1.11.06

Þátttakendur í alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils

Kæru lesendur, nú styttist í alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils, en hún verður haldin dagana 10. og 11. nóvember næstkomandi, sem eru föstudagur og laugardagur eftir viku. Hátíðin verður haldin á tveimur stöðum, annars vegar verður málþing og upplestur í Norræna húsinu á laugardeginum, þar sem derek beaulieu mun einnig sýna myndljóð sín, og hins vegar verða tvö ljóðapartí á Stúdentakjallaranum, föstudags- og laugardagskvöld. Líkt og jafnan verður fjöldinn allur af íslenskum ljóðskáldum á hátíðinni, en auk þess verða flutt inn tíu erlend ljóðskáld, þau Kenneth Goldsmith (USA), Christian Bök (CAN), Anna Hallberg (SVE), derek beaulieu (CAN), Jane Thompson (CAN), Gunnar Wærness (NOR), Jörgen Gassilewski (SVE), Katie Degentesh (USA), Leevi Lehto (FIN) og Matti Pentikainen (FIN), en sá síðastnefndi er auk þess að vera ljóðskáld þekktur fyrir að vera meðlimur hljómsveitarinnar Ceebrolistics. Tvö áðurnefndra skálda, þau Christian Bök og Anna Hallberg, voru líka gestir hátíðarinnar árið 2005. Þá má nefna að bandaríska ljóðskáldið Jesse Ball, sem fluttur var inn í fyrra, tekur nú þátt sem fullgildur meðlimur Nýhils, en hann er búsettur hér á landi um þessar mundir. Fullur listi yfir þátttakendur verður kynntur á næstum dögum, en líkt og venjulega eru fleiri en ljóðskáld sem taka þátt og hefur verið staðfest að sveitirnar Reykjavík! og Skakkamanage muni leika í ljóðapartíi hvor á sínu kvöldi.

Frekar má lesa um erlendu þátttakendurna með því að smella hér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Refresh Page