5.9.06

Alljóðlega þjóðahátíðin

Það er fleira að gerast hjá Nýhil en áðurnefnt ljóðapartí, sem haldið verður á fimmtudag í Þjóðleikhúskjallaranum. Tregawöttin hafa haft af því spurnir að Hin alljóðlega þjóðahátíð Nýhils, sem haldin var við mikinn fögnuð landsmanna um verslunarmannahelgi 2005, verði endurtekin í nóvember. Samkvæmt heimildum Tregawattanna munu enn fleiri erlend ljóðskáld mæta að þessu sinni og hefur fengist staðfest að m.a. muni þau Anna Hallberg og Christian Bök, sem mættu á hátíðina í fyrra, koma aftur. Þá hafa nöfn eins og Kenneth Goldsmith, Leevi Lehto, Angela Rawlings, Derek Beaulieu, Jörgen Gassilewski, Gunnar Wærness verið nefnd, og ku menn vera að skoða hvort hægt verði að fá Cia Rinne og Lars Mikael Raatamaa að auki, en fjárhagurinn mun vera þröngur að nýhilískum sið þó óstaðfestar heimildir hermi að Landsbankinn muni styrkja hátíðina myndarlega.

Á Tregawöttunum hefur áður birst þýðing á ljóði eftir Angelu Rawlings, Þvagleki. Þá hafa einnig birst tvö myndljóð eftir Derek Beaulieu. Áhugasömum um Christian Bök, Kenneth Goldsmith og Leevi Lehto má benda á greinina Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist eftir Eirík Örn Norðdahl sem birtist í Tímariti Máls og menningar fyrir skemmstu. Tregawöttin munu gera sér far um að reyna að kynna hin erlendu skáld fyrir landsmönnum áður en hátíðin verður haldin. Þá ber einnig að geta þess að að sjálfsögðu mun fjöldinn allur af íslenskum ljóðskáldum, tónlistarmönnum, bókmenntafræðingum og öðrum listamönnum taka þátt í hátíðinni, og má benda áhugasömum um þátttöku á að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page