27.11.06

Grjótaþorp að nóttu e. Arngrím Vídalín

Steig fætinum framúr draumnum og stóð andspænis nýjum degi sem skorti þig og þarmeð allt sem hafði gert litlu Grjótagötu að Champs-Élysées og þorpsfíflið að prinsi á hvítum Hyundai

reif mig upp úr deginum og starði nóttina niður í glasið og drakk hana minnugur þess að það er í raun fáránlegt að reka öldurhús í landi þar sem menn drekka aðeins te

-- en það er útúrdúr og ekki skiljanleg vísun öðrum en mér, því svona get ég verið óbilgjarn og leiðinlegur --

fleygði nóttinni til andskotans og fann sísvartan morguninn í fjöru, eins og alltaf þegar gállinn rekur mig til þess; sendi þér hugboð yfir hafið um að jú, víst var það svo og víst verður það aftur næst þegar við hittumst, því þótt gatan sé lítil og Ósigurboginn hruninn um sjálfan sig hljóta stjörnurnar að lifna drottni sínum á endanum og himinninn hlýtur að vera sá sami hér þótt eilítið sé hann grárri

og þá geturðu kysst mig, elskan, og ímyndað þér að ég sé einhver annar, líkt og ég kyssi kvöldið og ímynda mér að það sé þess vegna sem

nóttinroðnaði.


Arngrímur Vídalín

Ljóðið er úr nýrri bók Arngríms Endurómun upphafsins, sem gefin er út af Nykri. Davíð A. Stefánsson, einn af forvígismönnum Nykurs fylgdi bókinni úr hlaði með nokkrum orðum sem má lesa hér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page