17.4.06

Hjárænulegt kvein

„Allt kveinið um að það vanti „vettvang fyrir ljóðið“ hljómar hjárænulega á gullöld bloggsins. Það er ekkert mál að opna netsíður með ljóðum og ljóðaumræðu.“

Ég hnaut um þessa klausu í annars ágætri Fréttablaðsgrein Kristjáns Bjarka Jónassonar um stöðu ljóðsins, „Skáldin berja frá sér“ (Um hana má lesa nánar
hér). Auðvitað er þetta ekkert mál, blogger og fleiri síður eru nær aulaheldar og kosta ekki neitt. En þarna kemur fram sú oftrú á tækninni sem algeng er þegar netið ber á góma. En fæstir eru enn búnir að átta sig almennilega á hvernig á að nota netið, netráp margra er enn sem komið er dálítið fast í gamla línulega hugsunarhættinum sem við ólumst upp við í gegnum dagblöð og tímarit, líklega tekur að minnsta kosti kynslóð í viðbót til þess að netið geti farið að verða sá magnaði fjölmiðill sem það hefur vissulega burði til að verða. Þannig eru langflestar bloggsíður aðeins lesnar af fámennri kreðsu, oft fólk nátengt höfundi. Vefrit eru flest rekin af vanefnum og borgun fyrir skrif þar er fáheyrt fyrirbæri.

Tæknin hefur fyrst og fremst skapað nýjan vettvang – en auðvitað hefur alltaf verið hægt að skapa viðlíka vettvang. En allt gerist þetta neðanjarðar. Einu sinni gengu ljóðabækur í ljósriti, höfundar hafa alltaf getað selt sjálfútgefnar bækur sínar á reykmettuðum börum og þar hefur alltaf verið hægt að kría út eitt og eitt upplestrarkvöld.

En gömlu miðlarnir og stóru forlögin eru ennþá með lyklavöldin að meginstraumnum þótt stöku sinnum takist götustrákum og –stúlkum að lauma sér þangað inn óséð. Og þrátt fyrir átta ljóð á tveggja ára fresti í Fréttablaðinu og einstaka tilfallandi ljóð í gúrkutíð annars staðar þá er ljóst að þessir dyraverðir eru langt frá því tilbúnir að bjóða ljóðinu í betri stofuna, það kemst í mesta lagi einstöku sinnum með annan fótinn inní forstofu. Langflestar netsíður, blogg og vefrit eru hins vegar enn neðanjarðar í kompaníi við ljóðið og fleiri góða hluti. Vissulega eru einhver merki um að fjölmiðlar séu aðeins að rumska en það er langt í að þeir vakni almennilega.
Hér skal tekið fram að neðanjarðarlistastarfsemi er ekki bara æskileg, hún er hverri listgrein lífsnauðsynleg. Oft gerast svo merkilegustu hlutirnir á mörkunum, þegar fólk veit ekki alveg lengur hvort það er bara að tala til gömlu klíkunnar eða til allrar þjóðarinnar eða jafnvel heimsins. En gallinn er að ljóðið hefur tilhneigingu til þess að vera nær eingöngu neðanjarðar. Það að hafa engan meginstraum er engu minna hættulegt en að hafa ekkert líf neðanjarðar. Hinn íslenski ljóðaheimur er fullur af rótum án blóma. Oft er leið ljóðskálda til að komast upp fyrir yfirborðið sú að skrifa skáldsögur og kveðja þau þá oft ljóðið í leiðinni. Önnur ljóðskáld koma helst upp á yfirborðið þegar þau eru dauð og orðin boðleg í fermingarveislur.

Ásgeir H Ingólfsson

1 Comments:

Blogger Birgitta Jónsdóttir said...

Góð grein... alveg sammála þér... furðulegt hvað þessi kvein eru lífsseig... ef ég hefði ekki dottið inn í netheima 1995 og fundið þar skáld frá flestum þeim heimshornum sem voru nettengd, þá hefði ég sennilega verið búin að skrifa 10 skáldsögur (eða fengið mér vinnu við að flaka fisk)

... þó að skáldsöguformið sé heillandi og ég hafi skrifað eina slíka, og það sé eina leiðin til að fá lesendahóp ... (heyrði ófá léttisandvörpin þegar ég sagði fólki frá því að nýjasta bókin mín væri ekki ljóðabók heldur skáldsaga) þá eru skrilljón möguleikar fyrir skáld að nýta sér netið til að vera virkari þátttakendur í samfélagi skálda og fá fleiri lesendur. Við skáldin á Íslandi höfum verið frekar löt að gera tilraunir, enginn hefð fyrir tildæmis ljóðavídeóum, lítil hefð fyrir margmiðluðum ljóðum þar sem það er gert af einhverri alvöru... upplestrar ennþá oftast drepleiðinlegir og ljóðabækur flestar innan þessa staðlaða forms sem við öll þekkjum og búumst við...
fæst ljóðskáld líta svo á að það að skrifa ljóð, vinna með ljóð, framkvæma ljóð sé starfsgrein, alltaf eitthvað hliðarverkefni við "alvöru" vinnuna...
munu ljóð seljast í bílförmum... sennilega aldrei.. ekki í þeirri mynd sem þau eru í dag
og hvað er til ráða að fá allar þessar rætur til að blómstra... mér finnst Nýhil vera að stíga nokkur mikilvæg skref í þá átt... ekki síst með því að koma ljóðinu aftur og aftur inn í umræðuna... ljóðabókabúðin, ljóðahátíðin... allt eins og einn stór blautur draumur...

ég hef tröllatrú á netinu ... hef upplifað svo margar dyr opnast með því að hafa verið sýnilegur og virkur þátttakandi í 11 ár í netheimum... kynnst skáldum sem ég hefði sennilega aldrei haft rænu á að lesa og fengið að performa með skáldum sem hafa insperarað mig út í hið óendanlega.... það sem hefur alltaf heillað mig mest við að nota netið sem skáld er að maður fékk oft instant viðbrögð frá lesendum sínum... nú er netið reyndar svo mettað að það er auðvelt að týnast á því ... og þetta beina samband lesenda og skálda að týnast en eitthvað nýtt mun taka við... ég er ekki nógu mikil völva til að sjá það fyrir..

8:24 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page