31.10.06

Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist e. Eirík Örn Norðdahl

Í tilefni af yfirvofandi alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils, sem haldin verður 10. og 11. nóvember í Norræna húsinu í Reykjavík og Stúdentakjallaranum, hafa hin Tíu þúsund tregawött fengið leyfi til þess að endurbirta grein Eiríks Arnar Norðdahl, Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist, sem birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar síðastliðið vor. Í greininni er tæpt á verkum þriggja skálda og flarf-skáldahópsins. Skáldin þrjú, Leevi Lehto, Christian Bök og Kenneth Goldsmith, eru allir gestir ljóðahátíðar, sem og Katie Degentesh, sem tilheyrir skáldahópi flarfista.

Smellið hér til að lesa greinina.

30.10.06

Hin asíska gredda – um Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk e. Véstein Lúðvíksson

Ein þeirra ljóðabóka sem koma út nú fyrir jólin hjá Bjarti er Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson. Eiríkur Örn Norðdahl las bókina á dögunum og komst meðal annars að því að mikla greddu væri að finna í línunum, og að ljóðlist hins zeníska Vésteins væri ekki endilega ólík ljóðlist Þorsteins Guðmundssonar.

Smellið hér til að lesa pistilinn.

27.10.06

Þvottasnúra


Ég er húsmóðir í Mósambík
og ég fæ engin laun

Ég er húsmóðir í Mósambík
og ég elda ekki baun

Ég er húsmóðir í Mósambík
og ég þvæ blóð úr skyrtunni þinni

Ég er húsmóðir í Mósambík
og ég fæ engin laun

höf. ók.

26.10.06

Upplestur, meiri upplestur!

Ljóð eru ágæt til síns brúks í þessum ágætu litlu kverum sem er alltaf verið að gefa út, en auðvitað er aðalstuðið að sitja á reykmettuðum bar og fylgjast með ljóðskáldum bisa við að koma bæði hljóðnemanum og bjórkrúsinni fyrir á borðinu áður en þau hefja þá snúnu list að túlka sín eigin ljóð fyrir framan fullan sal af fólki sem er ýmist að velta fyrir sér hvort hér sé næsta stórskáld mætt á svæðið eða er upptekið við að fanga athygli gengilbeinunnar, sem hefur að sjálfsögðu engan tíma til að afgreiða sökum þess hve hugfangin hún er af skáldunum. Þeir reyndustu í bransanum eru svo farnir að reikna út hvað kalli fram besta upplesturinn, tilgáta tregawattana er einn og hálfur bjór, lykt af rauðvínsglasi og beygla með kjúklingi í hádegismat, með kertaljós eða diskókúlu sem lýsingu, eftir efni ljóðsins vitanlega. Og auðvitað sæt/ur stelpa/strákur í þriðju röð til vinstri í áhorfendaskaranum. En allt þetta var að sjálfsögðu fullkomlega óþarfur formáli fyrir þá stórfrétt að það er ekki nóg með að þið hafið komist á upplestur í gærkvöldi heldur getið þið bætt um betur í kvöld. Bjartsskáld voru í gærkvöldi á Næsta bar og í kvöld munu Nykraðir meðlimir skáldafélagsins og útgáfunnar Nykurs mæta á Litla ljóta andarunganum klukkan níu í kvöld.

Fyrir þá sem vilja vita nánari smáatriði, eins og nöfnin á skáldunum og svona, þá kópí-peistuðum við æsispennandi fréttatilkynninguna sem við fengum í póstinum og það ágæta kópí-peist má sjá með því að
smella hér. Já, og við allt þetta má bæta að allt er þetta algjörlega fríkeypis, nema þú náir athygli gengilbeinunnar auðvitað ...

25.10.06

Ljóðabókaflóð Bjarts á Næsta bar

Bjartur blæs til ljóðalesturs í kvöld á Næsta bar í Reykjavík, en líkt og sagt hefur verið frá á Tregawöttunum hafa nýlega komið út þrjár ljóðabækur frá forlaginu, Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást eftir Ingunni Snædal, sem fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir verkið, Loftskip eftir Óskar Árna Óskarsson, og Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson. Óskar Árni og Ingunn mæta sjálf á svæðið til að lesa upp úr sínum bókum, en Bjartur sendir sérlegan fulltrúa sinn í Vésteins stað, en skáldið mun búsett í Asíu. Þá er ekki allt upptalið því Steinar Bragi, sem reyndar er ekki með ljóðabók fyrir jólin heldur skáldsögu, mun hefja leikinn "með léttum lestri úr eldri ljóðum sínum", líkt og segir í tilkynningu, og útvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Eiríkur Guðmundsson, sem á sömuleiðis skáldsögu í flóðinu, mun sjá um að kynna skáldin til leiks. "Verður þetta stutt, hnitmiðuð og bráðskemmtileg dagskrá, og er fólki því bent á að mæta tímanlega. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og öllum heimill", segir í tilkynningu. Upplesturinn verður eins og áður segir á Næsta bar, Ingólfsstræti 1a, í kvöld og hefst hann klukkan 20.00.

24.10.06

Christian Bök les Höpöhöpö Böks eftir Eirík Örn Norðdahl


Kanadíska ljóðskáldið Christian Bök var staddur í Finnlandi í sumar þar sem hann las upp og tók þátt í almennri ljóðadagskrá. Þar las hann meðal annars upp ljóðið Höpöhöpö Böks eftir Eirík Örn Norðdahl, á íslensku. Höpöhöpö Böks er svokallað einhljóða lípógram, og sem slíkt inniheldur það eingöngu sérhljóðann 'ö'. Það er ort til og um Christian Bök sem skrifaði bókina
Eunoia, sem er kaflaskipt einhljóða lípógram allra sérhljóðanna nema 'y' og 'ö'. Orðið 'höpöhöpö' er líklega fæstum Íslendingum kunnugt, en þetta er að sögn heimildarmanna eitt fárra orða í heiminum til að innihalda fjögur 'ö'. Orðið er úr finnskri tungu og þýðir „vitleysa“. Ljóðið hefur verið prentað í bækling og gefið út í takmörkuðu upplagi í Kanada. Myndbandið birtist upphaflega á finnsku ljóðasíðunni Nokturno, og er aðstandendum þess kærlega þakkað fyrir leyfi til endurbirtingar á Tregawöttunum.

Texta ljóðsins má lesa með því að smella hér.

Rétt er að geta þess að Christian Bök mun lesa upp á ljóðahátíð Nýhils í nóvember, sem og reyndar Eiríkur Örn Norðdahl.

23.10.06

Útgáfufréttir úr jólabókaflóðinu

Líður að jólum og fara brátt að æsast leikar í bókaútgáfu. Þó útgáfa nýrra ljóðabóka sé almennt stöðugri allan ársins hring en útgáfa nýrra skáldsagna kemur engu að síður augljós kippur í útgáfuna þegar fer að nálgast jólin. Meðal þess sem þegar er komið út eru bækurnar Loftskip eftir Óskar Árna Óskarsson og bókin Sumir láta eins og holdið eigi sér takmörk eftir Véstein Lúðvíksson, en að báðum ólesnum sýnist Tregawöttunum sem sú síðarnefnda gæti verið einhver best titlaðasta ljóðabók síðustu ára. Þessar tvær gefur Bjartur út. Þá mun von á nýrri ljóðabók frá jöfrinum Hannesi Péturssyni, útgefinni af Máli og menningu, ef eitthvað er að marka orðróm sem tíundaður er á Vísi.is. Og heyrst hefur að Óttar Martin Norðfjörð verði með allsérstæða bók á næstunni, sem gefin verður út hjá Nýhil.

Meira um þetta allt saman hér.

20.10.06

Ölvaða borg e. Hermann Stefánsson

„Þessi borg er ölvuð
turnar hennar tróna skakkir og skældir
byggingar úr mistri

skip sigla fullum seglum um strætin“


Á þessum orðum hefst ljóð Hermanns Stefánssonar, Ölvaða borg, úr ljóðabókinni Borg í þoku sem kemur út hjá Hávallaútgáfunni á næstu dögum.

Smellið hér til að lesa ljóðið allt.

19.10.06

Spurt og Svarað: Frelsandi heimilishvalveiðar e. Hauk Má Helgason

„Róið. Staðnæmist. Tælið hvalinn til ykkar með söngi og beitu. Gælið við hann. Læðið tauginni um sporðinn á honum, eða aðra framstæða hluta hans. Stingið hann með sverðinu.“

Í tilefni af því að Íslendingar hafa að nýju hafið hvalveiðar birta Tregawöttin hér ljóð Hauks Más Helgasonar, Spurt og svarað: Frelsandi heimilishvalveiðar, í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl. Ljóðið birtist upphaflega á Life Peter Emancipatory Whaling.

Smellið hér til að lesa.

18.10.06

Holu konurnar

Eftirfarandi ljóð fannst í teiknisögunni „Two Roads Diverge“, fyrsta hluta Southland Tales (hlutar 4-6 verða samnefnd bíómynd). Sagan gerist í Bandaríkjunum árið 2008 þegar vegabréfseftirlit er á öllum fylkjamærum og bensín af skornum skammti sökum vaxandi ófriðar í Miðausturlöndum. Höfundurinn er Krysta Now (fædd Kapowski), klámmyndaleikkona sem fer með hækur úr sumarbæklingnum og er undir sterkum áhrifum frá T.S. Eliot.

Ljóðið fann
Ásgeir H Ingólfsson.

17.10.06

Heima

Hvar eigum við heima? Hvar á Ingunn Snædal heima? Eru ljóðasamkeppnir plebbalegar eða töff? Vill Guð virkja Kárahnjúka? Svör við sumum þessara spurninga má hugsanlega finna í pistli um ljóðabókina Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást.

Gjöriði svo vel að smella hér ef þið viljið vita meira.

16.10.06

3 ljóð e. Franz Wright

Ljóðskáldið Franz Wright vann Pulitzer-verðlaunin í ljóðlist árið 2004 fyrir bókina Walking to Martha's Vineyard, en svo merkilega vill til að faðir Franz, James Wright, vann þessi sömu verðlaun fyrir safnljóðabók sína árið 1972, og eru þeir feðgar einu feðgarnir til að hafa báðir unnið til þessara verðlauna í sama flokki. Jóhann Hjálmarsson og Gyrðir Elíasson munu báðir hafa fengist við þýðingar á ljóðum James Wright, en hér er það Jón Kalman Stefánsson sem tekst á við þrjú ljóð eftir Franz, Alkóhól, Næturskrif og Þarna.

Smellið hér til að lesa ljóðin.

12.10.06

Ljóð úr Sagði pabbi e. Hal Sirowitz

Ljóðabókin Sagði pabbi eftir bandaríska skáldið Hal Sirowitz kom nýlega út hjá Dimmu. Samkvæmt tilkynningu er bókin safn frumlegra og fyndinna ljóða, þar sem kallast á bernskuminningar, föðurleg heilræði og kaldhæðnislegar hugleiðingar um lífið og tilveruna. Hal Sirowitz var útnefndur lárviðarskáld í Queens, New York, og hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín sem hafa verið þýdd og gefin út í 10 löndum. Áður hefur komið út á íslensku metsölubók hans Sagði mamma. Tregawöttin birta hér þrjú ljóð úr bókinni nýju, en þýðandi er Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Smellið hér til að lesa ljóðin.

11.10.06

Ljóðahátíð Nýhils: Kanadísk myndljóðlist Dereks Beaulieu


Myndljóðskáldið Derek Beaulieu verður meðal gesta á ljóðahátíð Nýhils sem hefst eftir tæpan mánuð. Áður hafa birst tvö verk eftir Derek á Tregawöttunum tíu þúsund og má sjá þau með því að smella
hér. Nýjustu ljóðabók hans, fractal Economies, má kaupa á Amazon með því að smella hér og dóm um hana má lesa á FFWDWeekly. Þar segir gagnrýnandinn, James Dangerous, m.a. "Visual artists like Marcel Duchamp had to deal with complaints of intelli-snobbery and grandstanding. Igor Stravinsky caused a riot at his debut of The Rite of Spring in 1913; by 1940, Disney had included the work in Fantasia. Concrete poetics is still young, and still dealing with problems that more "radical" art forms must endure. fractal economies, however, has the potential to be like Miles Davis’ Kind of Blue, which taps the vein of jazz for many listeners and musicians. Never read a book of concrete poetry before? This might be the one to hook you."

Verkið hér að ofan er fengið úr fractal economies og nefnist "untitled for brian kim stefans".

Blogg Dereks Beaulieu á Myspace
Meira um Derek Beaulieu
Derek Beaulieu á logolalia

10.10.06

Ljóðahátíð Nýhils: Kenneth Goldsmith syngur Wittgenstein

Ljóðskáldið og myndlistarmaðurinn Kenneth Goldsmith fæst að stærstum hluta við það sem hann kallar "óskapandi skrif", og má lýsa sem gegndarlausum uppsöfnuði tungumáls. Meðal verka hans má nefna Soliloquy, þar sem hann skrifar upp allt sem hann segir í eina viku, og Weather, sem er ársskammtur af uppskrifuðum veðurspám. Mörg verka Kenneths má nálgast með því að smella hér.

Verkið sem Tregawöttin vilja kynna í dag nefnist hins vegar "Kenneth Goldsmith sings Ludwig Wittgenstein (for M.A. Numminen)". Verkið er í tveimur hlutum og það má nálgast með því að smella á viðeigandi hlekki hér að neðan (hægrismellið og veljið 'save target as' til að vista).

Kenneth Goldsmith sings Ludwig Wittgenstein (for M.A. Numminen) - 1. hluti
Kenneth Goldsmith sings Ludwig Wittgenstein (for M.A. Numminen) - 2. hluti

9.10.06

Ljóðahátíð Nýhils: Christian Bök


Meðal gesta á Alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils sem haldin verður 10. og 11. nóvember næstkomandi verður kanadíska ljóðskáldið Christian Bök. Þeir sem misstu af Bök þegar hann kom hér síðast geta m.a. hlustað á hann
hér.

6.10.06

Tvö ljóð úr Guðlausum mönnum eftir Ingunni Snædal

Hér birtast nú tvö ljóð úr nýrri ljóðabók Ingunnar Snædal, Guðlausir menn - Hugleiðingar um jökulvatn og ást. Ingunn hlaut á miðvikudaginn bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmunssonar fyrir handrit að bókinni. Um bókina sagði dómnefnd:

"Handritið, sem er í senn heildstætt og fjölbreytt, felur í sér ferðasögu og ástarsögu. Ljóðmælandinn er ung kona sem heldur austur á land á æskuslóðirnar til að vera við jarðarför ömmu sinnar. Í ljóðunum birtast okkur myndir af æsku hennar og heimabyggð, ást og samkynhneigð, fjölskyldu, samfélagi og þjóðlífi. Höfuðviðfangsefnin, ást og dauði, eru sígild, en um leið eru ljóðin sprottin beint uppúr samtíð okkar þar sem fyrir augu ber umdeildar virkjanaframkvæmdir, réttindi samkynhneigðra og dægurmenningu, auk þess sem smáskilaboð símans verða hér að nýju ljóðformi. Stíll ljóðanna er tær og einfaldur, skáldið talar beint til hjartans, hlífir hvorki sér né öðrum og gefur lesandanum jöfnum höndum af sárri reynslu og ljúfri."

Dómnefnd um verðlaunin skipuðu: Árni Sigurjónsson bókmenntafræðingur og formaður dómnefndar, Þorgerður E. Sigurðardóttir bókmenntafræðingur, og Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingur.

Í tilkynningu frá Bjarti, sem gefur bókina út, segir:

"Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum, uppalin á Jökuldal og hefur búið á Spáni, Írlandi, í Kostaríku, Danmörku, veturlangt á Aran-eyjum út af vesturströnd Írlands og til skamms tíma í Mexíkó. Hún er menntuð í sveitaskólum, á heimavist á Eiðum, fjölbraut í Ármúla, HÍ og Kennaraháskólanum, þar sem hún var haldin námsleiða sem ól á vínhneigð hennar. Að námi loknu náði hún gleði sinni á ný og starfaði sem kennari, af hugsjón, í nokkur ár.

Auk þess að kenna íslensku, ensku og dönsku hefur Ingunn verið landpóstur, ráðskona í vegagerð, bensíntittur, hliðbjálfi, grúppía, rolluljósmóðir, skúringakona, eldabuska á leikskóla, starfsmaður á dönskum spítala, í írskum súpermarkaði, mexíkönskum tungumálaskóla, íslenskri rækjuvinnslu og verið á síldarvertíð.

Ingunn er alin upp í fimm systkina hópi og er miðbarnið (sem útskýrir margt fyrir þeim sem kunna hvar-í-systkina-röðinni-fræði). Hún er þó lítið gefin fyrir hópíþróttir. Ingunn er í meistaranámi í íslensku.
Hljóðfræði er henni hugfólgin."

Ingunn hefur áður sent frá sér ljóðabókina Á heitu malbiki árið 1995.


Smellið hér, til að lesa ljóðin tvö, sem nefnast silungsveiði á Íslandi og XVII.

5.10.06

Í landi norðurljósanna e. Einar Má Guðmundsson

Á leið sinni á ljóðaupplestur í Færeyjum, nánar tiltekið á "bókmentatiltakinu" á G!-festival, rifjar ljóðskáldið og rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson upp samband sitt við Færeyjar sem nær aftur til ársins 1977 þegar Einar fór á vertíð til Klakksvíkur. Í frásögn þessari er víða staðnæmst við ljóðrænan veruleika eyjanna "í landi norðurljósanna", eins og Einar kallar það, og rifjaðar upp minningar af eyjarskeggjum; minningar sem hann upplifði, las um og ýkti jafnvel eða púslaði saman úr hálfkveðnum vísum. Þá segir Einar frá tilurð að minnsta kosti eins ljóðs, og af kynnum sínum við hið dularfulla færeyska ljóðskáld og handhafa bókmenntaverðlauna norðurlandaráðs, Róa Paturssyni.

Smellið hér til að lesa greinina.

4.10.06

Tómasarverðlaunin


Ingunn Snædal hlaut í dag bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Guðlausir menn - Hugleiðingar um jökulvatn og ást. Áður hefur Ingunn sent frá sér ljóðabókina Á heitu malbiki árið 1995. Þá má til gamans geta að í sumar mæltu Tregawöttin sérstaklega með Morgunblaðsgrein hennar um ljóðaþátt samræmdu prófanna eins og rifja má upp hér. Tregawöttin óska Ingunni að sjálfsögðu innilega til hamingju með verðlaunin með von um að aldrei verði þessi ljóð vondum samræmdum prófum að bráð.

Nánar má lesa um afhendinguna í þessari frétt hér á vef Morgunblaðsins.

Klof vega menn e. Kristínu Svövu Tómasdóttur

Tittlingar námu land,
tittlingar námu völd.
Þeir kveiktu elda á fjallatindum,
drukkið var um kvöld.
Þeir ræktuðu upp túnin
og riðu í kaupstaðarferð,
þeir stunduðu klofvegagerð.

En klof vega salt
og klof vega menn.
Þær vógu þeirra ætlanir
og vega þær enn.
Þær smurðu sínar kuntur
og komust ört til manns,
þær glottuleitar stigu vaselínudans.

Nú tittlingarnir standa í barnatímaleit
og þróað með sér hafa háttatímaskyn.
Þær hanga á vínbarnum
og eiga hommavin
(tittlingar námu menn)
sem þær drekka með um kvöld
- sorrí strákar, þetta er tittlinganámuland
og tittlinganámuvöld.


Kristín Svava Tómasdóttir

3.10.06

Harðsoðið egg e. Bjarna Bernharð Bjarnason

Á borði mínu
stendur harðsoðið egg.

Hugur minn harðsoðinn.
Hjarta mitt harðsoðið.

Dauðinn birtist
lætur greipar sópa
um hug og hjarta.

Á borði mínu stendur eftir
harðsoðið egg.


Bjarni Bernharður BjarnasonLjóðið er úr nýrri bók Bjarna, Vélgölturinn, sem kom út hjá Deus á dögunum.
Í tilkynningu frá útgefanda segir m.a.: „Í þessari bók gerir skáldið upp við örlagaríka atburði fortíðarinnar. Bókin skiptist í stutta og ljóðræna texta og lengri prósa. Ljóðlist Bjarna Bernharðs hefur seinni árin einkennst af meiri ljóðrænni kyrrð og myndrænni fegurð en æskuverk hans báru með sér og er anægjulegt að fylgjast með þessum þroska á höfundarferli Bjarna. [...] Vélgölturinn er tólfta ljóðabók Bjarna Bernharðs. Hann hefur fengist við skáldskap og málaralist í þrjá áratugi.“

2.10.06

Listamannalaunum var úthlutað í gær e. Dag Sigurðarson

Þjóðskáldið frá Grettisgötu hefur hvorki bragðað vott né þurrt dögum saman. Hann er farinn að gánga í loftinu og hættur að finna fyrir slyddunni sem seitlar innum götin á skónum. Fæturnir eru dofnir. Hann er blánkur, kvenmannslaus, á götunni.
Hann fer inní port til að pissa. Þegar hann er að ljúka sér af finnur hann að hönd er lögð á öxl honum.
- Komdu, segir vinaleg rödd. Komdu og fáðu þér bita.
Dyr opnast fyrir framan þjóðskáldið. Hann er leiddur til sætir í uppljómuðum veislusal. Þarna er mikið af kátu fólki. Á borðum er herramannsmatur, þrír menntamálaráðherrar, steiktir í heilu lagi á teini, fylltir með frösum. Það er verið að halda ræðu:
- Segjum svo ... Segjum að ... Tökum dæmi ...
Hvílíkt lostæti! Þjóðskáldið er mikið fyrir feitt og hámar í sig matinn af græðgi.
- Tökum dæmi ... Tökum annað dæmi ... Tökum svo enn eitt ... Segjum svo ... Segjum nú svo ... Segjum ...
Inn eru bornir þrír leirbullarar fylltir með rímklúðri og dauðhreinsaðri lýrikk.

Þeir fundu hann liggjandi á grúfu í portinu.
- Hann er fullur, sagði yngri lögregluþjónninn.
Sá eldri þagði ábúðarfullur.
- Víst er hann fullur.
- Minna má nú sjá, sagði sá eldri: Hann er útúr.


Dagur Sigurðarson
Refresh Page