að gefa út, en auðvitað er aðalstuðið að sitja á reykmettuðum bar og fylgjast með ljóðskáldum bisa við að koma bæði hljóðnemanum og bjórkrúsinni fyrir á borðinu áður en þau hefja þá snúnu list að túlka sín eigin ljóð fyrir framan fullan sal af fólki sem er ýmist að velta fyrir sér hvort hér sé næsta stórskáld mætt á svæðið eða er upptekið við að fanga athygli gengilbeinunnar, sem hefur að sjálfsögðu engan tíma til að afgreiða sökum þess hve hugfangin hún er af skáldunum. Þeir reyndustu í bransanum eru svo farnir að reikna út hvað kalli fram besta upplesturinn, tilgáta tregawattana er einn og hálfur bjór, lykt af rauðvínsglasi og beygla með kjúklingi í hádegismat, með kertaljós eða diskókúlu sem lýsingu, eftir efni ljóðsins vitanlega. Og auðvitað sæt/ur stelpa/strákur í þriðju röð til vinstri í áhorfendaskaranum. En allt þetta var að sjálfsögðu fullkomlega óþarfur formáli fyrir þá stórfrétt að það er ekki nóg með að þið hafið komist á upplestur í gærkvöldi heldur getið þið bætt um betur í kvöld. Bjartsskáld voru í gærkvöldi á Næsta bar og í kvöld munu Nykraðir meðlimir skáldafélagsins og útgáfunnar Nykurs mæta á Litla ljóta andarunganum klukkan níu í kvöld.

Fyrir þá sem vilja vita nánari smáatriði, eins og nöfnin á skáldunum og svona, þá kópí-peistuðum við æsispennandi fréttatilkynninguna sem við fengum í póstinum og það ágæta kópí-peist má sjá með því að
smella hér. Já, og við allt þetta má bæta að allt er þetta algjörlega fríkeypis, nema þú náir athygli gengilbeinunnar auðvitað ...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page