30.11.06

Women on top


Ljóðið fann Ásgeir H Ingólfsson í reykvískri fornbókabúð og smellti af um það leyti sem hann heyrði í rödd Halldórs Blöndal hinum megin bókaskáps.

29.11.06

Tvö ljóð úr AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ

N.

Naðran nagaði napra nasistaforingjann. Nasistinn nauðaði, nauðalíkur nauðbeygðum nauðgara. Nauðstaddur námshesturinn nánast náttblindur, náunginn nebbnilega neðanfrá neðanjarðarbyrginu. Neðantil nefndur „negrinn" - nennir netaðgerð, neyðartilfellum. Niðurbældi norski nýnasistinn nýorðinn nýtískulegur, nýtur nælonsokka, næmra nærklæða. Nærliggjandi nöðrurnar nöguðu nöldursegginn nöturlega.

S.

Sannanirnar sannarlega sannfærandi, sannfærðu sanntrúaða sauðamanninn. Sauðkindirnar saurgaðar, sá sáðfrumurnar seigar, seigfljóta seinlega. Seinþroska Selfyssingurinn sennilegasti serðirinn. Séríslenskt sérkenni, sérstaklega siðblint. Siðferðisbrot siðleysingjans síendurtekið - sjokkerandi, sjúklegt. Sjötugur skaðvaldurinn skalf, skammarlegt, skandall.


Óttar Martin Norðfjörð

Ljóðin eru úr bókinni AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ

28.11.06

Fall frá náð e. David Vincent

Heitir vindar brenna mig
brennandi í mínu falli
útskúfaður
orðlaus í hinu heilaga stríði
ég lifi af
refsivöndinn og útlegðina
til svíðandi lands
ég er drottinn, ég tek við stjórn.

Fyrirgef mér ei
þessi þekking styrkir mig
til að reisa upp frá dauðum
borgir hinna fordæmdu
allir fjársjóðir Sódómu
tilheyra mér nú – fagnið
föllnu englar takið hönd mína.

Hórur þrá hold mitt
og girnd mína
lostinn smyr mig
gereyðið sál minni.


David Vincent

Þýðing: Ófeigur Sigurðsson

27.11.06

Grjótaþorp að nóttu e. Arngrím Vídalín

Steig fætinum framúr draumnum og stóð andspænis nýjum degi sem skorti þig og þarmeð allt sem hafði gert litlu Grjótagötu að Champs-Élysées og þorpsfíflið að prinsi á hvítum Hyundai

reif mig upp úr deginum og starði nóttina niður í glasið og drakk hana minnugur þess að það er í raun fáránlegt að reka öldurhús í landi þar sem menn drekka aðeins te

-- en það er útúrdúr og ekki skiljanleg vísun öðrum en mér, því svona get ég verið óbilgjarn og leiðinlegur --

fleygði nóttinni til andskotans og fann sísvartan morguninn í fjöru, eins og alltaf þegar gállinn rekur mig til þess; sendi þér hugboð yfir hafið um að jú, víst var það svo og víst verður það aftur næst þegar við hittumst, því þótt gatan sé lítil og Ósigurboginn hruninn um sjálfan sig hljóta stjörnurnar að lifna drottni sínum á endanum og himinninn hlýtur að vera sá sami hér þótt eilítið sé hann grárri

og þá geturðu kysst mig, elskan, og ímyndað þér að ég sé einhver annar, líkt og ég kyssi kvöldið og ímynda mér að það sé þess vegna sem

nóttinroðnaði.


Arngrímur Vídalín

Ljóðið er úr nýrri bók Arngríms Endurómun upphafsins, sem gefin er út af Nykri. Davíð A. Stefánsson, einn af forvígismönnum Nykurs fylgdi bókinni úr hlaði með nokkrum orðum sem má lesa hér.

24.11.06

Álitleg handrit en engin verðlaun

Verðlaun í samkeppni Tíu þúsund tregawatta um stafsetningar- og málfræðivillur verða ekki veitt í ár. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra handrita er send voru til keppni verðskuldaði að hljóta verðlaunin. Efnt var til samkeppni um verst stafsetta handritið að frétt á mbl.is um afhendingu Jónasarverðlauna og rann skilafrestur út í dag. Alls bárust um tveir tugir handrita í keppnina. Formaður dómnefndar var Ingólfur Gíslason stærðfræðingur og ljóðskáld, en með honum í nefndinni voru Haukur Magnússon, tónlistarmaður, og Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur.

Samkvæmt upplýsingum frá dómnefnd voru nokkur handritanna mjög álitleg en herslumuninn vantaði til að þau gætu hlotið verðlaunin.

23.11.06

Ljóðstafur Jóns úr Vör - Ljóðasamkeppni

Lista og menningarráð Kópavogs efnir til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Veitt verða vegleg verðlaun og mun verðlaunaskáldið fá til varðveislu í eitt ár göngustaf sem á verður festur skjöldur með nafni þess. 3ja manna dómnefnd mun velja úr ljóðum sem berast. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina. Þau mega ekki hafa birst áður. Ljóðum skal skilað með dulnefni og skal nafn, heimili og sími skáldsins fylgja með í lokuðu umslagi auðkennt með sama dulnefni. Aðeins má senda eitt ljóð í hverju umslagi og þess vænst að ljóðunum sé skilað á pappírsstærðinni A-4 eða A-5. Skilafrestur er til 15. desember 2006 og utanáskriftin er:

Ljóðstafur Jóns úr Vör
Tómstunda- og menningarsvið Kópavogs
b.t. Sigurbjargar H. Hauksdóttur,
Fannborg 2, 200 Kópavogur

Afhending verðlaunanna fer fram á afmælisdegi Jóns úr Vör sunnudaginn 21. janúar 2007. Þátttöku ljóð má sækja á ofangreint heimilisfang fyrir 1. febrúar; eftir það verður þeim eytt.

Nykur gefur út Endurómun upphafsins eftir Arngrím Vídalín

Nykur hefur kastað ljóðabókinni Endurómun upphafsins eftir Arngrím Vídalín Stefánsson. Grasið er blautt og slímugt, börn og konur taka andköf af hrifningu, karlmenn krossleggja hendur og stara á skó sína.

Þetta er önnur bók Arngríms, en fyrstu bókina, Suttungamiði skilað, prentaði hann sjálfur og seldi fyrir efniskostnaði í um hundrað eintökum. Endurómun upphafsins er óvenju þroskuð ljóðabók ungs höfundar og í henni fara fram átök á milli gamalla og nýrra tíma – þess hversu fallega megi berja heiminn augum og hversu einlæglega megi tjá sig um hann án þess að vera grýttur fyrir rómantískar tilhneigingar:

Rigningin gerir
værð að svefni rósemdar
huggar smátt hjarta


Bókin er 72 bls. og viðmiðunarverð er 1.990 kr.

22.11.06

Um AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRST- UÚVWXYÝZÞÆÖ e. Óttar Martin Norðfjörð

Meðal þeirra ljóðabóka sem koma út nú fyrir jólin er AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ eftir ljóðskáldið Óttar Martin Norðfjörð. Einn gagnrýnenda Tregawattanna, Eiríkur Örn Norðdahl, sökkti sér í verkið á dögunum og segir meðal annars í dómi sínum að útgáfa bókarinnar sé bókmenntaviðburður, hún kitli hláturtaugarnar, sé uppfull af hlýlegum gáska og tengi saman lýrískt raunsæi og ádeilu. Smellið hér til að lesa dóminn í heild sinni.

21.11.06

Hermann Stefánsson á skáldaspírukvöldi

Ljóðskáldið Hermann Stefánsson mun kynna nýja bók sína, Borg í þoku, á skáldaspírukvöldi í Iðu í kvöld, kl. 20. Í tilkynningu segir m.a. "Með þessari bók kveður Hermann sér hljóðs með gjörólíkum hætti, baksvið ljóðanna er borgin Santiago de Compostela á Spáni og er bókin prýdd fjölda ljósmynda." Þá mun Hermann ásamt bróður sínum, Jóni Halli, rithöfundi, einnig kynna jóladisk sem von er á bráðum, en hann heitir: Ofankoma af fjöllunum. Munu þeir bræður leika nokkur lög af diskinum. Á diskinum er að finna tregablandin jólalög eftir Jón Hall Stefánsson, en í sveitinni sem stendur að diskinum leika þeir Þórarinn Kristjánsson, trommur, Árni Kristjánsson, rafgítar, Hermann Stefánsson, bassi, banjó o.fl. og Jón Hallur sjálfur, kassagítar, söng o.fl. Þá mun Hermann leika og syngja nokkur létt lög um heimsendi.

Ljóðið Ölvaða borg úr bók Hermanns birtist á Tregawöttunum fyrir skemmstu. Það má lesa með því að smella hér.

20.11.06

Bölvað Haustið

Eftir að María fór frá mér til annarrar stjörnu - Óríon eða Altaris eða til þín græni Venus eða hvert? - elska ég að vera einn. Hvað er ég búinn að vera einn með kisu lengi? Með einn meina ég utan efnisheimsins. Kötturinn minn er andi, dulrænn ferðafélagi. Það er alveg rétt að segja að ég hafi lifað langa daga með kettinum og verið hér aleinn með einum síðasta höfundi Rómversku hnignunarinnar. Af því að síðan hvíta manneskjan varð að engu elska ég einstaklega og furðulega allt sem kemur fram í orðinu: fall. Þannig að uppáhalds tími ársins eru síðustu silalegu sumardagarnir fyrir haustið og tími dagsins klukkutíma gangan þegar sólin hinkrar við að setjast á bakvið gráa veggi og geislarnir hennar eru gulbronsaðir og koparrauðir geislar á þökunum. Andi minn fer líka frammá að bókmenntir veiti unað og að hann birtist í örvæntingarfullum ljóðum síðustu andartaka Rómar: bara eins lengi og ljóðin andi ekki frá sér nýjabrumi Barbaranna og barnalegu latínutauti í stíl kristinna manna. Ég var semsagt að lesa eitt þeirra ljóða sem mér er hugleikið (duft kinnalitar þess er mér miklu meira heillandi en ungt hold) og ég er að strjúka lófanum í gegnum loðið dýrsskinn þegar heyrist í dapurlegu mátleysislega hljóðandi götuorgeli fyrir neðan gluggann hjá mér. Hljóðið berst úr húsasundinu sem er frægt fyrir Aspir og laufblöðin á þeim sem meira að segja á vorin sýnast mér frekar hnuggin síðan María leið hjá þeim á sinni hinstu ferð, liggjandi í kertum. Sannarlega er þetta verkfæri sorgarinnar. Það glampar á píanóið, fiðlan sendir ljós frá trostnuðum innviðum, en götuorgel í lítilli birtu minnisins fær mig til að dreyma voðalega drauma. En nú muldraði það glaðlegt dægurlag sem fyllti fáborgina af gleði með gömlum frasa. Hvers vegna létu orðin í laginu ekki sál mína vera í friði svo ég grét eins og þetta væri einhver draumfleyg ballaða? Ég teygaði hægt á laginu eins og til að treina mér það. Og passaði mig á að fleygja ekki einni einustu krónu út um gluggann af ótta við að styggja ekki andartakið og uppgötva fleiri að spila þarna en hljóðfærið.

Stéphane Mallermé

Þýðing: Jóhamar.

17.11.06

Keppni í stafsetningar- og málvillum!

Tíu þúsund tregawött efna til samkeppni í mál- og stafsetningarvillum, í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem var fagnað í gær. Eins og kunnugt er vann Njörður P. Njarðvík til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar á þessum degi, og eiga keppendur að stafsetja upphafsmálsgrein og titil fréttar þeirrar er birtist um málið á mbl.is.

Upprunalegi textinn er svo:

Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti í dag Nirði P. Njarðvík verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2006. Verðlaunin eru 1 milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í skinnbandi.

Hér eru svo tvö dæmi um vitlaust stafsetta texta:

Njöðrur P. Njaðrvík fær veðrlaun Jósanar Haglgrímsonar

Þogreðrur Kartín Gunnrasdóttri metnamáláraðherra veitti í dag Niðri P. Njaðrvík veðrlaun Jósanar Haglgrímsonar 2006. Veðrlaunin eru 1 mijllón kórna og ristafn Jósanar Haglgrímssonar í skibnandi.

Njörður P. Njarðvík sigrar verlaun Jónas Hallgrímson

Þorgerður Katrýn Gunnrassdóttir mentamáláraðherra gaf í dag Nirði P. Njarðvík verðlaun Jónas Hallgrímson 2006. Verðlaunin eru 1 miljón krónur og ritsafn Jónas Hallgrímson í skynnbandi.

Keppnistextum skal skila á netfangið tiuthusundtregawott@gmail.com fyrir næstkomandi fimmtudag 23. nóvember. Í verðlaun er ljóðabókin Barkakýli úr tré e. Þorstein Guðmundsson.

Skáldið Rumsfeld


Eins og allir vita var Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna látinn taka pokann sinn á dögunum. Af því tilefni hefur vefritið www.slate.com tekið saman úrval ljóða Rumsfeld sem finna má á heimasíðu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

The Unknown

As we know,
There are known knowns.
There are things we know we know.
We also know
There are known unknowns.
That is to say
We know there are some things
We do not know.
But there are also unknown unknowns,
The ones we don't know
We don't know.
—Feb. 12, 2002, Department of Defense news briefing


Smellið hér til að lesa ljóðaúrvalið í heild sinni. Á sama stað má einnig finna úrval heimspekilegra orðspjóta eftir Rumsfeld. Þetta fréttaskot er í boði liðhlaupsins.
Þess má geta að ljóðin hafa einnig birst í bókinni Af stríði sem kom út á vegum Nýhils árið 2003.

Dagur íslenskrar tungu
Ljóðið fann Ásgeir H Ingólfsson

16.11.06

Ljóð í sjóð
Ljóðið fann Anna Björk Einarsdóttir í bókinni Ljóð í sjóð sem MND félagið á Íslandi hefur nýlega gefið út. Í bókinni má m.a. finna ljóð eftir Sjón, Þorstein frá Hamri, Einar Má Guðmundsson og Kristian Guttesen en hana má kaupa hér: http://www.mnd.is/

15.11.06

Valur Brynjar les á ljóðahátíð o.fl.


Ljóðahátíð Nýhil fór fram með minnstu og mestu spekt um liðna helgi. Margir aðstandenda Tíu þúsund tregawatta voru viðriðnir hátíðina, og því var lítið um uppfærslur í kringum hátíðahöldin. Bætt verður úr því á næstu dögum. Hér að ofan má sjá Val Brynjar Antonsson lesa upp á hátíðinni. Myndbandið tók finnska skáldið Leevi Lehto á símann sinn. Fleiri myndbönd hans má finna með því að smella
hér.

10.11.06

Dagskrá ljóðahátíðar

Í kvöld kl. 20 hefst glæsileg dagskrá ljóðahátíðar Nýhils í Stúdentakjallaranum, og heldur hún svo áfram fram á annað kvöld. Á morgun verður málþing í Norræna húsinu kl. 12 á hádegi, sem stendur til 15, og upplestur frá 16-18. Um kvöldið heldur gamanið svo áfram í Stúdentakjallaranum, og hefst sú dagskrá kl. 20. Hér að neðan er dagskrá fyrir viðburðina tvo í Norræna húsinu - og birtist hún með fyrirvara um breytingar.

Dagskrá/ Program

Föstudagur/ Friday

20.00 Þórdís Björnsdóttir
20.15 Ingólfur Gíslason
20.30 Jesse Ball
20.45 Leevi Lehto
21.05 Ófeigur Sigurðsson
21.20 Ingibjörg Magnadóttir
21.35 Gunnar Wærness
21.55 Homebreakers
22.15 Valur Brynjar Antonsson
22.35 Katie Degentesh
22.55 Kristín Eiríksdóttir
23.15 Birgitta Jónsdóttir
23.35 Kenneth Goldsmith
23.55 Berglind Ágústsdóttir
00.15 Matti Pentikäinen
00.35 Skakkamanage


Laugardagur/ Friday

20.00 Bjarni Klemenz
20.15 Stórsveit Áræðis
20.35 Jane Thompson
20.55 Haukur Már Helgason
21.10 Óttar Martin Norðfjörð
21.30 Derek Beaulieu
21.50 Donna Mess
22.10 Kristín Svava Tómasdóttir
22.25 Jörgen Gassilewski
22.45 Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
23.05 Anna Hallberg
23.25 Eiríkur Örn Norðdahl/ Halldór Arnar Úlfarsson
23.45 Kabarettinn Músifölsk
00.05 Christian Bök
00.25 Reykjavík!

6.11.06

Fréttatilkynning frá Nýhil

Kæru fjölmiðlamenn, vinir Nýhils og kunningjar, veraldlegir sem og andlegir leiðtogar í lífum og limum, álitsgjafar - og aðrir.

Um komandi helgi verður alþjóðleg ljóðahátíð Nýhils haldin í annað sinn og verður ekkert til sparað að gera dásemdirnar sem fyllstar ofsa og ást. Færustu sérfræðingar Nýhils í alþjóðlegri og innlendri ljóðlist hafa lagt nótt við nýtan dag síðastliðin misseri og sett saman allra mögnuðustu mögulega ljóðadagskrá og verður blásið til sannkallaðs ljóðasvalls föstudaginn 10. nóvember næstkomandi og stendur orgían yfir fram á sunnudagsmorgun. Dásemdirnar verða slíkar að andans menn og konur munu froðufella höfuðstöfum og svitna stuðlum langt fram eftir næsta ári, krafturinn slíkur að orð munu ríma sjálfkrafa hvert við annað og allir læsir menn munu falla í stafi, orð, setningar, erindi, kvæði, heilu bálkana!

Hátíðin verður haldin í Stúdentakjallaranum og í Norræna húsinu. Dagskrá er eftirfarandi:

Föstudagur 10. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý
Laugardagur 11. nóvember - Norræna húsið kl. 12.00-15.00 Málþing um
samtímatilraunaljóðlist
Laugardagur 11. nóvember - Norrænahúsið kl. 16.00-18.00 Ljóðaupplestur
Laugardagur 11. nóvember - Stúdentakjallarinn kl. 20.00-01.00 Ljóðapartý

Erlendir þátttakendur eru að þessu sinni þau Kenneth Goldsmith, Matti Pentikäinen, Leevi Lehto, Anna Hallberg, Jörgen Gassilewski, Derek Beaulieu, Jesse Ball, Christian Bök, Katie Degentesh, Gunnar Wærness og Jane Thompson.

Auk hinna erlendu gesta, sem að þessu sinni eru helmingi fleiri en síðast, eru fjölmargir Íslendingar, og má þar helst nefna: Þórdís Björnsdóttir, Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir, Óttar Martin Norðfjörð, Ingibjörg Magnadóttir, Valur Brynjar Antonsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Ófeigur Sigurðsson, Haukur Már Helgason, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, Bjarni Klemenz, Birgitta Jónsdóttir, Kabarettinn Músífölsk , Stórsveit Áræðis, Donna Mess, Berglind Ágústsdóttir, Reykjavík!, Homebreakers og Skakkamanage.

Hátíðin er unnin í samstarfi við Norræna húsið í Reykjavík og er styrkt af Landsbanka Íslands.

1.11.06

Þátttakendur í alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils

Kæru lesendur, nú styttist í alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils, en hún verður haldin dagana 10. og 11. nóvember næstkomandi, sem eru föstudagur og laugardagur eftir viku. Hátíðin verður haldin á tveimur stöðum, annars vegar verður málþing og upplestur í Norræna húsinu á laugardeginum, þar sem derek beaulieu mun einnig sýna myndljóð sín, og hins vegar verða tvö ljóðapartí á Stúdentakjallaranum, föstudags- og laugardagskvöld. Líkt og jafnan verður fjöldinn allur af íslenskum ljóðskáldum á hátíðinni, en auk þess verða flutt inn tíu erlend ljóðskáld, þau Kenneth Goldsmith (USA), Christian Bök (CAN), Anna Hallberg (SVE), derek beaulieu (CAN), Jane Thompson (CAN), Gunnar Wærness (NOR), Jörgen Gassilewski (SVE), Katie Degentesh (USA), Leevi Lehto (FIN) og Matti Pentikainen (FIN), en sá síðastnefndi er auk þess að vera ljóðskáld þekktur fyrir að vera meðlimur hljómsveitarinnar Ceebrolistics. Tvö áðurnefndra skálda, þau Christian Bök og Anna Hallberg, voru líka gestir hátíðarinnar árið 2005. Þá má nefna að bandaríska ljóðskáldið Jesse Ball, sem fluttur var inn í fyrra, tekur nú þátt sem fullgildur meðlimur Nýhils, en hann er búsettur hér á landi um þessar mundir. Fullur listi yfir þátttakendur verður kynntur á næstum dögum, en líkt og venjulega eru fleiri en ljóðskáld sem taka þátt og hefur verið staðfest að sveitirnar Reykjavík! og Skakkamanage muni leika í ljóðapartíi hvor á sínu kvöldi.

Frekar má lesa um erlendu þátttakendurna með því að smella hér.
Refresh Page