31.5.06

Poeme trouvé - Opus 2

Poeme trouvé - Opus 2. - Ljóðið fann Haukur Már Helgason. Smellið á myndina til að komast nær ljóðinu.

Hringrás ástarinnar e. Tandra Árdal

Tárin mín
eru einsog sandkorn í stundarglasinu

Snýr enginn glasinu?
Nei
Non

Sandkorn á ströndu, skolast út í hafið
........Ástin

Þau gufa upp í gufuhvolfið og rignir síðan
........aftur í hafið

Meira hér...

30.5.06

Úr Eðalog e. Val Brynjar Antonsson

Ljóðið hér að ofan er fengið úr nýjustu ljóðabók Vals Brynjars Antonssonar, Eðalog, sem var gefin út í seríu Nýhils, Norrænar bókmenntir fyrir skemmstu. Frekar má fræðast um bókina á Nýhil-vefnum, en hana má kaupa með því að heimsækja Ljóðabókaverzlun Nýhils í kjallara Kjörgarðs eða með því að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org.

29.5.06

MySpace er krípí e. K. Silem Mohammed

Og því hef ég komist að þeirri niðurstöðu að MySpace sé krípí.
Þú spyrð þig kannski hvernig ég hafi komist að þessu. Það skal ég segja þér.
Ein stelpa sem ég var að tala við reyndist vera 14 eftir að hafa sagst vera 18.
Ein stelpa sem ég var að tala við reyndist vera 15 eftir að hafa sagst vera 19.
Ef þú ferð á síðuna og það stendur að hún sé 14, vertu rólegur, við höfum ekki misst vitið.

GRRRRRRR, Hallóóóóóóó.
Ég er gluggagægir og skammast mín ekkert.
Þú sem lífvera varst sköpuð til að hljóta ást og umhyggju.
Mér fannst bara að þú ættir að vita að í dag áttu afmæli
og að MySpace er krípí.


Meira hér...

28.5.06

Úr Húðlit auðnin e. Kristínu Eiríksdóttur

Draugalestin var eftirminnilegust, segir þú. Um opið hlykkjuðust fótleggir nakinnar konu. Húðflúrað gat á maga mannsins sem hleypti þér um borð, úr gatinu brutust örsmáar beinagrindur. Hann sagði að þú færir inn á eigin ábyrgð. Draugalestin ók þér inní draugagöngin en ekkert gerðist nema kolniðamyrkur. Þú fannst að þú ferðaðist en sást ekkert. Teiknimynd rúllaði nokkra ramma, svo ekkert. En hvar voru þessi göng spyr ég og hvernig komstu útúr þeim aftur. Þú leggur vísifingur að holdinu undir hægra auga, dregur.

Kristín Eiríksdóttir

Ljóðið er úr nýrri bók Kristínar, Húðlit auðnin, sem kom út í seríu Nýhils, Norrænar bókmenntir, fyrir fáeinum dögum. Bókina má kaupa í Ljóðabókaverzlun Nýhils, í Kjörgarði inn af Smekkleysubúðinni. Frekari upplýsingar um bókina má finna á Nýhil-vefnum.

27.5.06

Rússakosning í Reykjavík e. Örvar Þóreyjarson Smárason

Rússakosning í Reykjavík
ríður mér að fullu.
Sjálfstæðisflokkurinn steikir lík
uppúr sulladrullu.

Örvar Þóreyjarson Smárason


Tekið skal fram að ljóðið, sem ku samkvæmt óáreiðanlegum heimildum vera utankjörfundaratkvæði skáldsins í hnotskurn, er birt án leyfis.

Sjón í Berlín


Drengurinn með röntgenaugun, ljóðskáldið Sjón, kemur fram á ljóðahátíð í Berlín í dag. Atburðurinn, sem nefnist "Nacht der Poesie", fer fram undir beru lofti við Potsdamer Platz kl. 20 í kvöld. Einnig mun hann taka þátt í dagskránni "Poesiegespräch - Vom Gedicht zum Songtext: Dem Ton auf der Spur" í Literaturwerkstatt þann 31. maí kl. 18.30. Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vefsíðunni: http://www.literaturwerkstatt.org/

Lórelei e. Heinrich Heine

Ég veit ekki' af hvers konar völdum
svo viknandi dapur ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Það húmar og hljóðlega rennur
í hægðum straumlygn Rín.
Hinn ljósgullni bjagtindur brennur,
þar blíðust kvöldsól skín.

Þar efst situr ungmey á gnúpi,
með andlit töfrandi frítt,
og greiðir, í glitklæðahjúpi,
sitt gullhár, furðu sítt.

Með gullkambi' hún kembir sér lengi
og kveður undrabrag.
Svo voldugt að við stenst engi
er vífsins töfralag.

Heinrich Heine

Þýðing: Steingrímur Thorsteinsson

Goethe-stofnunin í Reykjavík stendur fyrir fyrirlestri um Heinrich Heine í Landsbókasafni Íslands kl. 13.30 í dag, laugardag. Fyrirlesari er Jan-Christoph Hauschild, sem meðal annars hefur skrifað ævisögu Heines. Fyrirlesturinn verður haldinn á þýsku og til meðlestrar verður þýskum texta varpað á sýningartjald. Í lokin verður boðið upp á vínglas með léttu spjalli við fyrirlesarana.

Í tilkynningu segir meðal annars: "Friedrich Nietzsche skrifaði um Heine >>Eitt háfleygasta hugtakið um ljóðskáld gaf mér Heinrich Heine<<. Þessi fjölbreytilegi listamaður kynnti betur en nokkur annar, fegurð og sannleika, list og kjark, listrænt sjálfstæði og félagslegar skyldur, rómantík og byltingu. Sem barn upplýsinganna og "síðasti eftirlauna ævintýrakóngur" skáldsögunnar tilheyrði Heinrich Heine jafnframt gamla og nýja heiminum. Fæddur á tímamótum tveggja pólitískra sem efnahagslegra, þjóðfélagslegra sem og hugmyndasögulegra fullkomlega ólíkra alda var hann samtímamaður og tímamótavitni tvöfaldrar byltingar: frelsun borgaranna af eigin dáð úr hlekkjum lénsmanna sinna og losun framleiðsluafla sem höfðu í för með sér tæknilegan ávinning og félagslega neyð."

26.5.06

Poeme trouvé - Opus 1

Poeme trouvé - Opus 1. - Ljóðið fann Haukur Már Helgason

Pugilists e. W. Mark Sutherland

Hljóðljóðið Pugilists er eftir kanadíska ljóðskáldið W. Mark Sutherland. Sutherland var meðal gesta á fjölljóðahátíðinni Orðið tónlist sem haldin var á nýliðinni helgi, og átti einn af eftirminnilegri performönsunum. Ljóðið er fengið af disknum Oral cavity, og það má heyra með að smella hér (hægrismellið og veljið 'save target as' til að vista).

25.5.06

Tvö ljóð úr nýrri ljóðabók Þórdísar Björnsdóttur

27.

Hann sagðist hafa skorið
burt útlimi og saumað fyrir
brjóstholið með nál
til að loka fyrir allt það
sem ekki mátti gleymast

En skugginn minn og ég
fylgdumst með öllu úr fjarska
og sögðum ekki orð


28.

Líkaminn hékk bundinn
og sveiflaðist til og frá
meðan stormurinn gekk yfir
en í baksýn sást mannfuglinn
plokka af sér fjaðrir milli trjánna
meðan ormarnir skriðu innan innum götin
og grófu sig djúpt ofan í holdið

Þórdís Björnsdóttir

Ljóðin hér að ofan eru fengin úr glænýrri ljóðabók Þórdísar. Bókin er úr seríu Nýhils, Norrænar bókmenntir, og fæst í öllum helstu bókabúðum, m.a. í Ljóðabókaverzlun Nýhils í Kjörgarði. Þá má kaupa bókina, eða áskrift að seríunni, með því að senda póst á nyhil@nyhil.org. Frekar má fræðast um bókina á Nýhil-vefnum.

Ljóðakvöld Nykurs

Fimmtudaginn næstkomandi, þann 26. október, mun skáldafélagið og útgáfan
Nykur standa fyrir ljóðakvöldi á Litla ljóta andarunganum (í innri
salnum). Gamanið hefst klukkan 21:00.

Að þessu sinni munu eftirfarandi Nykurskáld lesa:

Arngrímur Vídalín
Emil Hjörvar Petersen
Jón Örn Loðmfjörð
Kári Páll Óskarsson
Bjarney Gísladóttir
Urður Snædal

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir!

24.5.06

Þegar e. Vilborgu Dagbjartsdóttur

Tregawöttin vilja benda lesendum sínum á Ljóð mánaðarins á JPV-vefnum. Ljóðið er myndskreytt hreyfiljóð, útfærsla á ljóðinu Þegar eftir skáldkonuna háæruverðugu, Vilborgu Dagbjartsdóttur. Smellið á myndina til að sjá ljóðið.

Poèmes trouvés

Vakin skal athygli lesenda á því að búið er að stofna nýjan flokk á Tregawöttunum, undir heitinu Poèmes trouvés, eða "fundin ljóð". Fundnuljóðin kallast á við ready-made listina, og eru eins og nafnið gefur til kynna einhvers lags texta/tungumálsverk sem finna má í náttúrunni og birta óbreytt undir heitinu ljóð. Þeim sem vilja senda inn fundin ljóð er bent á að leitast á við, eftir því sem kostur er, að hafa myndræna framsetningu ljóðsins eins og hún er í náttúrulegu umhverfi sínu. Því er ekki vitlaust að skila þeim inn í .jpg-formi, fremur en sem texta. Mönnum er svo frjálst að nefna ljóð sín hverju því nafni sem þeim sýnist (nafnið þarf ekki að finnast). Ljóðið hér að ofan fann Eiríkur Örn Norðdahl hér, og heitir það Ekkert huglægt.

23.5.06

Fundið í fjörunni

Ég reikaði um netið sem rótlaust þang og fann loks í fjörunni ljóð. Reyndar er talið að um auglýsingu sé að ræða en ekki er vitað hvað er verið að auglýsa. Það er ekki ljóst, það er einhvernveginn alveg óljóst, ekki í brennidepli. Kannski eru þetta skilaboð til ökuþóra um að akstur krefjist óskiptrar athygli og að blóðið megi ekki þynna í áfengi, en hugsanlega er þetta hvatning frá samtökum atvinnurekenda: einbeitið ykkur við vinnuna, eða kannski bara áminning frá sjóntækjafræðingum - drífið ykkur endilega í skoðun. Ég held að við ættum þó fyrst og fremst að vera þakklát fyrir að þessu skemmtilega ljóði skuli hafa skolað hingað svo við getum keyrt ljóðrafalana á fullum afköstum.

Um Reykjavík - framtíðin er hér e. Hallgrím Helgason

Í velferðarþjóðfélaginu er ekkert plebbalegra en kosningabaráttur. Smákóngar berja aldrei jafn fast á brjóst sér, jafn sjálfbirgingsklikkaðir, og vikuna fyrir kosningar. Þetta eru dagar hinna innantómu hugmynda – „ertu með?“ og „allir með!“ – athafnastjórnmál og umræðustjórnmál. „Það er kosið um skipulagsmálin“ - „það er kosið um atvinnumálin“ – blaðamenn og atvinnuálitsgjafar endurtaka sama pípið og þeir píptu fyrir síðustu kosningar. Og í miðju kraðakinu var ég staddur á lítilli pizzabúllu í Reykjavík, hvar ég var að vinna mitt daglega góðverk (sem að þessu sinni var að fæða fátækling) þegar ég rakst á Samfylkingarblaðið. Þar kenndi auðvitað fárra forvitnilegra grasa – en þó var blaðið ekki algerlega tómt. Í blaðinu mátti nefnilega finna ljóðið „Reykjavík – framtíðin er hér“ eftir Hallgrím Helgason, miðborgarskáldið sjálft, manninn á bak við póstnúmerið. Hallgrímur hefur oft á tíðum gert áhugaverða hluti á ljóðsviðinu - og honum til hróss má meðal annars nefna frjálsa þýðingu á Pulse of the rhyme eftir ICE-T, undir heitinu Með rími ég rek þig á hol – en ég get samt ekki með góðu móti viðurkennt að það hafi komið mér á óvart að hann gæti ort vond ljóð. Ljóðmæli hans eru af mistækasta tagi. En þetta tiltekna ljóð var engu að síður sjokkerandi heimskuleg hrákasmíð.

Meira hér...

22.5.06

ljod.is e. Vikk

Í lok aprílmánaðar gaf að líta heldur óhefðbundið ljóð dagsins á ljóðavefnum www.ljod.is. Skáldið kallar sig Vikk og í ljóðinu koma fyrir nokkur misþekkt nöfn úr íslenskri ljóðamenningu. Flest viðföng ljóðmælanda eiga það sameiginlegt að hafa komið að vefnum www.ljod.is á einhverjum tíma en inn á milli koma þó fyrir nöfn sem er ansi erfitt að tengja sérstaklega við vefinn sem ljóðið dregur titill sinn af.

Meira hér...

Bakvið altarið eftir Kristínu Eiríksdóttur


Vídjóljóðið Bakvið altarið er eftir Kristínu Eiríksdóttur. Kristín hefur gefið út tvær ljóðabækur, Kjötbæinn sem kom út hjá Bjarti 2004 og svo Húðlit auðnin sem kom út í seríu Nýhils, Norrænar bókmenntir, síðastliðinn laugardag. Kristín er þessa dagana búsett í Búdapest. Til stóð að Bakvið altarið yrði flutt á nýafstaðinni fjölljóðahátíð, Orðið tónlist, en af því gat ekki orðið.

20.5.06

Ölvaða borg e. Hermann Stefánsson

Þessi borg er ölvuð
turnar hennar tróna skakkir og skældir
byggingar úr mistri

skip sigla fullum seglum um strætin

áðan spurði mig einhver til vegar
ég svaraði því játandi

en að enginn þeirra lægi lengur til áfangastaðar

þessi borg er ölvuð
þeir söngla bænir sínar í turnunum
þótt þeir viti að á götunum er enginn
sem ekki heyrir til þeirra lengur

trúðarnir hafa sett upp óumræðilegan mæðusvip
stytturnar eru ekki samar og áður
jafnt þótt maður kastaði í þær sandi eða snjóboltum

auðvitað er listileg rigning og göturnar hafa flestar runnið til
það gildir einu fyrir þá sem á annað borð sigla

raunar hvíslaði regnið einhverju að mér í gær – ef ekki bara í gærkvöldi
en þá var ég að hlusta eftir fótataki svo ég veit ekki hvað það var

heyrðu, ég sé ekki betur en að áhöfn eins sjóræningjaskipsins sé að bera burt
allt silfrið í búðunum á torgi silfursmiðanna
sama er mér
þeir vita ekki hvað þeir eiga í vændum
fremur en aðrir

þessi borg er ölvuð
minningar mínar myndu bera mig ofurliði hefði ég minni
fæturnir bæru mig ofurliði hefði ég fætur
sum andlitin sem ég mæti fara langt með að gera útaf við mig

eins og þitt myndi gera ef ég hrinti upp sjóblautri hurð á siglingabar
æddi inn
og segði:
hingað er ég kominn
alla þessa leið
fyrir þig


Hermann Stefánsson

Fyrsta ljóðabókabúð Íslands

Í dag gerast þau stórtíðindi á Íslandi að fyrsta bókabúðin sem sérhæfir sig í sölu ljóðabóka opnar í Kjörgarði. Það er Nýhil sem stendur fyrir þessum gjörningi og mun reka búðina um ókomna tíð. Vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á áður óþekkt úrval af íslenskum og erlendum forlagsbókum, og ekki síður sjálfsútgáfubókum. Húsnæði verslunarinnar er að Laugavegi 59, í kjallara Kjörgarðs, inn af plötuverslun Smekkleysu. Opnunin stendur frá 16 til 18 og í boði verða "léttar veitingar, ljúf skemmtiatriði og leiðinleg ræðuhöld", eins og segir í tilkynningu. Búðin verður framvegis opin virka daga frá 14 til 18. Eins og lesendur Tregawattanna vita er nýkomið seinna hollið í ljóðabókaseríu Nýhils, Norrænar bókmenntir. Áskrifendur að Norrænum bókmenntum geta sótt eintök sín í búðina, og þeir sem það gera á laugardaginn fá safnljóðabók Nýhils Ást Æða Varps í kaupbæti. Aðrir áskrifendur fá svo seríuna senda heim. Þeir sem vilja kaupa sér áskrift að seríunni geta gert það í ljóðabókabúð Nýhils, eða með því að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org. Bækurnar fimm sem nú koma út eru Roði eftir Ófeig Sigurðsson, Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur, Eðalog eftir Val B. Antonsson, ónefnd bók eftir Þórdísi Björnsdóttur og Litli kall strikes again eftir Steinar Braga. Fyrri bækurnar fjórar í seríunni voru Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason, Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl og Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason. Allar þessar níu bækur fást fyrir litlar 6.750 krónur.

Frekari upplýsingar er að fá hjá Þór Steinarssyni, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni, verslunarstjóra Nýhils (869-3099).

19.5.06

Enzo Minarelli á Orðið tónlist

Tregawöttin tíu þúsund vilja benda lesendum sínum á ljóð Enzos Minarelli, Cultpppoem, sem hýst er á Ubu-vefnum. Ljóðið má heyra með því að smella hér, og önnur verk Enzos má heyra með því að smella hér. Enzo þessi er einn gesta á fjölljóðahátíðinni Orðið tónlist sem stendur yfir þessa dagana. Helstu uppákomurnar fara fram í kvöld og á morgun, og svo er málþing á sunnudag. Dagskráin fer hér að neðan.

Þá má minna á færslu um Rod Summers, sem einnig tekur þátt í hátíðinni.

Meira um Orðið tónlist hér.

Norrænar bókmenntir

Nýhil gefur í dag út fimm nýjar bækur. Um er að ræða síðara holl í ljóðabókaseríu Nýhils, fimm ljóðabækur frá jafn mörgum nýhilistum. Ónefnd bók eftir Þórdísi Björnsdóttur, Eðalog eftir Val Brynjar Antonsson, Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur, Litli kall strikes again eftir Steinar Braga og Roði eftir Ófeig Sigurðsson.

Meira hér...Spurt og svarað: Frelsandi heimilishvalveiðar

Fjölmargir aðilar hafa komið að máli við mig til þess að fræðast um heimilishvalveiðar, og því hef ég ákveðið að svara hér algengustu spurningunum.

1. Eru hvalveiðar hættulegt sport?
Til að byrja með eru hvalveiðar alls ekki neitt sport. Hvalveiðar eru list. Líkt og gildir um bardagalistir er kjarni þeirra frelsandi, við hvalveiðar frelsast maður/kona frá sjálfum/sjálfri sér. En burtséð frá því, þá eru þær jú hættulegar. Lífið er hættulegt, hvalir eru stórir. En þeir sem haga sér viturlega eru líklegir til að lifa af sinn fyrsta hval. Þegar maður hefur einu sinni náð fullnaðartökum á hvalveiðilistinni, þá gleymir maður þeim aldrei.

Að því sögðu er ljóst að jafnvel reyndustu hvalveiðimenn geta orðið leti sinni, sinnuleysi eða vananum að bráð. Engir tveir hvalir eru eins, hvorki sem líf eða bráð.

2. Þarf maður ekki stóran bát til að stunda hvalveiðar?
Nei! Það er nákvæmlega þetta sem heimilishvalveiðar snúast um, frelsandi hvalveiðar. Það er ekkert sameiginlegt með heimilishvalveiðum og þeim fávísu iðnaðarbestíum sem stunda hvalveiðar sínar á risastórum skipum og framleiða hval eins og hverja aðra verksmiðjuvöru, firrtir sjálfum sér, firrtir lífinu og firrtir hvalinum á eina höndina og einkahvalveiðum á hina. Sú staðreynd að hvorutveggja er kallað hvalveiðar, er einfaldlega ómerkileg tilviljun.

Heimilishvalveiðimaður getur notast við bát eða sleppt því. Lengra komnir hvalveiðimenn synda á eftir bráð sinni. Það þarf vart að taka fram að ekki er mælt með þessari aðferð fyrir byrjendur. En enginn sannur hvalveiðimaður lætur grípa sig á bát sem er lengri en 3,5 metrar, né heldur notast hann við utanborðsmótor við siglingu bátsins. Eftirfarandi er nauðsynlegt að hafa.

Þekkingu á mökunarsvæðum hvalatorfa.
Hæfileika til að herma eftir ástarsöngvum þeirra. (Takið eftir að fyrstu tvö atriðin á listanum hafa með þekkingu eða verksvit aðgera. Þetta er engin tilviljun. Mikilvægustu atriðin við hvalveiðar liggja innra með manni, ekki„þarna úti“.)
Dráttartog sem haldið getur 2-20 tonnum, eftir hvalategund (og getu hvalveiðimannsins). Að minnsta kosti 200 metra löng -- hafið hugfast, þið viljið ekki hverfa niður með hvalnum.
Beita: Fiskur, slóg eða minni hvalur en sá sem á að veiða.
Sverð.
Ekki er óheyrt að hvalveiðimenn taki með sér talstöð eða farsíma, til öryggis, auk annars búnaðar af svipuðum meiði: blístru, björgunarvesti, o.s.frv. Ég er nauðbeygður til að sýna þessu skilning hvað varðar byrjendur og viðvaninga, en hafið í huga að slíkar varúðarráðstafanir munu halda aftur af getu ykkur og fyrr eða síðar mun reynast nauðsynlegt að sleppa þeim.

3. Finnast kvenkyns hvalveiðimenn?
Hugsanlega, já.

4. Finnst nokkurs staðar samfélag hvalveiðimanna?
Nei, né getur slíkt orðið til. Hvalveiðimaður er karl (eða kona) einn og afskiptur. Hvalveiðimenn hittast ekki, þeir rekast á hver annan.

5. Hvernig nákvæmlega fara hvalveiðarnar fram (með ofangreindum búnaði)?
Róið. Staðnæmist. Tælið hvalinn til ykkar með söngi og beitu. Gælið við hann. Læðið tauginni um sporðinn á honum, eða aðra framstæða hluta hans. Stingið hann með sverðinu. Hann deyr ekki við fyrstu stungu, hann tryllist. Haldið ykkur fast í bátinn. Hvað sem gerist, haldið ykkur í bátinn, hvalurinn mun þreytast og tapar vonandi orku eftir því sem honum blæðir út. Þegar hann róast aftur skuluð þið nálgast hann að nýju (eða, ef þið kjósið þokkafullu aðferðina, þá lokkið hann aftur til ykkar), gælið við hann og stingið hann. Endurtakið þetta eins oft og nauðsyn krefur, við allar eðlilegar aðstæður, þó það fari eftir stærð og aldri hvalsins, mun hann deyja innan við 12 tímum eftir að honum er veitt fyrsta sárið. Dragið hvalinn að ströndu (nei, hvalir sökkva ekki þegar þeir deyja, þeir fljóta).

6. Hver er uppruni frelsandi hvalveiða? Eru einhver söguleg tengsl við ródeóið, eða þarna spænsku íþróttina með nautunum?
Frelsandi hvalveiðar eiga uppruna sinn í fornri visku Eddukvæða. Þær hafa nýlega verið lífgaðar við af meistara Þórbergi Þórðarsyni, sem stundaði hvalveiðar sínar nakinn og bátslaus á miðri 20. öldinni, og náði fullkomnun í þokka og tækni, að ekki sé minnst á algerri frelsun. Þar til á síðari hluta tíunda áratugarins stunduðu Íslendingar hvalveiðar sínar í laumi. En í dag, eftir því sem listin nær fótfestu víðar í heiminum, líkt og eldur í sinu, gerist þess ekki lengur þörf, við fögnum hvalveiðunum opinskátt og tökum fullan þátt í þessari æðstu andans list, og höfum boðið gervöllu mannkyni með í leikinn.

Það eru engin þekkt söguleg tengsl við aðrar mannsins iðjur, þó við viðurkennum fúslega að yfirborðsleg líkindi séu með hvalveiðunum og ýmsum öðrum greinum. Naut eru samt talsvert minni dýr en hvalir.

7. Hvalir eru ekki fiskar, er það?
Nei, en við viðurkennum fúslega að yfirborðsleg líkindi eru með hvölum og fiskum. Hvalir eru meðal gáfuðustu og þokkafyllstu spendýra jarðarinnar, sumir vilja jafnvel meina að þeir séu gáfaðri en menn. Í því má finna reisn listar okkar.

Haukur Már Helgason
Þýðing (úr ensku): Eiríkur Örn Norðdahl
Verkið má finna á frummálinu með því að smella hér.

18.5.06

Dauði norðanvindsins


Guðmundur Andri Thorsson segir í Fréttablaðinu í dag að sig reki ekki minni til þess að hafa lýst yfir dauða ljóðsins, líkt og honum var brigslað um í grein Kristjáns B. Jónassonar í sama blaði síðasta sunnudag.

Tvö ljóð úr Ráð við hversdagslegum uppákomum e. Óskar Árna Óskarsson

Hollráð í tengslum við inniveru

Innivera hefur á síðustu árum verið stórlega vanmetin. Gott ráð til að venja sig á inniveru er að semja við kaupmanninn um heimsendingarþjónustu. Þá er maður fullkomlega frjáls og áhyggjulaus að reika milli herbergja, njóta bóklesturs, teygjuæfinga og alls þess sem maður hefur yndi af. Veðrið fyrir utan gluggann er síbreytilegt og fátt veitir meiri innri ró en að fylgjast með skýjafarinu frá degi til dags. Bjóðist ykkur heimilishjálp er engin sérstök þörf á henni.


Meira hér...

17.5.06

Hjárænulegt kvein

„Allt kveinið um að það vanti „vettvang fyrir ljóðið“ hljómar hjárænulega á gullöld bloggsins. Það er ekkert mál að opna netsíður með ljóðum og ljóðaumræðu.“

Ég hnaut um þessa klausu í annars ágætri Fréttablaðsgrein Kristjáns Bjarka Jónassonar um stöðu ljóðsins, „Skáldin berja frá sér“ (Um hana má lesa nánar
hér). Auðvitað er þetta ekkert mál, blogger og fleiri síður eru nær aulaheldar og kosta ekki neitt. En þarna kemur fram sú oftrú á tækninni sem algeng er þegar netið ber á góma. En fæstir eru enn búnir að átta sig almennilega á hvernig á að nota netið, netráp margra er enn sem komið er dálítið fast í gamla línulega hugsunarhættinum sem við ólumst upp við í gegnum dagblöð og tímarit, líklega tekur að minnsta kosti kynslóð í viðbót til þess að netið geti farið að verða sá magnaði fjölmiðill sem það hefur vissulega burði til að verða. Þannig eru langflestar bloggsíður aðeins lesnar af fámennri kreðsu, oft fólk nátengt höfundi. Vefrit eru flest rekin af vanefnum og borgun fyrir skrif þar er fáheyrt fyrirbæri.

Lesa meira ...

Fjögur ljóð úr Fjórar línur og titill e. Braga Ólafsson

Í eldhúsinu á Calle Oidores

Svört maurahrúgan í horninu við sorpfötuna
minnti mig alltaf á kvensköp.
Ég vissi aldrei
hvað mér átti að finnast um þetta fyrirbæri.


Meira hér...

Draumur e. Birgittu Jónsdóttur (mp3)

Ljóðið Draumur er eftir Birgittu Jónsdóttur, og er flutningur þess í höndum Birgittu sjálfrar og Michael Pollock. Tónlist við ljóðið samdi Danny Pollock en hljóðblöndun sá Ósk Óskarsdóttir um. Smellið hér til að hlusta (hægrismellið og veljið 'save target as' til að vista). Ljóðið er hægt að lesa með því að smella hér.

Tenglar:

Blogg Birgittu
Tíu smákver Birgittu
Beyond Borders Publishing
Birgitta á Ljóð.is

16.5.06

Um Teardrops of Wisdom e. Silvia Night

Teardrops of Wisdom eftir Silvia Night er ekki ljóðabók sem kemur á óvart. Hún er að öllu leyti eins og við mátti búast af Silvíu Nótt – ljóðin eru stutt, þau hverfast í kringum ljóðmælanda og þann gríðarlega dýrðarljóma sem stúlkan hefur búið til í kringum sig. Ljóðin eru reyndar svo stutt að íslensk þýðing hundrað blaðsíðna bókar er birt á einni einustu opnu aftast í bókinni. Það er eitt ljóð á hverri opnu, og ljóðin eru skreytt með myndum af súperstjörnunni í erli dagsins, sem í tilfelli Silvíu á sér stað í ljósmyndastúdíóum í stílíseriðum stellingum. Framsetning ljóðanna er í konkret-stíl, pældum uppsetningum – stórum stöfum, lituðum, mismunandi leturgerðum og leturlitum – sem væntanlega eru hugarfóstur auglýsingastofunnar Vatíkanið, sem er skrifuð fyrir „listrænni stjórnun og hönnun“. Meira hér...

3 ljóð eftir Franz Wright

Alkóhól

Þú ert nú dálítið ræfilslegur.

En við getum bjargað því.

Ekki satt.

Satt best að segja líturðu ömurlega út.

Heyrirðu það.

Þú ert ekki einn.

Og þér veitir ekki af einhverri hjálp í dag, þar sem þú pakkar niður í
myrkrinu, stígur upp í rútuna, hallar sætinu aftur og
glottir meðan skelfingin streymir yfir fætur þína, milli
fingranna og gegnum hárið…

Ég beið alltaf, var alltaf til staðar.

Þekkirðu einhvern sem getur sagt það sama.

Ég ráðlegg þér að hugsa um hana eins og hún er:
enn eitt nafnið rist í tungu þína.

Hvernig var þetta aftur hjá þér, „Frekar að skaddast en
að valda skaða, það er ekki lítilmótlegt.“

Hlífðu mér.

Getum við ekki farið að koma okkur af stað.

Manstu, við kunnum vel við okkur í rútu. Saman

gætum við horft á þessa vetrarakra líða hjá, og
kvíðinn hverfur með þeim,

hugsaðu þér bara.

Ég þarf hvergi að vera.
Næturskrif

Það sem heyrist þegar einhver grætur í næstu íbúð.

Í framandi borg, hér er ég þá, eina ferðina
enn

óviðbúinn þessum sérstöku kringustæðum

eða hvaða kringustæðum sem er, semsagt –

frosinn í stólnum

líkami minn eitt stórt eyra.

Stórt eyra skríðandi upp eftir vegg.

Í herberginu þar sem ég muldra án afláts og pata –
og enginnn má heyra í mér –
aleinn þar til ég sofna:

líf mitt sundurtætt jörð farin að grænka á ný.

Það sem heyrist þegar einhver grætur
Þarna
(Thomas Frank)

Látum rigna núna,
göturnar eru auðar.
Kuldalegt hvísl laufblaðanna
yfir húsþakinu;
skrjáf í blaðsíðum,
bók skilin eftir opin við gluggann.
Göturnar eru auðar, það má byrja
núna.

Eins og þú
var ég ekki viðstaddur
útförina. Þennan morgun

gekk ég út
í fyrsta sinn
og ráfa hér
innan um ógrynni
af merkingarlausum nöfnum
sem standa grafkyrr
í grasinu –

(nafnið á steininum þínum
mun standa
lengi
í símaskrám,
ljós, býst ég við,
frá horfinni stjörnu…)

- einungis til að staðsetja reitinn,
komast nær, án þess að vita hvar þú ert
eða að þú vitir að ég er þarna.


Franz Wright

Þýðing: Jón Kalman Stefánsson

Rod Summers á Orðið tónlist

Meðal gesta á fjölljóðahátíðinni Orðið tónlist sem haldin verður næstu helgi er breski ljóðlistamaðurinn Rod Summers. Rod verður með uppákomu á laugardagskvöldinu auk þess sem hann tekur þátt í málþinginu á sunnudeginum. Tregawöttin vilja mæla með því að ljóðelskir kynni sér verk Rods á Ubu-vefnum, þar sem finna má þónokkuð af afrakstri samstarfs hans við Jesse Glass undir heitinu THE PARADISE POLICE: nEUROGENESIS. Þá mælum við sérstaklega með ljóðverkinu For Tom (smellið til að hlusta, hægrismellið og veljið 'save target as' til að vista).

Skáldaspírukvöld

64. Skáldaspírukvöldið verður haldið nk. þriðjud. kl. 20.00 í Iðu, að vanda.
16.maí. Skáld kvöldsins að þessu sinni er Emil Hjörvar Petersen, en hann er
nýkjörinn formaður Torfhildar, félags bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands.

Emil mun lesa upp úr ýmsum verkum sínum, ljóðum, smásögum og öðrum verkum,
þ.á m. væntanlegri ljóðabók sem kemur út með haustinu.

Skipuleggjandi kvöldsins er Benedikt S. Lafleur: gsm 659-3313


Tenglar:
Blogg Emils
LaFleur-útgáfan

15.5.06

Um Hæðir Machu Picchu

Tregawöttin vilja benda á umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur á bókmenntavefnum um bókina Hæðir Machu Picchu e. Pablo Neruda í þýðingu Guðrúnar H. Tulinius. Úlfhildur segir meðal annars: "Hin yfirgefna borg Inkanna, Machu Picchu, hefur löngum verið uppspretta mikilla vangaveltna og goðsagna. Yfir sögu borgarinnar hvílir dulúð, þó menningarsamfélög mið- og suður-ameríku séu í auknum mæli að ljúkast upp. Neruda reynir að fanga þessa dulúð í ljóðabálki sínum en á köflum finnst mér hann tapa sér um of í torræðri þoku heimspekilegra vangaveltna. Tærustu hlutar ljóðsins eru þeir sem lýsa sjálfri borginni, og þá sérstaklega í fyrrnefndum þulu-köflum, þar náði ljóðið að hreyfa við mér og gefa mér einhverja innsýn í þann hrifheim sem skáldið reynir að skapa." Umfjöllunina má lesa með því að smella hér.

SMEKKLEYSA sm.ehf. kynnir nýjar bækur:

FJÓRAR LÍNUR OG TITILL
eftir Braga Ólafsson

og

RÁÐ VIÐ HVERSDAGSLEGUM UPPÁKOMUM
eftir Óskar Árna Óskarsson


sem báðar eru gefnar út í tilefni af tuttugu ára útgáfuafmæli höfundanna, og koma út á opnunardegi hátíðarinnar ORÐIÐ TÓNLIST sem Smekkleysa stendur fyrir í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík.

Meira hér...

Paul Muldoon – The More a Man Has the More a Man Wants

Paul Muldoon er skáld og fræðimaður, fæddur árið 1951 í Armagh-sýslu, Norður-Írlandi og menntaður í Queen’s University of Belfast. Hann hefur gefið út margar ljóðabækur, fengið fjölda verðlauna fyrir skáldskap sinn, þar á meðal, Pulitzer-verðlaunin árið 2003, T.S. Eliot-verðlaunin, Griffin Poetry-verðlaunin, og The Irish Times Poetry-verðlaunin. Hann gegndi stöðu prófessors í ljóðlist við Oxford-háskóla frá árunum 1999 til 2004, og er nú prófessor við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er almennt viðurkenndur sem fremsta núlifandi ljóðskáld Íra ásamt kunningja sínum, nóbelsverðlaunahafanum Seamus Heaney. Sé leitað að honum í Gegni, þá kemur í ljós að til er ein bók honum tengd á Íslandi. Það er safnbók frá 1986 sem heitir The Faber Book of Contemporary Irish Poetry, ritstýrt af Paul Muldoon. Það er allt og sumt.

Kári Páll Óskarsson skrifar um írska ljóðskáldið Paul Muldoon. Meira hér...

14.5.06

Skáldin berja frá sér - grein í Fréttablaði

Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðing, sem heitir "Skáldin berja frá sér". Í greininni stiklar Kristján á stóru með það sem er að gerast hjá skáldum undir þrítugu í dag. Þar segir meðal annars: "Dagblöðin hafa opnað gáttirnar en það er ekkert mál að dreifa ljóðum í hljóðskrám hvert á land sem er, senda ljóð í síma og iPod og búa til netljóð eða þá starta ljóðtímariti. Allt kveinið um að það vanti "vettvang fyrir ljóðið" hljómar hjárænulega á gullöld bloggsins." Þá minnist Kristján meðal annars á Tregawöttin, sem hann líkir við Jacket. Hann fagnar þeim fjölbreytileika sem má sjá á ljod.is, og segir Nýhil án efa miðpunkt þeirrar gerjunar sem nú á sér stað í ljóðlistinni. Loks bendir hann á að sigurvegarar tveggja nýlegra ljóðakeppna, sigurskáldið Ásta Heiðrún Elísabet Pétursdóttir, og Eyrún Edda Hjörleifsdóttir, sigurvegari í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist, eru báðar raungreinmenntaðar. "Kannski þessar ungu konur hafi fundið réttu formúluna fyrir ljóði 21. aldarinnar?"

Grein Kristjáns má lesa í Fréttablaði dagsins á blaðsíðu 76 í pdf-skjalinu, en 28 á pappír.

12.5.06

3 ljóð e. Hal Sirowitz

Tveir endar á ketti

Systir þín segist elska köttinn,
sagði pabbi, en það er mamma þín
sem hreinsar skálina hans & skiptir
um kattarsandinn. Hún sér um skítverkin.
Systir þín sér um skemmtilegu hlutina – hún
gefur honum að éta & klappar honum. Hún sinnir aðeins
framhlutanum á kettinum & skilur afturhlutann
eftir handa mömmu þinni. En köttur er bæði með fram-
& afturhluta. Með réttu ætti hún að hafa endaskipti &
ekki að láta mömmu þína sjá annast erfiðasta hlutann.


Yfirburðir karla

Það setur okkur skör hærra en konur,
sagði pabbi, að við erum fljótari út úr baðherberginu.
Þær fáu auka sekúndur veita okkur
mikla yfirburði. Á meðan þær
sitja ennþá á klósettinu erum við
þegar að renna upp lásnum. Við
komumst fyrr á næsta stefnumót.
Því meira sem konur nota baðherbergið
þeim mun meira safnast þessar sekúndur upp.
Sekúndur breytast í mínútur. Mínútur
breytast í klukkustundir. Ég vona að þú munir þetta
í hvert skipti sem þú ert á baðinu. Því lengur


Fjarvist ljóssins

Guð starfar með dularfullum hætti, sagði pabbi.
En hann er ekki nærri því eins dulurfullur & mamma þín.
Hann sagði: Verði ljós. Og það varð ljós.
Ég sé ekkert dularfullt við það.
Hann gerði það sem Hann sagðist ætla að gera.
Mamma þín segir: Við skulum ekki verða of sein í bíó.
Samt er hún svo lengi að klæða sig
að það borgar sig ekki að fara. Svo verður hún
æf yfir því að ég fari ekki með hana á neina staði.
Guð skapaði ljós þar sem einungis var myrkur.
Hún skapar einungis ringulreið.

Hal Sirowitz

Þýðing: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Ungur Kópvogningur myrti ekki ítalska stúlku í Þýskalandi e. Hauk Má Helgason

Ljóðið Ungur Kópvogningur myrti ekki ítalska stúlku í Þýskalandi – en orti henni þetta kvæði er eftir Hauk Má Helgason. Upplesturinn er nýr, líkt og ljóðið sem þó hefur stöku sinnum verið lesið upp á síðustu vikum við góðar undirtektir. Haukur Már er félagi í Nýhil og hefur gefið út þrjár ljóðabækur: Eini strákurinn í heiminum sem kunni að telja (2000), 2004 (Nýhil,2003) og Rispa Jeppa (Nýhil, 2005). Smellið hér til að hlusta (hægrismellið og veljið 'save target as' til að vista).

Homo Activitus - myndljóð e. Hauk Má á Tíu þúsund tregawöttum
Blogg Hauks Más
Prematuring the pope e. Hauk Má
Rispa jeppa
2004
Aðilafræðin

Ljóð unga fólksins

Snærós Sindradóttir úr Reykjavík og Ína Sigrún Rúnarsdóttir frá Akranesi hlutu fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppninni Ljóð unga fólksins sem almenningsbókasöfn landsins stóðu að á vormánuðum. Þöll, samstarfshópur um barna- og unglingastarf á bókasöfnum, stendur að keppninni og er þetta í fimmta sinn sem hún er haldin. Að þessu sinni voru þátttökusöfnin 21 að tölu, víðs vegar um landið. Mikill fjöldi ljóða barst í keppnina en eftir grisjun í bókasöfnunum fóru um 450 ljóð áfram til dómnefndar. Þátttakendum var skipt í tvo aldurshópa, 9-12 ára og 13-16 ára.
Verðlaunahafar:

9-12 ára
Fyrsta sæti: Ína Sigrún Rúnarsdóttir, 12 ára, Akranesi fyrir ljóðið “Pabbi”
Annað sæti: Solveig Óskarsdóttir, 12 ára, Kópavogi fyrir ljóðið “Vorkoma”
Þriðja sæti: Skúli Geir Ólafsson, 11 ára, Selfossi fyrir ljóðið “Lestur”

13-16 ára
Fyrsta sæti: Snærós Sindradóttir, 14 ára, Reykjavík fyrir ljóðið “Blekking”
Annað sæti: Aldís Buzgó, 14 ára, Mosfellsbæ fyrir ljóðið “Ævintýri”
Þriðja sæti: Bylgja Ösp Pedersen, 13 ára, Akranesi fyrir ljóðið “Unglingur”


Þess má geta að Snærós Sindradóttir, sigurvegari í eldri flokki, sigraði einnig í yngri flokki árið 2003. Á vef Borgarbókasafnsins má lesa sigurljóð hennar bæði þessi ár.

Dómnefndin var skipuð Iðunni Steinsdóttur rithöfundi, Stefáni Mána rithöfundi og Kristjáni Kristjánssyni rithöfundi og bókaútgefanda. Ljóðakver verður gefið út með vinningsljóðunum ásamt úrvali ljóða úr samkeppninni en í bókinni verða um 65 ljóð. Það voru almenningsbókasöfn á Vesturlandi sem sáu um keppnina að þessu sinni fyrir hönd Þallar.

Orðið tónlist

Í dag, föstudaginn 12. maí kl. 17 verður opnuð sýning í Galleríi Humri eða frægð (í húsnæði Smekkleysu, Laugavegi 59, kjallara) sem markar upphaf Orðsins tónlistar – fjölljóðahátíðar. Þar verða hljóðtengd myndverk eftir Finnboga Pétursson, Harald Jónsson, Kiru Kiru – Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Ólaf J. Engilbertsson og bókverk nemenda í LHÍ. Verk nemendanna felast annarsvegar sjálfstæðu bókverki eftir hvern og einn og hinsvegar í bókverkinu Orðið tónlist, sem er upplýsingaaskja um dagskrá fjölljóðahátíðarinnar Orðið tónlist sem verður dagana 19.-21. maí í fjölnotasal Listasafns Reykjavíkur Hafnarhúsi í samstarfi Smekkleysu og Magnúsar Pálssonar við Listahátíð í Reykjavík. Ghostigital leikur við opnun sýningarinnar í Galleríi Humri eða frægð og Bragi Ólafsson og Óskar Árni Óskarsson lesa úr nýútkomnum bókum sínum.

Heildardagskrá Orðsins tónlistar má sjá á vef Listahátíðar www.listahatid.is.

11.5.06

Kýrin e. Jacques Roubaud


Kýrin
er
dýr
sem

hefur
um
það
bil

fjóra
fætur
sem


til
jarðar.

Jacques Roubaud

Þýðing úr ensku: Ingólfur Gíslason

Þetta ljóð er eftir Jacques Roubaud, stærðfræðiprófessor og ljóðskáld, upphaflega samið á frönsku, en hér þýtt úr ensku. Í stuttri ritgerð segir höfundur frá því þegar hann ræddi ljóðið við skólabörn. Þau voru ósátt við að kýrin hefði um það bil fjóra fætur. Hann spurði þau hvort þau hefðu talið: hvort þau hefðu talið fætur allra kúa í heimi. Til að reka stælana ofan í skáldið spurðu þau kennarann sinn. Sem sagði að jú, kýrin hefði fjóra fætur. Sko! Þarna sérðu.

Jacques Roubaud er félagi í OULIPO og hér má lesa fyrirlestur hans Vörn fyrir ljóðlist 2002.

10.5.06

Ýlfur e. Allen Ginsberg

Eins og fram kom hér í síðustu færslu eru 50 ár síðan bókin Howl and other poems kom út hjá City Lights útgáfu Lawrence Ferlinghetti í San Francisco. Fyrir tæpum þremur árum síðan gaf Nýhil útgáfan út geisladisk með upplestri Eiríks Arnar Norðdahl á eigin þýðingu á Howl, eða Ýlfri, eins og það nefnist í þýðingunni við músíseringar frá tónlistarmanninum Gímaldin. Diskurinn nefndist Á íslensku má alltaf finna Ginsberg og var til sölu í takmörkuðu upplagi í eins og eitt misseri. Diskurinn er löngu uppseldur og hefur verið ófáanlegur í langan tíma. Tíu þúsund tregawött eru því stolt að geta boðið upp á þetta týnda verk. Verkið er í fjórum hlutum, eins og ljóðið. (Hægrismellið og veljið "save target as" til að vista)

Ýlfur - fyrsti hluti
Ýlfur - annar hluti
Ýlfur - þriðji hluti
Neðanmálsgrein við Ýlfur

Er goðsögnin stærri en ljóðið?

Í mars síðastliðnum kom út greinasafnið The Poem That Changed America : "Howl" Fifty Years Later. Bókin hefur að geyma greinar um hið magnaða ljóð Howl eftir Allen Ginsberg. Bókin kom út í tilefni af því að í ár eru fimmtíu ár liðin frá því Howl kom út hjá City Lights útgáfunni í San Francisco. Í síðustu viku birtist athyglisverð grein í Boston Globe vegna útkomu þessarar nýju bókar um Howl. Höfundur greinarinnar er David Barber, ritstjóri ljóðasíðna tímaritsins The Atlantic. Í greininni veltir Barber þeirri spurningu upp hvort goðsögnin um Howl sé stærri en ljóðið sjálft og hvort skilaboð ljóðsins hafi staðist tímans tönn betur en ljóðformið sjálft. Kynnið ykkur málið hér.


Fleiri tenglar:

Grein í The Village Voice um The Poem That Changed America og bókina Sketches
Grein í The New York Times um The Poem That Changed America
"Fáein orð um Allen Ginsberg og leitin að beat" eftir Eirík Örn Norðdahl

9.5.06

Um réttinn til þess að vera saklaus og nauðsyn þess að fullorðnast

Back to the Poem Part I

Hvenær er tími ljóðsins? Hvað á að yrkja um í dag, á morgun, hvað gleymdum við að yrkja um í gær? Eiga ljóðskáld að vera í takt við tímann eða meðvitað úr takti? Búum til ljóðrænan DeLorean og sláum inn ártöl, byrjum á 1995 og 2005.

Ef þú ýtir hér færðu að vita meira en við sögu koma Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason og Andri Snær Magnason auk þess sem Hrafn Jökulsson er í litlu gestahlutverki – en ekki kæmi á óvart að hann komi meira við sögu í framhaldinu ...

Rauðanótt másarans e. Anton Helga Jónsson (mp3)

Upplestur Antons Helga Jónssonar á ljóði sínu Rauðanótt másarans var upphaflega gefinn út á hljóðsnældunni Lystisnekkjan Gloría. Lystisnekkjan Gloría var önnur af tveimur sams konar kassettum (hin hét Fellibylurinn Gloría) sem innihéldu ljóðalestra og ljóðahljóð frá íslenskum skáldum, t.d. Jóhamar, Geirlaugi Magnússyni, Lindu Vilhjálmsdóttur, Degi Kára Péturssyni, Gyrði Elíassyni, Braga Ólafssyni, Sigfúsi Bjartmarssyni, Björk Guðmundsdóttur, Einari Má Guðmundssyni, Sjón og fleirum. Anton Helgi var á sínum tíma ábyrgur fyrir ljóðabókunum Ljóðaþýðingar úr belgísku, Dropi úr síðustu skúr og Undir regnboga. Upplesturinn má nálgast með því að smella hér (til að vista: hægrismellið og veljið "save target as"). Upplesturinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar.

8.5.06

Súsanna systir mín e. Karen Diadick Casselman

Já en ég var aðeins níu ára þá
og full væntumþykju í garð lirfa
ef ekki ástar í garð Súsönnu systur minnar.

Þegar ég veiddi nokkrar appelsínugular
og svartar loðnar og setti þær í gamla majóneskrukku
með loftgötum í lokinu, stakk ég henni ofan í
svo þær hefðu félagsskap. Líka svo
hún gæti fylgst náið með lirfunum
og jafnvel lært eitthvað af þeim
eins og ég hafði gert.

Ég fylgdist með þeim öllum klöngrast upp grasstráin
og varð ekkert hissa þegar Súsanna
olnbogaði sig fyrst alla leið upp.
Ég þurfti að eyða því sem eftir var dags
í að ýta henni aftur ofan í krukkuna með priki.
Hún varð að læra að misnota þær ekki
því annars myndu þær ráðast á hana og hún fengi að sjá eftir því!

Karen Diadick Casselman

Þýðing:
Hildur Lilliendahl

Betri heimur e. Marius Nørup-Nielsen

Ég vil hafa sjálfan mig með í för, það getur svo margt gerst!
Lengi sáumst við skríðandi meðfram þiljunum. Það var meðvitað.
Því skyndilega spruttum við á fætur og hlupum hornanna á milli, með goðsagnakenndri
léttúð
hins upprétta manns,
stukkum við, já eins og geimfarar, í átt að
nýju rúmi (nakin að sjálfsögðu).
Þetta var eitthvað allt annað en að borða. Eða hengja upp málverk í örvæntingarfullri
tilraun til þess að skapa betri hljómburð fyrir barnalega
drauma. Við trúðum því að málverk sem sisvona komu frá sömu
veröld og hræring vöggunnar, sem sagt að (geðs)hræringin væri róandi og skyldi
myrðast. Eða að maður hreinlega gæti kyrkt hringlur. En það var, einmitt af þrjósku, langtum
betra að kýla sjálfan sig!


Meira hér...

Hömluð og óhömluð ljóðlist

Þriðjudaginn 9.maí, kl.20:30 er ljóðakvöld á Hressó. Þar leiða saman hesta sína Ljóð.is, Nýhil og List án landamæra. Fjöldi frábærra ljóðskálda með ólíkan bakgrunn koma fram, útgefin og óútgefin, hömluð og óhömluð, fötluð og ófötluð. Hamlanir kvöldsins eru afstæðar, hvort sem er skortur á mætti í fótum eða hamlanir á tilfinningasviðinu.

Ljóðin verða túlkuð jafnóðum af táknmálstúlkum en kynnir kvöldsins er Viðar Þorsteinsson (þessi hressi á myndinni).

Ljóðskáld kvöldsins eru:

Hildur Lilliendahl,
Bjarni Bernharður,
Hallur Þór Halldórsson
Ásdís Jenna Ástráðsdóttir,
Magnús Korntop,
Haukur Már Helgason
Skúli Steinar Pétursson
og Björk Þorgrímsdóttir.

Homo Activitus e. Hauk Má Helgason


Vídjóljóðið Homo Activitus er eftir Hauk Má Helgason. Því er leikstýrt af Hauki, hann leikur í því, skrifar það og semur tónlistina. Halldór Arnar Úlfarsson var töku- og aðstoðarmaður.

Tenglar:

Blogg Hauks Más
Ferilskrá Hauks Más
Háskólahækur e. Hauk Má
Prematuring the pope e. Hauk Má
Rispa jeppa
2004
Aðilafræðin

7.5.06

Er maðurinn að grínast? Um Gleði og glötun e. Óttar Martin Norðfjörð

Í X-kynslóðarbíómyndinni Reality bites er sena þar sem ein aðalsöguhetjan, Lelaina Pierce (Winona Ryder), sækir um starf á dagblaði og er spurð hvort hún geti skilgreint íróníu. Hún hikstar á þessu og fær ekki vinnuna. Þegar hún kemur heim, pirruð og reið og vonsvikin, gengur hún í fangið á óhamingjusama og listræna snillingnum Troy Dyer:

"Lelaina: I mean, these job interviews, Troy... The word “vivesection” is a staggering understatement. I mean, can you define irony?Troy: Its when the actual meaning is the complete opposite from the literal meaning.Lelaina: My God, where were you when I needed you today?"

Meira hér...

6.5.06

Viðurkenning fyrir ágæti og yfirburði í beitingu hinnar íslensku tungu

List- og ljóðahópurinn Nýhil og ljóðavefritið 10.000 tregawött hafa ákveðið að veita, í fyrsta sinni, hina eftirsóttu Viðurkenningu fyrir ágæti og yfirburði í beitingu hinnar íslensku tungu. Til að öðlast viðurkenninguna þarf að hafa sýnt fram á orðkynngi slíka er áður á tímum var kraftaskáldum töm; viðurkenningarhafi þarf sýnilega að hafa haft áhrif á veröldina með orðum sínum og sýnt þar með fram á gífurkraft þeirra. Líkt og þegar Kolbeinn jöklaskáld kvaðst forðum á við kölska og sendi hann aftur til helvítis, eða þegar Sæmundur orti konu sinni bana á sjöunda barni. Verðlaunin eru veitt í anda lokaorða Steins Steinarr, í lokaljóði Ferðar án fyrirheits, þar sem segir: „Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld. Ég kveðst á við fjandann.“

Að þessu hinu fyrsta sinni fellur viðurkenningin í skaut tveggja óþekktra unglingsstúlkna, sem skutu upp höfði í tilkynningu frá Lögreglunni í Reykjavík, þar sem segir orðrétt: „Lögreglan í Reykjavík hafði afskipti af tveimur unglingsstúlkum, 12 og 13 ára, sem létu mjög ófriðlega í fjölbýlishúsi í borginni í gærkvöld. Hvorug þeirra býr á umræddum stað en íbúar hússins kvörtuðu sáran undan framferði þeirra sem var vægast sagt ekki til fyrirmyndar. Lögreglan hugðist koma stúlkunum til síns heima en þær brugðust ókvæða við og var þá afráðið að flytja þær á lögreglustöð. Á leiðinni þangað hótuðu þær lögreglumönnum öllu illu og viðhöfðu svívirðingar sem ekki er hægt að hafa eftir. Lögreglumenn eru ýmsu vanir en þarna keyrði um þverbak enda var munnsöfnuður stúlknanna óhugnanlegur.“

Dómnefnd þykir ljóst að á meðan æskan býr yfir slíkri orðkynngi sem getur fengið lögregluna til að roðna, þurfi ekki nokkur maður að hafa áhyggjur af málþroska barna þessa lands. Tekið skal fram að dómnefnd veitir verðlaunin einungis á grundvelli vandlætingar lögreglunnar, enda veit dómnefnd ekki hvað það var sem stúlkurnar sögðu sem svo fór fyrir brjóst lögreglunnar. Dómnefnd veit enn sem komið er ekki heldur hverjar stúlkurnar eru, en vilji þær heimta viðurkenningarskjal og bókagjöf frá Nýhil og 10.000 Tregawöttum er þeim bent á að hafa samband við 10.000 Tregawött á netfangið tiuthusundtregawott@gmail.com.

2 ljóð eftir Ingunni Snædal

silungsveiði á Íslandi

Skýin strjúka svarta mela
hvítum mjúkum lófa
bera upp að vanga sér
dökka og hrjúfa húð landsins

bleik fjöll og blátt gras

ég hlusta á vatnið skvaldra

í ljósum himnavötnum
svamlar stöku ský
líttu á
grænir bakkar árinnar
rísla við vatnið

blæs í eyra mér
ofurlétt
togar í hárið
og bláar örvar á vatninu
benda allar á mig
í appelsínugulu vestiXVII

Ég er andskotans alltaf
að hugsa um þig
vildi að ég væri
viss og örugg
gæti hvílt í þeirri tilfinningu
eins og hengirúmi
örugg og glöð

ég er mjög glöð í hengirúmum


Ingunn Snædal

Operation Nukorea e. Young-Hae Chang Heavy Industries

Einhverjir kannast væntanlega við Young-Hae Chang Heavy Industries, sem meðal annars eiga heiðurinn af hinu stórfenglega ljóði Cunnilingus in North Korea. Í tilefni af yfirvofandi kjarnorkuárásum á Írani hafa Tregawöttin ákveðið að deila með lesendum sínum ljóðinu Operation Nukorea. Annars skal lesendum einnig bent á að fjöldann allan af verkum Young-Hae Chang Heavy Industries má nálgast á http://www.yhchang.com/.

Tenglar:
Young-Hae Chang Heavy Industries á Wikipedia
Viðtal við Young-Hae Chang Heavy Industries

Augu elskhuga míns eru ekki eins og sólin e. Diane di Prima


Þessi augu eru rafgul, þau
hafa engan augnstein, þau eru fyllt
bláu ljósi (eldi).
Þau eru augu guðanna
augu skordýra, flakkandi
guðsmenn stjörnuþokunar, málm
vængir.
Þessi augu voru græn
kyrr, sjávargræn, eða grá
ljós þeirra
minna skilgreind. Þessi sjávargrænu
augu vefa drauma í hinu
áþreifanlega andrúmslofti. Þau eru ekki þín
eða mín. Það er sem hinir dauðu
sjái í gegnum augu þín, að aðrir hafi um stund
fengið lánaða þessa glugga, starandi.
Við erum kyrr. Það er sem að þessir gluggar
fyllast um stund með öðruvísi
ljósi.

Ekki blá, ekki rafgul. Heldur tjöldin sem dregin eru
yfir þína daglegu sjón séu dregin frá.
Hver ert þú, í raun og veru. Ég hef séð það
nógu oft, hið nakta
starandi augnráð valdsins. Við "hlöðum"
hvort annað með því / stokkið
inn án svika, við lifum í vindi
án hljóms. Hvar
erum við, raunverulega, klifrandi
hliðarnar á byggingum, til að rýna inn
eins og kóngulóarmaðurinn, í glugga
sem tilheyra ekki okkur.

Diane di Prima

Þýð. Birgitta Jónsdóttir.

Kynvilla, fullnæging, nauðgun og fleiri performansarUm fyrsta þátt Rock Star: Supernova

Áður en lengra er haldið er rétt að svara fyrst spurningunni augljósu: Hvað í fjandanum er umfjöllun um söngvakeppni að gera á ljóðasíðu?

Jú, þegar þessar keppnir eru dæmdar þá er fyrst minnst á sönginn – skiljanlega – og persónuleikann en við og við er rætt um hvernig flytjendunum takist að túlka lögin. Sem þýðir í raun oftast þetta: hversu gott skynbragð bera flytjendur á þá ljóðlist sem sönglög eru.

That deaf, dumb and blind kid
Sure plays a mean pinball


Þetta byrjaði á kynvillu – hún
Storm Large hóf raust sína með orðunum „Ever since I was a young boy.“ Ef hún hefði leikið sér með þversögnina hefði þetta getað verið forvitnilegt, hins vegar var þetta einungis til merkis um að hún hafði aldrei hugsað um orðin, aðeins lært að syngja þau eftir minni. Kláraði sönginn svo með einkennilegu öskri sem var jafnmikið úr takt við lagið og allt annað, synd því stelpan getur alveg sungið.

And I don't want the world to see me
Cause I don't think that they'd understand
When everything's made to be broken
I just want you to know who I am


Næstur á svið var
Ryan Star með Írisi þeirra Goo Goo Dolls-manna. Hann byrjaði veikt og vann sig inn í lagið og náði salnum fullkomlega þegar hann kyrjaði „I don't want to go home right now,“ tilfinning sem ljósritaðist í flestum hinum söngvarahjörtunum. Auðvitað getur sjálfhverfan keyrt fram úr hófi og vonandi munu ekki allir syngja bænasöngva um að vera ekki sendir heim en þetta þrælvirkaði.

Mama, put my guns in the ground
I can't shoot them anymore.
That long black cloud is comin' down
I feel like I'm knockin' on heaven's door


Söng
Toby Rand. En þegar kom að þeim kafla þar sem „I feel“ var skeytt framan við titilinn þá var falsið augljóst, það var einmitt þetta sem vantaði, söngurinn var í lagi en hann hafði enga löngun til þess að banka uppá hjá almættinu og það var alltof augljóst.

When the truth is found to be lies
And all the joy within you dies

Don't you want somebody to love
Don't you need somebody to love
Wouldn't you love somebody to love
You better find somebody to love


Þennan Jefferson Airplane slagara tók
Patrice Pike. Þetta er gratt ástarlag, manískt og stúlkan skilaði því alveg hreint ágætlega en þó ekki frábærlega. En svo var röðin komin að eina Evrópubúanum ...

When i'm drivin' in my car
And that man comes on the radio
He's tellin' me more and more
About some useless information
Supposed to fire my imagination
I can't get no, oh no no no
Hey hey hey, that's what i say

I can't get no satisfaction
I can't get no satisfaction
'cause i try and i try and i try and i try
I can't get no, i can't get no


Magni. Eftirnafnið hans í hérlendum fjölmiðlum verður vafalítið Okkar á næstunni en hann er þó alls ekki minn. Þó verð ég að segja að hann stóð sig alveg ágætlega með Fullnægingu Stonesara. Hann sýndi fína dómgreind þegar hann stytti fyrsta Satisfaction í satis, það þarf jú að halda aftur af sér þegar kemur að fullnægingum. Auðvitað er Magni pirrandi en hann er pirrandi á ekki ósvipaðan hátt og Jagger, útstæð tungan hjá báðum á ágætlega við þetta lag. Eftir lagið var svo óneitanlega kómískt að sjá hann eins og óákveðin fermingardreng við hliðina á kynni kvöldsins þar sem hann reyndi að ákveða hvort hann ætti að halda almennilega utan um hana eða ekki.

how can you see into my eyes like open doors
leading you down into my core
where I’ve become so numb without a soul my spirit sleeping somewhere cold
until you find it there and lead it back home


Hvernig getum við séð í augun á henni? Hvernig, á meðan svartur maskarinn og skugginn á andlitinu huldu þau að mestu?
Zayara Alvarez frá Puerto Rico hélt keppninni áfram alþjóðlegri og stelpan sú átti svo algjörlega sviðið með langbestu frammistöðu kvöldsins til þessa, það þrátt fyrir að erfitt lagið hefði bugað röddina lítillega í lokin. Einhver dæmandinn bað hana í kjölfarið að giftast sér, slíkt er auðvitað rakinn dónaskapur enda lágmark að bíða fram á annað deit með bónorð jafnvel ef þau eru ekki ekta. En maður skildi karlangann alveg.

And this is how, you remind me
Of what I really am
This is how, you remind me
Of what I really am


"How You Remind Me" var hér sungið af
Jenny Galt. Hún náði alveg að selja mér að hún hefði samið lagið. Gítarinn hjálpaði örugglega til. En því miður var lagið bara ekki nógu gott og athyglin flökti.

She paints her eyes as black as night now
She pulls those shades down tight
Oh yeah, theres a smile when the pain comes,
The pains gonna make everything alright, alright yeah

She talks to angels,
Says they call her out by her name
Oh yeah, yeah, angels
Call her out by her name


Josh Logan virtist ætla að verða gáfumannapoppari kvöldsins. Stór og timbruð orð eins og multidimensional og reinvent voru uppistaðan í orðaforða drengsins í innslaginu áður en hann hóf söng – en þegar hann kom á svið virtist hann helst vera þroskaheftur. Máski átti það við textann, ég þurfti að gúgla honum til þess að fá staðfest að texti um andsetna eða skyggna stúlku virkaði ansi fjarlægur túlkun Logans.

look how they shine for you
look how they shine for you
look how they shine for you
look how they shine for you
look how they shine
look at the stars look how they shine for you


Matt Hoffer söng næst um ljóshærða íslenska Keflavíkurmær – eða svo hermir að minnsta kosti orðrómurinn gamli. En hann tók Yellow vel og hallaði sér sannfærandi niður að einni stúlkunni í áhorfendaskaranum til þess að eigna henni eitt „for you“. Og gott ef stráksi er ekki með bestu röddina í keppninni.

I'm so lonely, but that's okay, I shaved my head ...
And I'm not sad
And just maybe I'm to blame for all I've heard ...
But I'm not sure
I'm so excited, I can't wait to meet you there ...
But I don't care
I'm so horny, but that's okay ...
My will is good
Hey, hey hey [x6]

I like it - I'm not gonna crack
I miss you - I'm not gonna crack
I love you - I'm not gonna crack
I killed you - I'm not gonna crack


Söng hin Suður-Afríska
Dilana í Kurt Cobain stað. Í innslaginu sýndist manni þetta vera hress og lífsglöð stelpa sem hafði lifað tímana tvenna, en þegar á sviðið kom leit hún út eins og sturluð norn. Fyrst stendur hún grafkyrr – „standing still you have this intensity about you“ sagði einn dæmenda réttilega – áður en hún hoppar og skoppar um sviðið seinni hlutann, þó alltaf í sama karakter sem mann grunar þó að sé ekki hennar. Syngjandi „I'm not gonna crack“ og maður trúir henni rétt mátulega – en um leið og tónlistin þagnar hverfur nornin og hressa lífsglaða stelpan frá Jóhannesarborg mætir aftur á sviðið.

I'm the only one
Who'll drown in my desire for you
It's only fear that makes you run
The demons that you're hiding from
When all your promises are gone
I'm the only one


Dana Andrews er næst, hún er ung og veit af því – hún segir okkur að flugferðin á tökustað hafi verið hennar fyrsta flugferð. Lagið er „I'm the only one,“ það heyrist í stelpunni og hún kemur einföldum boðskap viðlagsins vel til skila – en þetta er ekki djúp speki.

Neon lights, a nobel prize
The mirror speaks, the reflection lies
You don't have to follow me
Only you can set me free
I sell the things you need to be
I'm the smiling face on your t.v.
I'm the cult of personality
I exploit you still you love me


Næsta innslag er með þeim skemmtilegri og ég byrja að halda smá með
Phil Ritchie þegar hann segir okkur að hann hafi hætt í eðlisfræði í háskóla því hann hafi ekki viljað vera tilraunarotta heldur vilji hann verða rokkstjarna. En svo kemur flutningurinn og þó hann hafi ekki beint verið slæmur þá var þetta dálítið eins og eftirminnilegasta atriðið á árshátíð eðlisfræðinema. Einn besti texti kvöldsins þó, ætti betra skilið.

I want you to come on, come on, come on, come on and take it,
Take it!
Take another little piece of my heart now, baby!
Oh, oh, break it!
Break another little bit of my heart now, darling, yeah, yeah, yeah.
Oh, oh, have a!
Have another little piece of my heart now, baby,
You know you got it if it makes you feel good,
Oh, yes indeed


Síðasta stúlkan þetta kvöldið var þversögn kvöldsins.
Jill Gioia virkar afskaplega slétt og feld stúlka við fyrstu sýn og því virkaði Janis Joplin einkennilegt val. En þegar söngurinn hefst áttar maður sig á að þetta er Janis endurfædd, máski búin að fara í nokkrar lýtaaðgerðir í eftirlífinu til að falla betur að stöðluðum fegurðarhugmyndum en röddin og sálin er enn til staðar – besti kvensöngvari kvöldsins ásamt Zayöru hinni Puerto Ríkönsku.

Roxanne, you don't have to put on the red light
Those days are over
You don't have to sell your body to the night
Roxanne, you don't have to wear that dress tonight
Walk the streets for money
You don't care if it's wrong or if it's right


Roxanne er magnað lag, en þeir sem heyrðu það í fyrsta skipti í gærkvöld eru vafalaust ósammála mér. Næstsíðastur og langverstur var
Chris Pearson. Flutningur hans á Roxanne var einfaldlega nauðgun kvöldsins, nú ríður á að upphaflegir flytjendurnir í Police standi undir nafni og vísi honum úr keppni.

Last night a little dancer came dancin' to my door
Last night a little angel came pumpin cross my floor
She said "Come on baby I got a licence for love
And if it expires pray help from above"

In the midnight hour she cried- "more, more, more"
With a rebel yell she cried- "more, more, more"
In the midniight hour babe- "more, more, more"
With a rebel yell- "more, more, more"
More, more, more.


Lukas Rossi gat ég hins vegar ekki annað en kunnað vel við, hann minnir mig svo á Mark Ruffalo. Hann öskraði Uppreisnaröskur Billy Idol og öskraði vel, söng líka þegar við átti – en samt hef ég á tilfinningunni að meira búi í strák. Á meðan má alltaf stúdera litríka hárgreiðsluna.

Ásgeir H Ingólfsson
Refresh Page