Women on top
Ljóðið fann Ásgeir H Ingólfsson í reykvískri fornbókabúð og smellti af um það leyti sem hann heyrði í rödd Halldórs Blöndal hinum megin bókaskáps.
Ljóðið fann Ásgeir H Ingólfsson í reykvískri fornbókabúð og smellti af um það leyti sem hann heyrði í rödd Halldórs Blöndal hinum megin bókaskáps.
Lista og menningarráð Kópavogs efnir til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Veitt verða vegleg verðlaun og mun verðlaunaskáldið fá til varðveislu í eitt ár göngustaf sem á verður festur skjöldur með nafni þess. 3ja manna dómnefnd mun velja úr ljóðum sem berast. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina. Þau mega ekki hafa birst áður. Ljóðum skal skilað með dulnefni og skal nafn, heimili og sími skáldsins fylgja með í lokuðu umslagi auðkennt með sama dulnefni. Aðeins má senda eitt ljóð í hverju umslagi og þess vænst að ljóðunum sé skilað á pappírsstærðinni A-4 eða A-5. Skilafrestur er til 15. desember 2006 og utanáskriftin er:
Nykur hefur kastað ljóðabókinni Endurómun upphafsins eftir Arngrím Vídalín Stefánsson. Grasið er blautt og slímugt, börn og konur taka andköf af hrifningu, karlmenn krossleggja hendur og stara á skó sína.
Meðal þeirra ljóðabóka sem koma út nú fyrir jólin er AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ eftir ljóðskáldið Óttar Martin Norðfjörð. Einn gagnrýnenda Tregawattanna, Eiríkur Örn Norðdahl, sökkti sér í verkið á dögunum og segir meðal annars í dómi sínum að útgáfa bókarinnar sé bókmenntaviðburður, hún kitli hláturtaugarnar, sé uppfull af hlýlegum gáska og tengi saman lýrískt raunsæi og ádeilu. Smellið hér til að lesa dóminn í heild sinni.
Ljóðskáldið Hermann Stefánsson mun kynna nýja bók sína, Borg í þoku, á skáldaspírukvöldi í Iðu í kvöld, kl. 20. Í tilkynningu segir m.a. "Með þessari bók kveður Hermann sér hljóðs með gjörólíkum hætti, baksvið ljóðanna er borgin Santiago de Compostela á Spáni og er bókin prýdd fjölda ljósmynda." Þá mun Hermann ásamt bróður sínum, Jóni Halli, rithöfundi, einnig kynna jóladisk sem von er á bráðum, en hann heitir: Ofankoma af fjöllunum. Munu þeir bræður leika nokkur lög af diskinum. Á diskinum er að finna tregablandin jólalög eftir Jón Hall Stefánsson, en í sveitinni sem stendur að diskinum leika þeir Þórarinn Kristjánsson, trommur, Árni Kristjánsson, rafgítar, Hermann Stefánsson, bassi, banjó o.fl. og Jón Hallur sjálfur, kassagítar, söng o.fl. Þá mun Hermann leika og syngja nokkur létt lög um heimsendi.
Tíu þúsund tregawött efna til samkeppni í mál- og stafsetningarvillum, í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem var fagnað í gær. Eins og kunnugt er vann Njörður P. Njarðvík til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar á þessum degi, og eiga keppendur að stafsetja upphafsmálsgrein og titil fréttar þeirrar er birtist um málið á mbl.is.Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti í dag Nirði P. Njarðvík verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2006. Verðlaunin eru 1 milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í skinnbandi.
Hér eru svo tvö dæmi um vitlaust stafsetta texta:
Njöðrur P. Njaðrvík fær veðrlaun Jósanar Haglgrímsonar
Þogreðrur Kartín Gunnrasdóttri metnamáláraðherra veitti í dag Niðri P. Njaðrvík veðrlaun Jósanar Haglgrímsonar 2006. Veðrlaunin eru 1 mijllón kórna og ristafn Jósanar Haglgrímssonar í skibnandi.
Njörður P. Njarðvík sigrar verlaun Jónas Hallgrímson
Þorgerður Katrýn Gunnrassdóttir mentamáláraðherra gaf í dag Nirði P. Njarðvík verðlaun Jónas Hallgrímson 2006. Verðlaunin eru 1 miljón krónur og ritsafn Jónas Hallgrímson í skynnbandi.
Keppnistextum skal skila á netfangið tiuthusundtregawott@gmail.com fyrir næstkomandi fimmtudag 23. nóvember. Í verðlaun er ljóðabókin Barkakýli úr tré e. Þorstein Guðmundsson.

Kæru fjölmiðlamenn, vinir Nýhils og kunningjar, veraldlegir sem og andlegir leiðtogar í lífum og limum, álitsgjafar - og aðrir.
Kæru lesendur, nú styttist í alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils, en hún verður haldin dagana 10. og 11. nóvember næstkomandi, sem eru föstudagur og laugardagur eftir viku. Hátíðin verður haldin á tveimur stöðum, annars vegar verður málþing og upplestur í Norræna húsinu á laugardeginum, þar sem derek beaulieu mun einnig sýna myndljóð sín, og hins vegar verða tvö ljóðapartí á Stúdentakjallaranum, föstudags- og laugardagskvöld. Líkt og jafnan verður fjöldinn allur af íslenskum ljóðskáldum á hátíðinni, en auk þess verða flutt inn tíu erlend ljóðskáld, þau Kenneth Goldsmith (USA), Christian Bök (CAN), Anna Hallberg (SVE), derek beaulieu (CAN), Jane Thompson (CAN), Gunnar Wærness (NOR), Jörgen Gassilewski (SVE), Katie Degentesh (USA), Leevi Lehto (FIN) og Matti Pentikainen (FIN), en sá síðastnefndi er auk þess að vera ljóðskáld þekktur fyrir að vera meðlimur hljómsveitarinnar Ceebrolistics. Tvö áðurnefndra skálda, þau Christian Bök og Anna Hallberg, voru líka gestir hátíðarinnar árið 2005. Þá má nefna að bandaríska ljóðskáldið Jesse Ball, sem fluttur var inn í fyrra, tekur nú þátt sem fullgildur meðlimur Nýhils, en hann er búsettur hér á landi um þessar mundir. Fullur listi yfir þátttakendur verður kynntur á næstum dögum, en líkt og venjulega eru fleiri en ljóðskáld sem taka þátt og hefur verið staðfest að sveitirnar Reykjavík! og Skakkamanage muni leika í ljóðapartíi hvor á sínu kvöldi.