Tíu þúsund tregawött hafa flutt sig um set og búa nú að www.tregawott.net. Nýju síðuna hannaði Þórarinn Björn Sigurjónsson, af miklum myndugleik og sönnu göfuglyndi.
Allt efni sem stendur til að flytja hefur verið flutt yfir á nýju síðuna.
Það er von ritstjórnar að nýja síðan verði öllum til gríðarlegrar gleði.
Sharon Mesmer les fjögur ljóð, „Annoying Diabetic Bitch“, „Ass Vagina“, „Squid Versus Assclown“ og „You F***ed Jimmy“ á The Flarf Festival, 21. apríl, 2006, í Medicine Show Theater í New York borg.
Heitir vindar brenna mig brennandi í mínu falli útskúfaður orðlaus í hinu heilaga stríði ég lifi af refsivöndinn og útlegðina til svíðandi lands ég er drottinn, ég tek við stjórn.
Fyrirgef mér ei þessi þekking styrkir mig til að reisa upp frá dauðum borgir hinna fordæmdu allir fjársjóðir Sódómu tilheyra mér nú – fagnið föllnu englar takið hönd mína.
Hórur þrá hold mitt og girnd mína lostinn smyr mig gereyðið sál minni.
Steig fætinum framúr draumnum og stóð andspænis nýjum degi sem skorti þig og þarmeð allt sem hafði gert litlu Grjótagötu að Champs-Élysées og þorpsfíflið að prinsi á hvítum Hyundai
reif mig upp úr deginum og starði nóttina niður í glasið og drakk hana minnugur þess að það er í raun fáránlegt að reka öldurhús í landi þar sem menn drekka aðeins te
-- en það er útúrdúr og ekki skiljanleg vísun öðrum en mér, því svona get ég verið óbilgjarn og leiðinlegur --
fleygði nóttinni til andskotans og fann sísvartan morguninn í fjöru, eins og alltaf þegar gállinn rekur mig til þess; sendi þér hugboð yfir hafið um að jú, víst var það svo og víst verður það aftur næst þegar við hittumst, því þótt gatan sé lítil og Ósigurboginn hruninn um sjálfan sig hljóta stjörnurnar að lifna drottni sínum á endanum og himinninn hlýtur að vera sá sami hér þótt eilítið sé hann grárri
og þá geturðu kysst mig, elskan, og ímyndað þér að ég sé einhver annar, líkt og ég kyssi kvöldið og ímynda mér að það sé þess vegna sem
nóttin
roðnaði.
Arngrímur Vídalín Ljóðið er úr nýrri bók Arngríms Endurómun upphafsins, sem gefin er út af Nykri. Davíð A. Stefánsson, einn af forvígismönnum Nykurs fylgdi bókinni úr hlaði með nokkrum orðum sem má lesa hér.
Verðlaun í samkeppni Tíu þúsund tregawatta um stafsetningar- og málfræðivillur verða ekki veitt í ár. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra handrita er send voru til keppni verðskuldaði að hljóta verðlaunin. Efnt var til samkeppni um verst stafsetta handritið að frétt á mbl.is um afhendingu Jónasarverðlauna og rann skilafrestur út í dag. Alls bárust um tveir tugir handrita í keppnina. Formaður dómnefndar var Ingólfur Gíslason stærðfræðingur og ljóðskáld, en með honum í nefndinni voru Haukur Magnússon, tónlistarmaður, og Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur.
Samkvæmt upplýsingum frá dómnefnd voru nokkur handritanna mjög álitleg en herslumuninn vantaði til að þau gætu hlotið verðlaunin.
Lista og menningarráð Kópavogs efnir til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Veitt verða vegleg verðlaun og mun verðlaunaskáldið fá til varðveislu í eitt ár göngustaf sem á verður festur skjöldur með nafni þess. 3ja manna dómnefnd mun velja úr ljóðum sem berast. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina. Þau mega ekki hafa birst áður. Ljóðum skal skilað með dulnefni og skal nafn, heimili og sími skáldsins fylgja með í lokuðu umslagi auðkennt með sama dulnefni. Aðeins má senda eitt ljóð í hverju umslagi og þess vænst að ljóðunum sé skilað á pappírsstærðinni A-4 eða A-5. Skilafrestur er til 15. desember 2006 og utanáskriftin er:
Ljóðstafur Jóns úr Vör Tómstunda- og menningarsvið Kópavogs b.t. Sigurbjargar H. Hauksdóttur, Fannborg 2, 200 Kópavogur
Afhending verðlaunanna fer fram á afmælisdegi Jóns úr Vör sunnudaginn 21. janúar 2007. Þátttöku ljóð má sækja á ofangreint heimilisfang fyrir 1. febrúar; eftir það verður þeim eytt.
Nykur gefur út Endurómun upphafsins eftir Arngrím Vídalín
Nykur hefur kastað ljóðabókinni Endurómun upphafsins eftir Arngrím Vídalín Stefánsson. Grasið er blautt og slímugt, börn og konur taka andköf af hrifningu, karlmenn krossleggja hendur og stara á skó sína.
Þetta er önnur bók Arngríms, en fyrstu bókina, Suttungamiði skilað, prentaði hann sjálfur og seldi fyrir efniskostnaði í um hundrað eintökum. Endurómun upphafsins er óvenju þroskuð ljóðabók ungs höfundar og í henni fara fram átök á milli gamalla og nýrra tíma – þess hversu fallega megi berja heiminn augum og hversu einlæglega megi tjá sig um hann án þess að vera grýttur fyrir rómantískar tilhneigingar:
Rigningin gerir værð að svefni rósemdar huggar smátt hjarta
Um AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRST- UÚVWXYÝZÞÆÖ e. Óttar Martin Norðfjörð
Meðal þeirra ljóðabóka sem koma út nú fyrir jólin er AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ eftir ljóðskáldið Óttar Martin Norðfjörð. Einn gagnrýnenda Tregawattanna, Eiríkur Örn Norðdahl, sökkti sér í verkið á dögunum og segir meðal annars í dómi sínum að útgáfa bókarinnar sé bókmenntaviðburður, hún kitli hláturtaugarnar, sé uppfull af hlýlegum gáska og tengi saman lýrískt raunsæi og ádeilu. Smellið hér til að lesa dóminn í heild sinni.