9.4.06

Um réttinn til þess að vera saklaus og nauðsyn þess að fullorðnast

Back to the Poem Part I

Hvenær er tími ljóðsins? Hvað á að yrkja um í dag, á morgun, hvað gleymdum við að yrkja um í gær? Eiga ljóðskáld að vera í takt við tímann eða meðvitað úr takti? Búum til ljóðrænan DeLorean og sláum inn ártöl, byrjum á 1995 og 2005.

1995 gaf Andri Snær Magnason út ljóðabókina Ljóðasmygl og skáldarán. Um hana fjallaði
Eiríkur Örn Norðdahl á þessu vefriti nýlega og sagði meðal annars:

Maður fær það næstum á tilfinninguna að Andri sé að ljúga að manni, að þetta sé jafnvel meðvitað stílbragð til að undirstrika hrottaskapinn í heiminum; hin þrúgandi fjarlæga nálægð. Ég man nefnilega ekki betur en fólk hafi drepist í hrönnum úr öllum andskotanum árið 1995 sem og önnur ár. Ef ég man rétt var fyrsta alvöru vopnahléið á Norður-Írlandi rétt ársgamalt, það leið víst ekki mánuður milli Íraksstríða án loftárása, um alla Suður Ameríku börðust skæruliðar fyrir lýðræði og velferð – og þar fram eftir götunum endalaust.

Tíu árum seinna er árið 2005 og téður Eiríkur ritstýrir þriðju Afbók Nýhils, Af ljóðum. Í viðtali við Stúdentablaðið segir Haukur Már Helgason, ritstjóri fjórðu Afbókarinnar, Af skopi, að með henni fari þeir aftur á upphafsreit. Á svipaðar slóðir og fyrstu tvær bækur flokksins, Af stríði og Af okkur (um hnattvæðingu og þjóðernishyggju), voru á. Um þriðju bókina segir Haukur hins vegar:

Bók þrjú, Af ljóðum, er ópólitísk þannig séð. Það kom stutt Clinton-tímabil í eitt ár á milli þess sem maður hætti að heyra fréttir frá Írak daglega og fram að skopmyndamálinu. Þá kom hlé þar sem fólk gat látið eins og forseti Bandaríkjanna væri bara ennþá að spila á saxafón, sem var frekar kósí, og þá kom Af ljóðum út.

En á meðan Clinton spilaði á saxafóninn voru þjóðarmorð framin í Rúanda og Júgóslavía leystist upp í blóðugustu styrjöld Evrópu frá Heimsstyrjöldinni síðari. Fólk heldur áfram að drepast úr öllum andskotanum sama hvaða ártal er slegið inn.

Og hvað gera ljóðskáldin? Leita þau innávið eða útávið? Hvar eru svörin? Hvert er hlutverk þeirra? Skrifa þau ljóð eða skrifa þau um ljóð – eða skrifa þau um Draumalandið sem virðist vera að breytast í martröð?

Í Ljóðasmygl og skáldarán leitar Andri Snær inná við, inná hálendi Íslands sem var algjör óþarfi að heimsækja þá nema þegar veðrið væri gott og sólin kyssti skáldið. En ellefu árum seinna er gott veður ekki ennþá nóg enda hefur forspáin úr káputexta bókarinnar ræst: „Á miðhálendi Íslands hafa illvíg leynisamtök stundað neðanjarðartilraunir á atómljóðum.“ Ál eru atómljóð Alcoa, eitthvað sem var bara fyndið og absúrd 1995 en raunverulegt núna. Íslenska glæpasagan var enn sérviskuleg neðanjarðarbókmenntagrein, jafnvel meira utangarðs en ljóðið, og Arnaldur Indriðason ennþá að gagnrýna amerískar bíómyndir í Morgunblaðinu. Illvíg leynisamtök og vafasamir glæpamenn voru upp til hópa annars staðar. Eitthvað fyrir útlendinga til að yrkja um.

En Ísland er þó þrátt fyrir allt merkilega mikið eins og árið 1995. Í öllum aðalatriðum. Glæpatíðni er enn afskaplega lág og íslenskir glæpamenn flestir óttalegir kjánar, stríðin eru ennþá annars staðar og efnahagslega höfum við það ennþá betra en flestallir íbúar jarðarinnar. Það er aðallega stemningin sem er öðruvísi. Helsta breytingin virðist vera sú að með ákvörðun tveggja af æðstu mönnum þjóðarinnar vorum við skyndilega gerð þátttakendur í stríði. Íraksstríðið var orðið okkar stríð þótt ekki berðumst við í því. En jafnvel það er einföldun, við vorum þátttakendur í loftárásunum á Belgrad ekkert síður en í Íraksstríðinu. Það var einfaldlega ekki jafn óvinsæl aðgerð, ekki nógu óvinsæl til að vekja sofandi þjóð.

Sem sagt, við þurfum að vera með til að vera á móti? Líklega. Það þarf líka að vera í tísku að vera á móti. En alþjóðavæðingin gerir heiminn sífellt minni, það fer bráðum að verða ómögulegt að vera ekki með.

En hvar koma ljóðin inní þetta? Eiga þau að styrkja viðtekin gildi eða rífa þau niður? Í áðurnefndu viðtali segir Haukur að Af stríði hafi verið „... sett saman af óþoli fyrir einsleitri og óþarflega heimskulegri umræðu um málið í íslenskum fjölmiðlum ...“. En athugum þó að þetta stríð fjölluðu þeir um. Borgarastríðið í Rúanda fékk enga Afbók, ekki einu sinni Júgóslavíustríðið – þó ég minnist magnaðrar ljóðabókar Hrafns Jökulssonar um það stríð, bók sem fór ekki hátt enda virtust flest önnur skáld hafa verið í sleik við sólina um þetta leyti. Minnir mig.

Þar sem við erum sjaldnast beinir þátttakendur í stríði og þau eru einatt langt í burtu þá verður spurningin oftar og oftar: Er það okkur að kenna? Þarf það að vera okkur að kenna til að það komi okkur við? Eigum við að gera eitthvað í málinu? Er Írak ekki besta dæmið um einmitt það að máski er best að gera ekkert í málinu? Gera ljóðskáldin eitthvað í málinu?

Eiga þau að yrkja um stríðið eða sólina sem þau eru háð undir? Umrædd ljóðabók Andra Snæs má með ákveðinni einföldun kalla óð til sakleysisins, nýútkomið Draumaland hans er ákall til yfirvalda að skila okkur þessu sama sakleysi aftur. Sakleysisins þar sem hugmyndirnar fæðast, spillingin er veggur sem skyggir á alla nýja hugsun. Klemma ljóðskáldsins er sú að sakleysið er óafturkræft ef hann gleymir því í öllum stríðunum og óréttlætinu sem þarf að yrkja um – sólir mega ekki rykfalla ofan í skúffu. Að sama skapi er sakleysið falskt – og ekkert er sekara en falskt sakleysi – ef stríðunum er sópað ofan í skúffu og geislum sólarinnar leyft að blinda okkur fyrir grimmd heimsins. Ljóðskáldið þarf að kryfja og dýpka þá umræðu sem umkringir það, Íraksstríð, Kárahnjúkavirkjanir og danskar skrípamyndir, en það þarf ekki síður að finna það sem ekki er talað um, leita í skuggum og þar má finna bæði blóð og sólir. En sakleysinu má skáldið þó aldrei týna – en týnir því þó vafalítið og þarf eftir það eilíflega að leita að því. Vegna þess að andstaða sakleysisins er sekt. Við erum til dæmis ekki saklaus af Íraksstríðinu, þess vegna er okkur svo annt um að kryfja það til þess að finna aftur sakleysi lítillar smáþjóðar.

Oft eru ljóð ansi saklaus pólitík þannig séð. Það er enginn búinn að borga ljóðskáldinu undir borðið fyrir jákvæða umfjöllun, hagsmunir þeirra eru sjaldnast beintengdir umfjöllunarefninu, það heyrist sjaldan um ljóðskáld á flokksklafa. Um þau er rifist í vinahópum en ekki þingsölum. Þau eru sakleysi hins fullorðna manns, leið hans til lausnar. Enda er eina leiðin til þess að fullorðnast í alvörunni einmitt sú að endurheimta sakleysið, ekki að forherðast eins og okkur er oftast kennt. Í dómi Eiríks lýsir hann heimi bókarinnar svo: „Það er eins og veröldin sé ekki til. Eða réttara sagt, það er eins og mannkynssögunni hafi lokið, og hafði Andri það einmitt á orði.“ En auðvitað er heimurinn til og auðvitað lýkur mannkynssögunni ekki á meðan við erum á lífi. Hún fór bara fram hjá okkur um stund, við vorum of upptekin við að góna á naflann á okkur. En nú er tími til að hafa áhrif á hana, horfa uppí sólina og leyfa henni að skína í öll skúmaskotin sem við höfum hingað til látið óáreitt. En við megum þó aldrei gleyma þessu mikilvægasta, við þurfum að tryggja það að hún fái að halda áfram að skína.

Ásgeir H Ingólfsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page