1.7.06

Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist

Finnskættaða ljóðskáldið Anselm Hollo benti einhvern tímann á þá staðreynd að á sjötta áratugi síðustu aldar hafi verið hægt að kaupa næstum því allar ljóðabækur sem gefnar voru út í Bandaríkjunum í bókabúðum Lundúnaborgar. Í dag er vart hægt að kaupa allar ljóðabækur sem gefnar eru út á Íslandi í neinni einni bókabúð innanlands (og hvað þá erlendis). Margar ljóðabækur er ekki einu sinni hægt að fá í bókabúðum yfir höfuð. Útgefnar ljóðabækur í Bandaríkjunum á einu ári gætu vel fyllt Bókabúð Máls og menningar. Ekki bara hillurnar heldur alla búðina. Þegar við bætist að hver og ein útgefin ljóðabók er ekki líkleg til að seljast í meira en 100-1000 eintökum verður manni fljótlega ljóst að það að öðlast sæmileg yfirsýn yfir það sem er að „gerast“ í heimi ljóðsins er með öllu fyllilega og algerlega ómögulegt. Að kunna skil á svo miklu sem einu prómilli krefst gríðarlegs lesturs sem einungis er á færi manna sem ekki þurfa að vinna fyrir sér á nokkurn hátt, en hafa samt efni á að borga fyrir bækurnar, eru með menn í vinnu við að hafa uppi á þeim, tala allar helstu heimstungur og þurfa aldrei nokkurn tímann að stoppa til þess að segja skoðun sína á þeim. Við byrjum því þessa grein um alþjóðlega framúrstefnuljóðlist á því að gefa upp á bátinn alla von um að geta nokkurn tímann fjallað um alþjóðlega framúrstefnuljóðlist.

Af mér er, eins og kannski gefur að skilja, þungu fargi létt.

Leiðangur af þessu tagi hlýtur því að hefjast á einhvers konar útilokun; hér þarf ég að velja mér átt og reyna að halda mig við eina átt í einu. Ég hef afskaplega litlar forsendur til að byggja val mitt á. Ég veit ekki hvað ég hef lokað úti með því að velja þær áttir sem ég valdi. Ég reyni einfaldlega að fjalla um það sem fyrir tilviljun hefur ratað inn fyrir sjónsvið mitt og fengið mig til að hika, stoppa og skoða í kringum mig.


Brjálaði vísindamaðurinn: Christian Bök

Christian Bök er Kanadamaður sem heimsótti Ísland síðastliðið sumar á alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils og er höfundur einhverrar merkustu avant-garde ljóðabókar sem komið hefur út síðustu áratugi: Eunoia. Verkið Eunoia, sem tekur yfir fyrstu fimm kafla bókar með sama nafni og telur um 80 blaðsíður, er „einhljóða lipogram“
[1], þ.e. hver kafli verksins inniheldur einungis einn sérhljóða. Eunoia er stysta orðið í enskri tungu sem inniheldur alla fimm sérhljóðanna, og er hver kafli verksins helgaður einum sérhljóða. Fyrst A, þá E, I, O og loks U. „Textinn býr til sýsifosískt sjónarspil úr eigin erfiði, bæklar tungumál sitt viljandi til þess að sýna fram á að jafnvel við þetta ólíklega þvingaðar aðstæður, geti tungumálið enn tjáð kynlegar, ef ekki háleitar, hugsanir. Textinn fylgir auk þess mörgum undirreglum. Í öllum köflum skal vísað til ritlistarinnar. Í öllum köflum skal lýsa matarveislu, lostafullu svalli, svipmynd úr sveitalífi, og sjóferð. Í öllum setningum skal lögð áhersla á innrím með því að notast við setningarfræðileg líkindi. Í textanum skal stefnt að því að nota öll orð orðabókarinnar, sem nota einn sérhljóða, vísað skal til að minnsta kosti 98% þeirra orða sem eiga við (þó fáein orð hafi ekki reynst nothæf, þrátt fyrir að reynt hafi verið að finna þeim stað: parallax, belvedere, gingivitis, monochord, og tumulus). Í textanum skal leitast við að lágmarka endurtekningu orða (svo að, ef allt væri eins og best yrði á kosið, hvert orð birtist aðeins einu sinni). Bókstafurinn Y er ekki notaður.“[2]

Christian Bök er undir miklum áhrifum frá Oulipo hreyfingunni, en gengur þó svo langt að segja að þeim hafi nánast mistekist í sínum tilraunum. Eunoia er ætlað að sýna að ekki einungis sé tungumálið nógu voldugt verkfæri til að hægt sé að nota það til tjáningar við erfiðustu formskilyrði, líkt og Oulipo menn gerðu, heldur sé beinlínis hægt að nota það til himneskrar tjáningar. „ Þegar menn grundvalla starf sitt á takmörkununum virðast þeir oft gleyma öðrum bókmenntalegum umhugsunarefnum (eins og hljómfegurð, merkingu, o.s.frv.) þannig að árangur slíkra tilrauna minnir helst á framkvæmd vanaverks (eins og að skrifa 14 línur, bundnar og rímaðar, og kalla það sonnettu, jafnvel þó ljóðið skorti öll ljóðræn tilþrif). Oft nýta verkin svo illa möguleika sína, að manni þykir þau ekki vitund áhugaverðari en klaufalega framkvæmd töfrabrögð. Hópurinn virðist þar að auki alls óáhugasamur um að kanna pólitíska möguleika þess að þvinga sig til að skrifa undir hömlum, til þess að afhjúpa hugmyndafræðilega undirstöðu slíkrar samræðu.“[3]
Bök dugar ekki að geta búið til skiljanlegar setningar, þær þurfa einnig að lúta hefðbundnari kröfum skáldskapar um eiginlega fegurð og ná sams konar eða meiri tengslum við hið háleita. Verkefnið, sem var sjö ár í smíðum, er skiljanlega ekki það auðveldasta og í það er vísað í bókinni. Sem dæmi má nefna að fyrsti kafli verksins hefst á orðunum „Awkward grammar appals a craftsman“, og I-kaflinn á orðunum „Writing is inhibiting“. Þar af fóru margir mánuðir einfaldlega í kortlagningu orða, að finna þau orð orðabókarinnar sem innihalda einungis einn sérhljóða og rannsaka í þaula hvað væri hægt að skrifa við þessi skilyrði, upp á hvað hver sérhljóði býður. Til að herða enn frekar ólina valdi Bök að skilgreina ákveðna þræði sem hann yrði að vefa í gegnum verkið allt, þemu sem yrðu að koma við sögu í hverjum kafla. Í öllum köflum yrði að vísa til ritlistarinnar, lýsa matarveislu, lostafullu svalli, svipmynd af sveitalífi og sjóferð, eins og áður segir. Leggja yrði áherslu á innrím, og stefnt skyldi að því að nota öll orð orðabókarinnar sem innihalda einn sérhljóða og aldrei færri en 98% þeirra.

Bök sleppir stafnum Y, og reyndar Ö líka, sem finnst auðvitað ekki í enska stafrófinu þó það sé í nafninu hans.[4]

„Ég hélt fyrirfram að textinn yrði illskiljanlegur, en málfræðilega réttur, og því kom það mér verulega á óvart að uppgötva fjölmargar óhuggulegar tilviljanir sem gáfu til kynna að ég væri haldinn paranoju. Mér fór að þykja sem tungumálið væri eitt allsherjar samsæri, næstum því eins og þessum orðum væri ætlað að vera raðað upp, nákvæmlega svona, að þau ættu ekkert með að vera annars staðar en þarna, þar sem hver sérhljóði sýndi sinn eigin sjálfstæða persónuleika: hið hofmannlega A, hið harmræna E, hið lýríska I, hið spaugsama O, hið klúra U.“[5]

Hið hoffmanlega A: „Hassan can watch cancan gals cha-cha-cha, as brass bands blat jazz razzmatazz (what a class act). Rap fans at a bandstand can watch jazzbands that scat a waltz and a samba. Fans clap as a fat-cat jazzmann and a bad-ass bassman blab gangsta rap – a gangland fad that attacks what Brahms and Franck call art: A Balkan czardas, a Tartar tandava (sarabands that can charm a saltant chap at a danza).“

Hið harmræna E: „Whenever Helen sleeps, her fevered rest meekens her; hence she re-emerges enfeebled – her strength, expended; her reserves, depleted. The extended fevers, when severe, entrench her enfeeblement. She clenches her teeth, then exerts herself; nevertheless she feels strengthless (her meek self rendered even meeker).“

Hið lýríska I: „Writing is inhibiting. Sighing, I sit, scribbling in ink this pidgin script. I sing with nihilistic witticism, disciplining signs with trifling gimmicks – impish hijinks which highlight stick sigils. Isn’t it glib? Isn’t it chic? I fit childish insights within rigid limits, writing schtick which might instill priggish misgivings in critics blind with hindsight.“

Hið spaugsama O: „Folks from Kokomo do lots of shrooms (not snow, not blow – no form of hops). Folks who long to prolong moods of torpor do Zoloft or nod off on two drops of chloroform. Goofs who goof off go off to poolrooms to jolt down lots of good strong bock from Coors or Stroh.”

Hið klúra U: „Ubu sucks Ruth’s cunt; Ubu cuffs Ruth’s butt. Ubu stuffs Ruth’s bum (such fun). Ubu pumps Lulu’s plush, sunburnt tush. Ubu humps Lulu’s plump, upthrust rump. Ubu ruts. Ubu huffs; Ubu puffs. Ubu blurts: push, push. Ubu thrusts. Ubu bucks. Cum spurts. Ubu cums.“

Verkið er án nokkurs vafa það stórbrotnasta sem komið hefur fram í framúrstefnuljóðlist í heiminum í árafjöld, og það þarf enginn að efast um það sem les bókina að Bök nær öllum þeim markmiðum sem hann stefndi að, og ekki er að sjá að gerðar hafi verið nokkrar málamiðlanir með eitt eða neitt. Auk þess sem kalla mætti hreint gildi verksins, sem er mælikvarðinn þar sem verkið er metið á sama hátt og önnur verk, sambærileg eða ósambærileg, þá öðlast hún augljóslega líka gríðarlegt gildi fyrir það þrekvirki sem hún er. Með Eunoia stekkur Bök lengra, hleypur hraðar, flýgur hærra og skransar glannalegar en aðrir höfundar hafa gert í ... tja á maður að þora að segja hingað til?


Óskapandi skrif: Kenneth Goldsmith

„Ég ætla að eyða 39. aldursári mínu í ósköpunargáfuna. Föstudaginn 1. september árið 2000 hóf ég að endurvélrita blað dagsins af New York Times orð fyrir orð, staf fyrir staf, frá efra vinstra horni niður að neðra hægri horninu, blaðsíðu fyrir blaðsíðu. Ég vonast til þess að áður en ég verði fertugur hafi ég náð að eyða allri sköpunargáfu úr sjálfum mér.“
[6]

Svo hljóðar káputexti bókarinnar Day eftir bandaríska ljóðskáldið Kenneth Goldsmith. Bókin er 836 blaðsíður og verkið tók Kenneth Goldsmith sex mánuði í fullu starfi. Í bókinni tekur hann ekkert tillit til þess hvað hann er að skrifa upp, hvort það er blaðsíðunúmer, Vodkaauglýsing, eða verðbréfavísitölur eða þess hvernig blaðið er dálkaskipt.
Þetta ár í lífi Kenneths var þó ekki það fyrsta sem hann eyddi í ósköpunargáfuna, þó kannski sé hún fullkomnasta dæmið um þá rækt sem hann lagði við sköpunarleysi sitt, það sem Kenneth kallar „óskapandi skrif“. Fyrsta bók hans af þessu tagi kom út árið 1996. No. 111 2.7.93-10.20.96 er samansafn setninga sem hann safnaði saman sem enda allar á einhvers konar ör/a/er/ur hljóði. Annar kafli hefst sem dæmi á orðunum „A door, à la, a pear, a peer, a rear, a ware“, og inniheldur eingöngu tveggja atkvæða stæður. Stæðurnar lengjast svo eftir því sem líður á bókina og er síðasti kaflinn 7.228 atkvæða smásaga eftir D.H. Lawrence, sem nefnist The Rocking Horse Winner og endar einmitt á orðinu „winner“.

Í kjölfarið á þessari bók kom Fidget sem er tilraun til þess að lýsa hverri einustu hreyfingu skáldsins á 13 klukkustunda tímabili:

Augnlok opnast. Tunga lepur efri vörina frá vinstri til hægri og fylgir boga varanna. Gleypi. Læsi kjálkum. Gnísti. Teygi. Gleypi. Höfuð lyftist. Beygður hægri handleggur sópar púða undir hnakka. Réttist úr handlegg.
[7]

Og svo framvegis. Reyndar er einnig hægt að sjá bókina á internetinu þar sem hún er keyrð á applet-tækni; á meðan klukkan telur niður þjóta setningar sem lýsa hreyfingum framhjá, skjótast fram og hverfa aftur.
[8]
Í Soliloquy skrifar Kenneth svo niður eftir upptöku allt sem hann segir í eina viku:

Hæ! Öh, tja, ég var með útvarpsþáttinn minn í gær. Já, ég er bara að vakna. Nei þú vaktir mig ekki. Ég er klæddur að drekka kaffi. En ég hef ekki talað enn í dag. Þetta eru fyrstu orðin mín. Hey, já, við erum að fara að fá okkur kvöldmát á mánudagskvöldið. Umm, nú er bara spurning hvar og hvenær. Og og við erum að taka vin þinn með líka. Ókei? Svo við blæðum vinsamlegast. Þú tekur þátt með því að vera heiðraður gestur okkar þakka þér fyrir. Ekki meir tölum ekki meir um þetta plís. Ókei? Það er það félagi.
[9]

Öllu er teflt fram greinarskilalaust, án svara og samhengis. Sagan segir svo að Kenneth hafi komið sér í kræsileg vandræði hjá vinum sínum sem áttu að sögn erfitt með að sætta sig við hversu duglegur hann var að baktala allt og alla.

Næst ber að nefna bókina Head citations sem er samansafn af 800 númeruðum brotum úr misheyrðum lagatextum:

1. This is the dawning of the age of malaria.
2. Another one fights the dust.
3. Eyeing little girls with padded pants.
4. Teenage spacemen we're all spacemen.
5. A gay pair of guys put up a parking lot.


Head citations – sem heitir eftir misheyrða brotinu „She’s giving me head citations“ úr Good vibrations með Beach Boys (og hljómar „she’s giving me excitations“ í orginalnum) – er sjálfsagt lang notendavænsta bók Kenneths, og reyndar sísta bókin líka að mínu mati, og lestur hennar minnir helst á einhverja létt misheppnaða brandaraheimasíðu. Í krafti lengdar sinnar verður brandarinn – sem er auðvitað bara einn, þó hann birtist í mörgum myndum – alveg stórkostlega þreytandi, og að einhverju leyti má segja að bókin sé bautasteinn algerlega óþolandi húmors, eins og leiðinlegur frændi sem fæst ekki til að halda kjafti eða fara heim til sín.

Næst á eftir Head citations kemur áðurnefnd Day, og síðasta bók Kenneths, Weather, kom út í fyrra og er einfaldlega uppskrifuð 60 sekúndna veðurspá á útvarpsstöðinni 1010 WINS í eitt ár. Henni er skipt niður í vetur, vor, sumar og haust, og þegar best lætur ná lýsingarnar stórkostlega ljóðrænum hæðum:

Og við sjáum dálitla sólargeisla skjótast út undan skýjunum nú seinnipartinn. Í heildina tekið ekki slakur eftirmiðdagur, nokkrir rokblettir, reyndar við JFK eru vindar, uh, norðanátt, sautján mílur á klukkustund upp í tuttugu og tvær á klukkustund í rokunum núna. Veðrið verður grimmara í fyrramálið, nú, skýjin aukast á morgun, það gerist á undan stormi sem færir okkur sex til tólf tommur af snjó síðar annað kvöld og fram á daginn mánudag.
[10]

Ljóðlist Kenneths Goldsmith er sérkennilega persónuleg í ljósi þeirra aðferða sem hann beitir, og fjarlæg nærvera höfundarins sem milliliðar er beinlínis þrúgandi. Sérkennilegastur er lestur Soliloquy, því að á sama tíma og lesturinn kveikir tilfinningu fyrir kæruleysislegri og hversdagslegri nærveru þá er verkið sjálft mjög þurrt textaverk sem gerir það að verkum að lesturinn verður merkilega mótsagnakenndur. Reyndar eru þeir sjálfsagt afskaplega fáir sem hafa lesið heila bók eftir Goldsmith, því þó bækurnar hafi reyndar notið gríðarlegra vinsælda þá gera þær ekki nokkra kröfu um það að vera lesnar ofan í kjölinn – sem svo auðvitað aftur ýtir undir annarlega lestrarreynsluna. Sjálfur segist Kenneth vera leiðinlegasti höfundur sem nokkurn tímann hefur verið uppi. „Ef það væru haldnir Ólympíuleikar í öfgakenndum leiðindum þá fengi ég gullið. Það er ómögulegt að lesa bækur mínar. Þegar ég les prófarkir bóka minna, þá satt best að segja sofna ég ítrekað. Það er algerlega óþarfi að lesa bækur mínar til að átta sig á þeim, það er nóg að fá nasasjón af hugmyndunum“, sagði Kenneth í ritgerð sinni Being boring
[11]. Reyndar fer því fjarri að það sé það sama að heyra hugmyndirnar og að lesa bækurnar, ljóðlist Kenneths er svo sannarlega læsileg þó hún sé þreytandi og þó verkin séu svo gríðarlöng og einhæf að maður þyrfti að vera hálfgeðveikur að ætla sér að lesa þau spjaldanna á milli.

Kenneth hefur sjálfur bent á, í ritgerðinni sem nefnd er hér að ofan, að stór hluti alls þess sem fólk gerir í seinni tíð felist í því að flytja upplýsingar frá einum stað til annars. Þetta er líklega augljósast í tölvubransanum – sem snertir líklega líf okkar flestra, þetta heitir upplýsingatækni og við stundum hana öll, copy/paste er nánast hamrað á ennin á okkur. Kenneth Goldsmith gerir þennan verknað að listformi sínu, eða nánar tiltekið að ljóðformi sínu. Í því sambandi vitnar hann í konseptlistamanninn Douglas Huebler sem sagði: „Heimurinn er fullur af hlutum, meira og minna áhugaverðum; ég vil ekki bæta neinum við“ og umorðar svo: „Heimurinn er fullur af textum, meira að minna áhugaverðum; ég vil ekki bæta neinum við.“[12] Þá bendir hann á að í heimi sem er jafn fullur af texta og raun ber vitni – það er vart að finna nokkurn hlut í heiminum lengur sem ekki er merktur einhverjum texta, á botni kaffibollans stendur Rastal, á glasinu stendur Viking, á sófanum er Ikea-miði, á sígarettupakkanum stendur Reykingar drepa – sé kominn tími til þess að við reynum að koma höndum yfir eitthvað af honum, reynum að skilja allan þennan texta, sjá hann sem eitthvað meira en bara sjálfsagðan.

„Ég hef breyst úr rithöfundi í upplýsingastjórnanda, stórkostlega fær um að herma eftir, skipuleggja, spegla, safna saman, geyma, endurprenta, ræna, rupla og flytja til. Ég hef orðið að koma mér upp alveg nýjum hæfileikum: Ég er vélritunarmeistari, fullkominn kópípeistari, hamhleypa í ljóskennslum stafa[13]. Ég elska ekkert meira en að umrita; finnst fátt jafn ánægjulegt og skipuleg flokkun“, segir enn fremur í ritgerðinni.

Verk Goldsmiths eru að miklu leyti konseptlistaverk, en þau teygja sig út fyrir þann ramma og tengjast einnig Oulipo-hreyfingunni[14], en ljóðskáld hennar unnu texta eftir ósveigjanlegum reglum; þau eru skyld Flúxus-verkum þannig að að miklu leyti snúast þau um Kenneth sjálfan; þau minna á situationisma að því leyti til að þau þvælast um fyrirfram tilbúna hugmyndaheima; af þeim er meira en lítill dada-fnykur tilgangsleysis og fáránleika; bækurnar eru konkret-ljóð hreinlega í krafti stærðar sinnar og framsetning Goldsmiths á þeim á sýningum og á netinu eru oft hrein konkret-framsetning. Sem dæmi má nefna fyrrgreinda netframsetningu á Fidget og opnunarsýningu Soliloquy þar sem höfundurinn hafði veggfóðrað gallerí með texta bókarinnar.

Þar sem að textarnir eiga sér margvíslega og ólíka uppruna er þá eðlilega í þessum einbeittu einbeitingarleysisskrifum að finna margan stíl, allt í senn hreinræktaða rómantík og himneska fegurð, kaldranalegan realisma og dreymandi fantasíu.


Ljóðavélin: Leevi Lehto

Leevi Lehto er finnskt ljóðskáld og einn þeirra sem hafa tekið leitarvélina Google í þjónustu sína. Leevi bjó til forrit
[15] sem býr til Google-collage ljóð fyrir hvern þann sem hefur döngun til að hlaða orðum inn í vélina. Hægt er að velja nokkrar stillingar, leitartungumál, tíðni línuskiptinga, hversu margar síður á að nota, hvaða orðum á að sleppa úr leitinni og hvort eigi að taka með algengustu orðin sem Google leitar almennt ekki eftir (s.s. the, a, and o.s.frv.), svo ýtir maður einfaldlega á „Get poem“ og upp á skjáinn kemur ljóðið sem maður nennti ekki að skrifa. Einnig er hægt að láta vélina troða ljóðunum inn í form eins og sonnettur og sestínur, og fleiri. Þá safnar Leevi líka ljóðum sem aðrir gera með vélinni og geymir eins konar best-of safn á vefnum hjá sér, þar sem finna má ljóð á ýmsum tungumálum og eftir bæði algerlega óþekkt skáld sem og heimsþekkt nöfn innan avant-garde ljóðaheimsins.

Líkt og Kenneth Goldsmith hefur Leevi Lehto þurft að koma sér upp algerlega nýjum hæfileikum sem hingað til hafa haft lítið með ljóðlist að gera. Leevi Lehto hefur neyðst til þess að læra forritunarmál, og ljóðlist hans – að svo miklu leyti sem viðkemur Google-vélinni – lýsir sér ekki eingöngu í sýnilegri textasmíði. Tungumál ljóðsins er forritunarmál sem lesandinn sér aldrei. Einungis niðurstaðan, one-size-fits-all ljóðið sem kemur út um óæðri enda vélarinnar er sýnilegt lesandanum.

Í hefðbundnu bókmenntaverki ferðast texti frá höfundi til verks og þaðan til lesanda, sem svo túlkar verkið eftir sínu höfði. Við „lestur“ Google-ljóðavélarinnar er upprunalega verkið ólæsilegt flestum, en túlkun þess, sjálft viðmótið er túlkað af lesanda sem bætir við hugsunum sínum með því að fyrirskipa leitarorð sem svo búa til ljóð sem er ekki beinlínis hægt að segja að sé eftir þann sem setti inn leitarorðin þó hann eigi vissulega hluta af forsendunum sem bjuggu það til. Túlkunarferlið verður því flóknara og hlutur lesandans, þess sem túlkar, er áhrifaríkari og eignarhald hans þar af leiðandi meira; hlutdeild hans í upplifun verksins verður meiri. Nú ber þess auðvitað að geta að við lestur hefðbundnari ljóða, sérílagi módernískra texta og tilraunatexta, er hlutdeild lesandans auðvitað líka töluverð. Lesandanum er gert að túlka hvað nákvæmlega það er sem gerir tímann eins og vatnið, eða mannshöfuð þungt, og slíkar túlkanir geta í mörgum tilvikum verið æði misjafnar frá manni til manns.

Einhver sagði að það væri sama hvert maður færi maður tæki alltaf rassgatið á sér með, og rétt eins og maður hlýtur að máta rassgatið á sér við hin þungu mannshöfuð módernismans er líklegt að ólíkir notendur máti sig á ólíkan máta við Google-ljóðavélina, mati hana á ólíkum hugsunum líkt og þeir hafa áður matað ljóð af hugsunum sínum. En Google-ljóðavélinni líkur ekki þar heldur kemur annað verk á eftir sjálfu viðmótinu, sem svo aftur krefst túlkunar, krefst þess að lesandinn máti rassgatið á sér við það hreint upp á nýtt.

Sem dæmi má nefna ljóð sem Leevi Lehto gerði sjálfur, þar sem hann hefur matað vélina á hinum frægu orðum T.S. Eliots: „April is the cruelest month“, valið formið ensk sonnetta og fengið útkomuna:

in sequence for me.
It's wonderful
stirring. Dull roots with spring
is the cruelest month, not deceitful
TS Eliot once said. Eliot's baffling

warm nights and maketh the lingering
in T-shirts, get out the bikes and in-line
All this happy crap about the coming
by Elias. April 2000 was probably one

Gamal Nkrumah. - machitodog: and one
Cruelest Month So, the first Monday
hate the month of May. It's hot one
out of the dead land, mixing April may

T-shirts, get out the bikes and in-line
Month. by Elias. April 2000 was probably one
[16]

Vélin er svo þeim eiginleikum gædd, vegna þess að hún leitar uppi setningar með hjálp Google, að sé sömu orðum dælt í hana núna verður útkoman allt önnur enda er netið síbreytilegt og þar af leiðandi eru leitarniðurstöðurnar, efniviður ljóðanna, síbreytilegar. Þannig er eignarhald textans á floti, að hluta forritun Lehtos, að hluta orðin sem vélin er mötuð á, að hluta forritun Google-leitarvélarinnar, að hluta texti internetsins og að hluta sekúndan sem ýtt er á Get poem.


Hin ömurlega ljóðlist: Flarf

Poetry.com er fyrirtæki sem heldur ljóðasamkeppnir og auglýsir að hundruðir þúsunda bandaríkjadala séu veittir í verðlaun á ári hverju. Ljóðin mega vera allt að 20 línur og í hverri línu mega vera allt að 60 slög. Þeir sem senda ljóð inn í keppnina fá fljótlega bréf frá fyrirtækinu þar sem þeim er boðið að fá ódauðlega snilld sína birta í bók, þeim að kostnaðarlausu, sem þeim er svo frjálst að kaupa fyrir morð fjár. Og já, allir sem taka þátt fá þetta boð. Síðan eru prentaðir óhóflega risavaxnir hlunkar með litlu letri fyrir þá sem segja já, og hlunkarnir eru svo seldir í nokkrum þúsundum eintaka til hégómagjörnu skáldanna og grunlausra ættingja þeirra.

Bandaríska ljóðskáldið Gary Sullivan ákvað einu sinni að athuga hvort það væri hægt að yrkja ljóð sem væri svo ömurlegt að það hreinlega fengist ekki birt. Ljóð hans Mm-hmm hefur síðan öðlast nokkra frægð innan hins enskumælandi avant-garde ljóðheims:

Yeah, mm-hmm, it's true
big birds make
big doo! I got fire inside
my "huppa"-chimp(TM)
gonna be agreessive, greasy aw yeah god
wanna DOOT! DOOT!
Pffffffffffffffffffffffffft! hey!
oooh yeah baby gonna shake & bake then take
AWWWWWL your monee, honee (tee hee)
uggah duggah buggah biggah buggah muggah
hey! hey! you stoopid Mick! get
off the paddy field and git
me some chocolate Quik
put a Q-tip in it and stir it up sick
pocka-mocka-chocka-locka-DING DONG
fuck! shit! piss! oh it's so sad that
syndrome what's it called tourette's
make me HAI-EE! shout out loud
Cuz I love thee. Thank you God, for listening!



Það leið ekki á löngu þar til Gary fékk boð um að ljóð hans yrði prentað öllum komandi kynslóðum til stórkostlegrar uppljómunar. „Ljóð þitt, Gary, hleypir ímyndunaraflinu á flug og veitir lesandanum ferska og einstaka sýn á lífið“, stóð meðal annars í bréfinu. Gary deildi ljóðinu með fleiri ljóðskáldum á póstlistanum Subpoetics, hvar hann nefndi stíl ljóðsins Flarf og fljótlega fóru sum hinna skáldanna að senda inn sínar eigin tilraunir til flarfheita. Einn flarfista, K. Silem Mohammed, hefur lýst upphaflegri fagurfræði hópsins þannig: „Meðvitað ólögulegt innihald, form, ólöguleg stafsetning og hugsun almennt, frjálslega stolið úr netspjallsblaðri og póstfarstexta, oft í þeim tilgangi að skapa lærða blöndu hins andstyggilega, hins væmna og hins barnalega.“

Gary var fyrstur til að prófa að lesa upp Flarf-ljóð, þar sem hann skaut því inn í hefðbundinn upplestur hjá sér. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, áheyrendum fannst ljóðið stórkostlegt. Þetta varð til þess að Gary Sullivan fór að velta fyrir sér „gæðum“ almennt, og hvað það væri sem ylli góðum viðbrögðum við flarfi.

Flarf-skáldin héldu áfram að skrifa og lesa upp flarf-ljóð næstu mánuðina, en eftir ellefta september fækkaði ljóðunum skyndilega mikið og þegar þau byrjuðu aftur að takast á við flarfið var það skyndilega fullt af pólitísku lingói tímans: Washingtonísku. Út úr því komu verk eins og ...Let’s rebuild the Twin Towers in NY... on your pizza[17] eftir Katie Degenesh, og fleiri af sama meiði. [þýðingu á ljóðinu má finna á tregawöttunum: hér]

En jafnvel án tengingar við samtímastjórnmál (eða altímastjórnmál) á borð við ellefta september og þá orwellísku tegund tungumálavírussins sem stríðið gegn hryðjuverkum (sem heitir víst nú „stríðið langa“) hefur kallað fram í sviðsljósið er ljóst að verklag flarfista er hápólitísk árás á tungumálið. Flarfið á bókstaflega heima handan góðs og ills, og kemst þangað með því að snúa upp á hin viðteknu gildi án þess að snúa sér að afstöðuleysi, með því hreinlega að velja sér allt það asnalegasta í veröldinni og sækja fram með einkennilegri blöndu kaldhæðinnar einlægni.

Árásin er merkilegt nokk – annað en t.d. innrásin í Írak – ekki „preemptive“, ekki varnarárás án tilefnis. Tungumálið réðst fyrst á mannfólkið, og flarfistarnir voru framvarðarsveit fáránleikans sem fleygði fyrst handsprengjunum og svo sjálfum sér ofan á þær. Við síðustu aldamót hafði markaðurinn innlimað allt andspyrnutungumál í sjálft sig og gert úr því auglýsingatexta – þar sem frelsi snýst ekki síst um að fá að borga fyrir að tala í síma.

Einn flarfista, Mike Magee hefur bent á eftirfarandi dæmi um árás tungumálsins á þá sem tala það: Á áttunda áratugnum upplýsti tónlistarmaðurinn Gill Scott Heron heimsbyggðina um að byltingunni yrði ekki sjónvarpað, og rappaði „The revolution will not be televised/the revolution will be live“. Árið 1995 sneri „róttæki“ rapparinn KRS One svo upp á textann í Nike-auglýsingu og rappaði lokalínurnar: „The revolution is basketball/and basketball is the truth“. Þannig hefur mannskepnan mátt horfa á eftir hugsunum sínum í gin skepnunnar, þar sem orðið verður til og sé það metið nokkurs verður tilveru þess breytt í fé – útúrsnúningurinn verður alger.

Bylting er orð sem er vart notað í dag utan auglýsinga, það hljómar kjánalega í öllu alvarlegu samhengi enda hefur því verið rænt. Það er ekki lengur mannskepnunnar heldur markaðarins. Tom Waits samdi ádeilu á auglýsingaslagorð með heitinu Step right up. Texti lagsins er samansull af kjánalegum auglýsingaslagorðum á borð við: „ Follow these easy assembly instructions/it never needs ironing/ Well it takes weights off hips, bust/ thighs, chin, midriff/ Gives you dandruff, and it finds you a job/ it is a job“ og svo framvegis og svo framvegis. Og hvað gerðist? Snakkfyrirtækið Doritos stal laginu og gerði úr því auglýsingu. Dæmin eru óteljandi, og það kannast flestir við þau; það er óþarfi að telja þau upp.

Flarf-ljóðlistin er eðlilegt viðbragð við þessu. Í aðra röndina stelur hún klisjukenndu málfari auglýsinganna og í hina röndina býr hún til hugsanir sem eru markaðinum nær algerlega ónothæfar sökum þess hversu lausar þær eru við alla mögulega fágun, þetta er klunnaleg vitleysa sem er illnýtanleg til flúrs.

Engu að síður verður að viðurkennast að það er eitthvað heillandi við mikið af flarf-verkunum. Þau sameina einhvern skyndibitafíling við fílinginn að fá sér staðgóðan morgunverð. Þau eru á einn veg algert drasl og á annan himnesk, og á þann þriðja sneiða þau hjá hvorutveggja, eru handan góðs og ills og ekki tæk til venjulegrar túlkunar.
Reyndar verður vart horft framhjá einu, því sorglegasta af sorglegu. Það má nefnilega nokkurn veginn bóka það að nái flarfið einn daginn vinsældum – verði það hið nýja „hip“; hin nýja BYLTING – verða þau komin í auglýsingar samdægurs. Og hvað gerum við þá?

Eiríkur Örn Norðdahl
Greinin birtist upphaflega í Tímariti Máls og menningar 67. árgangur 2. hefti 2006



[1] Nokkrar athugasemdir við fallega hugsun; Christian Bök; Af ljóðum, Nýhil (2005).
[2] Nokkrar athugasemdir við fallega hugsun; Christian Bök; Af ljóðum, Nýhil (2005).
[3] Nokkrar athugasemdir við fallega hugsun; Christian Bök; Af ljóðum, Nýhil (2005).
[4] Christian Bök fæddist reyndar ekki með þetta ö. Skírnarnafn hans er Christian Book, en eftir að hafa mátt þola háðsglósur í árafjöld fyrir að heita sama nafni og biblían, breytti hann eftirnafninu í Bök.
[5] Nokkrar athugasemdir við fallega hugsun; Christian Bök; Af ljóðum, Nýhil (2005).
[6] Bakkáputexti bókarinnar Day eftir Kenneth Goldsmith.
[7] „ Eyelids open. Tongue runs across upper lip moving from left side of mouth to right following arc of lip. Swallow. Jaws clench. Grind. Stretch. Swallow. Head lifts. Bent right arm brushes pillow into back of head. Arm straightens.“ Úr Fidget, eftir Kenneth Goldsmith.
[8] http://www.chbooks.com/online/fidget/applet.html
[9] „Hi! Uh, well, I had my radio show last night. Yes, I’m just waking up. No you did not wake me. I’m dressed I’m drinking coffee. But I haven’t spoken yet today. These are the first words I’m uttering. Hey, so definitely, we’re having dinner Monday night. Um, now the question is where and when. And and we’re taking your friend out also. OK? So it’s our treat please. You’re going to participate by being our our distinguished guests thank you. No more no more said about this please, OK? It’s it, pal.“ Úr Soliloquy eftir Kenneth Goldsmith.
[10] „And we see a little sunshine popping out of the clouds this afternoon. Overall not that bad of an afternoon, a couple of spots a little windy, actually at JFK winds, uh, north at seventeen miles an hour, gusting to twenty-two miles an hour right now. We are going to see some inclement weather as we go through the morning, now, clouds do increase tomorrow, that's in advance of a storm that will bring six to twelve inches of snow later tomorrow night, and into the day Monday.“ Úr Weather eftir Kenneth Goldsmith.
[11] http://epc.buffalo.edu/authors/goldsmith/goldsmith_boring.html
[12] http://epc.buffalo.edu/authors/goldsmith/goldsmith_boring.html
[13] „OCR demon“. OCR er Optical Character Recognition, eða ljóskennsl stafa á íslensku, sem er sú list að nota tölvutækni til að skanna inn stafi í myndformi og breyta þeim í venjulegan tölvutexta.
[14] Ouvroir de Littérature Potentielle. „Vinnusmiðja með möguleika bókmenntanna“. Framúrstefnuhreyfing sem innihélt meðal annars höfundana Georges Perec og Raymond Queneau.
[15] http://www.leevilehto.net/google/google.asp
[16] http://www.leevilehto.net/google/anthology.asp?poem=lehto
[17] Birtist í 5. tölublaði Arras. www.arras.net.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page