21.4.06

Aparass (aldrei segja afsakið)

(Jesú talar við við hina bersyndugu Maríu)

“Sverðu ekki, sverðu ekki kona góð
móður kalla þig þrjú þín jóð”.

Hið fyrsta áttu með föður þínum,
annað með honum bróður þínum.

Faðir að því þriðja er þinn sóknarprestur
sá er glæpurinn allra verstur.”

María féll þá fram og bað:
“Föður skrifta mér vertu í stað!”

“Þannig skal ég skrifta fyrir þér:
Þetta mælt þér fyrir er:

úti skaltu ganga
níu vetur langa,

í nístíngskulda nepjusnjó
nakin troða með enga skó

nakin aðeins með lendalín
bæta skalt fyrir brotin þín.”

Pápískur sálmur sem kemur fyrir í Vonin blíð, William Heinesen, 1964.


Homo Sapiens hefur verið til í sirka 200.000 ár (slíkt er þó enn ómögulegt að fullyrða nokkuð um), Back gammon var fundið upp fyrir kannski 6000 árum, Jésú fæddist að öllum líkindum í Betlehem fyrir 2006 árum, Norðmenn fluttu svo sennilega til íslands fyrir 1100 árum. Hellingur af árum, tölum sem engum segja neitt nema kannski stjarn-, fornleifa- og sagnfræðingum, fólki sem hefur óendanlegar stærðir og stjarnfræðilegan tíma á skrifborði sínu dag hvern. Breytingar í náttúrunni gerast ofur hægt, oftast svo hægt að á meðan líða margar kynslóðir manna undir lok sín og því enginn sem getur sagt; Hey! Þessi burkni er kominn með munn!

Í dag sá ég apa sem var með túrkísbláa andlitsgrímu á rassinum, ég hugsaði; hvenær gerðist þetta, og; en ótrúlega sniðugt því nú ræðst enginn aftan að honum! Enginn sá þetta andlit birtast því það tók tíma.

Síðan 1970 eru liðin 36 ár, maður sem fæddist 1970 er hvorki ungur né miðaldra, hann er auðvitað á hröðu skriði í átt að endalokum sínum einsog við öll, en stundum líður honum örugglega einsog hann hafi fæðst í gær. 36 ár er enginn tími. Ef út í það er farið eru 100 ár heldur enginn tími, en ég veit um eitt sem mér finnst langt svo langt, svo sárt og svo hlaðið en það eru öll þau ár sem konan hefur, og reyndar er enn í sumum hæstvirtum heimshlutum (þar á meðal okkar, þó erfitt sé að festa fingur, benda) verið álitin sálarlaus skepna sem ekki getur mælt eða skrifað orð af viti. Þróunin í aðra átt í þeim efnum hófst kannski með súfrógettunum um aldamótin 1900, eflaust hafa alltaf verið konur sem vissu sinn hlut skertan og börðust, en sjálf þróunin, meðvitund samfélagsins í heild sinni, er ekki svo ýkja gömul.

En ég er hvorki sagn-, stjarn- né fornleifafræðingur, ég er rithöfundur og ég er kona; þessvegna rennur mér blóð til skyldu við lestur á grein Magnúsar Þórs Snæbjörnssonar Vessapóesía sem birtist hér á þessum vef nú á dögunum og sem ég nú svara.

Þegar ég var sextán ára gömul (árið 1997) gekk ég inn í Eymundsson við Austurstræti, þar stóðu rekkar með bókum uppmeð veggjum, og hver rekki var titlaður eftir innihaldi: Íslenskar skáldsögur, Þýddar skáldsögur, Ljóð, Vísindaskáldskapur o.s.frv. Augu mín stöldruðu við einn þessa rekka þar sem hann bar yfirskriftina Kvennabókmenntir, ég gekk að rekkanum til að athuga hvert innihald þessa bóka sem kenndar voru við kynferði mitt væri. Komst ég þá í raun um að þar voru á ferð rauðar seríubókmenntir og sjálfshjálparbækur um kynlíf. Þegar ég var sextán ára gömul, var ég harðákveðin í vali á ævistarfi, ég ætlaði að verða rithöfundur. Rekkinn olli mér var óhugnaði, ég hugsaði; verða bækurnar mínar ávallt settar í ákveðinn rekka sem ber yfirskrift kynferðis míns, er það hlutskipti mitt í þessum heimi, ávallt og endalaust, að vera fyrst og fremst kona? Mun ég þurfa að skrifa um kynfæri mín þar til yfir líður, er þetta rauði þráður tilveru minnar? Stöðugt og sífellt að berjast, sveitt með stinnar geirvörtur?

Fyrsta ljóðabók konu sem útgefin var á Íslandi hét Stúlka, en höfundur hennar var Júlíana Jónsdóttir. Síðan eru liðin 130 ár. Í stórmerkilegri bók sem ber sama heiti og Helga Kress gaf út árið 1997 má sjá og skoða þær ljóðabækur sem konur gáfu út á þessu tímaskeiði, frá fyrstu bókinni 1876 til 1997. Helga skrifar stutt æviáhlaup kvennanna, svo og hvernig bókunum var tekið af gagnrýnendum. Frumkvöðlunum var tekið illa, gert var léttúðlegt grín að þeim fyrir menntunarleysi á sama tíma og konum var nánast ógerlegt að mennta sig. En ég ætla ekki að fara útí þá sálma, enda flestir orðnir ónæmir fyrir ranglæti fortíðarinnar, það er nú einusinni svo langt síðan. Fótanuddtækið var fundið upp um svipað leyti og kvennalistinn var stofnaður, eða var það miklu fyrr?

Eflaust þarf mikið hugrekki til, fyrir karlmann, að þora að skrifa um kvenréttindi, um kvenskáld, um kvenrithöfunda, og eflaust er ágætt að þeir svo geri, við þurfum auðvitað að alhæfa til að komast úr sporunum í umræðu og mér skilst samkvæmt Svíum að umræða sé æði. Umræðan er engu að síður orðin hundleiðinleg, þegar talað er um að heil kynslóð, ef ekki tvær, séu að yrkja um það sama, og ekki síst að þegar konur yrkja um píkur, graut, vessa, seríós, vanillu, séu þær einungis að fjalla um greddu og sjálf(umsérnóga)fróun. Túlkunin sem sagt af fátæklegra tagi.

Það væri óskaplega auðvelt fyrir mig að segja að karlmenn skrifuðu bara um þjónustustúlkur, andlegt (hold)ris, og mömmu sína. En ég geri það ekki. Vegna þess að þegar ég les ljóð pæli ég fyrren dæmi, gef séns og viti menn! Lífið er mun skemmtilegra! Talsvert flóknara og bara ágætlega afþreyjandi með öllum sínum tilburðum og tilbúningi. Það er því miður dæmigert og lýsandi fyrir stöðu kvenna sem skrifa, að ljóð þeirra um kynferði sitt og færi séu túlkuð sem hórdómur, konur eru nú einusinni enn drepnar fyrir að vera blórabögglar syndsamlegra hugsana og atferlis karlmanna víðsvegar í heimi hér.

Samkvæmt freðhausalegri hugmynd Magnúsar að hunangssveiflandi popptíví gellur sem ekkert áhorf fá séu þær í spjörum, (þ.e.a.s. hórdómur) segi hlutina einfaldlega betur en kvenskáld sem yrkja um op sín og vessa, ættum við að hífa okkur upp á æðra plan, hætta að segja ljótt og fara að hegða okkur einsog menn.

En spurning mín við þessum skrifum og þvíumlíkum er, hvort að þegar konur yrkja um opið, lífgjafann, gætu þær mögulega verið að skrifa um eitthvað annað en greddu? Gæti meira falist í orðum þeirra? er ekki hægt að hugsa aðeins lengur, fastar, meira? Vessi, slím, drulla, m.ö.o. uppruni alls lífs, er séns að í öllum þessum subbulegu textum sem Magnús meinti að væru til, fælist annað en gredda? Er fræðilegur möguleiki að ungar skáldkonur beri í heila sér reynslu, vitneskju, þroska, söguvitund til að tjá allt þetta mixað við hæfileika, stílgáfu og annað eins sem kennt hefur verið við margan manninn?

Þetta er gestaþraut og sá sem leysir hana erann; fær að hoppa allsber kringum húsið og finnast hann eiga heiminn, að því loknu eina eilífð í helvíti; flóknu og skelfilegu, þar sem konur hafa í alvörunni eitthvað að segja og eru heyrðar lesnar og túlkaðar því samkvæmt, en eru ekki annað hvort gyllt lokkaflóð á kodda og postulín, eða ljót varta og fita. Ekki annað hvort hunangsletta, eða klámfengin bredda.

Kristín Eiríksdóttir


Greinina Vessapóesía e. Magnús Þór Snæbjörnsson má lesa með því að smella hér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page